Fara í efni

Frægir Íslendingar deila fermingar­myndum

Lífsstíll - 6. febrúar 2023

Heybögglar, vöfflur, fléttur, spangir og hlaupabóla. Þjóðþekktir einstaklingar rifja upp fermingardaginn og deila skemmtilegum minningum og ljósmyndum með lesendum.

Eva Ruža

Eva Ruža, fjölmiðlakona, skemmtikraftur, kynnir, veislustjóri og áhrifavaldur með meiru, fermdist í Kópavogskirkju 27. mars árið 1997.
„Börnin mín eru að fara að fermast í ár og ég sýndi þeim myndirnar úr fermingunni minni og sagði að ég væri að stefna á svipað lúkk með þau,“ segir Eva og skellir upp úr.

„Fermingardagurinn: Dagurinn þar sem ég reyndi greinilega að púlla Amy Winehouse hárgreiðslu - með skrauti. Amy Winehouse var reyndar ekki komin á kortið þá en ég gæti trúað að hún hafi mögulega rekist á fermingarmyndirnar mínar og fengið innblástur. Mig langar líka til að benda á fallega klippta toppinn sem liggur yfir ennið. Það loftaði vel um ennið þar sem ég vildi bara þunnan „topp“ - og perluspennu sem hélt aðeins toppnum til hliðar. Það er í raun magnað að skoða alla nákvæmnina sem var lögð í greiðsluna. Svo mikið búið að nostra við mig þarna,“ segir Eva Ruža um fermingarmyndina af sér.

Eva glottir þegar fermingarmyndirnar eru dregnar fram í dagsljósið. „27. mars er festur kyrfilega í minnið. Fermingardagurinn: Dagurinn þar sem ég reyndi greinilega að púlla Amy Winehouse hárgreiðslu - með skrauti.“
Nýleg mynd af tískuáhrifavaldinum Evu Ruža.

Linda Ben

Linda Benediktsdóttir, eldhúsgyðja og áhrifavaldur, fermdist í Grafarvogskirkju árið 2002.
„Það sem ég rek augun í þegar ég pæli í outfittinu mínu er að ég hef greinilega áttað mig snemma á stílnum,“ segir Linda, sem er þekkt fyrir fallegan klæðaburð.

„Það hefur mikið breyst síðan ég fermdist enda komin „örfá“ ár síðan og ég þroskast mikið, en það sem ég rek augun í þegar ég pæli í outfittinu mínu er að ég hef greinilega áttað mig snemma á stílnum mínum. Það var mikið um hvíta blúndukjóla í tísku þegar ég fermdist. Ég fílaði það ekki svo ég leitaði uppi mest einfalda „beige“ litaða kjólinn, sem ég fann í SMASH - af öllum búðum. Ég fílaði kjólinn mjög vel þá og ég geri það enn. Alveg klassískur, ekta Lindu Ben kjóll og ég myndi örugglega klæðast honum aftur í dag ætti ég hann.“

Það er ekki annað að heyra en að Linda sé sátt.

„Ég var alveg ágætlega ánægð með fermingarmyndirnar, eins ánægð og 13 ára unglingar geta verið með myndirnar af sér held ég bara. Það er reyndar ólíkt mér að vera ekki meira brosandi en ég var mjög meðvituð um spangirnar sem ég var nýkomin með á þessum tíma og vildi ekki sýna þær á myndunum. Þessi mynd var að minnsta kosti inn í stofu á æskuheimilinu mínu og leyfði ég henni alveg að vera þar.“

Ég fílaði kjólinn mjög vel þá og ég geri það enn. Alveg klassískur, ekta Lindu Ben kjóll og ég myndi örugglega klæðast honum aftur í dag ef ég ætti hann.

Vilhelm Anton Jónsson

Vilhelm Anton Jónsson, a.k.a. Villi naglbítur, tónlistarmaður og fjölmiðlamaður, fermdist í Akureyrarkirkju árið 1992.
Þegar fermingarmyndirnar komu aftur frá Palla ljósmyndara, var ég með svo krumpað enni á þeim öllum, sem þótti víst ekki töff, að ég þurfti að fara aftur í myndatöku.

„Glæsilegur grænn jakki sem ég fór mögulega aftur í þegar Kári bróðir fermdist. Var keyptur stór og víður svo gæti notað í mörg ár. Þegar fermingarmyndirnar komu aftur frá Palla ljósmyndara, var ég með svo krumpað enni á þeim öllum, sem þótti víst ekki töff, að ég þurfti að fara aftur í myndatöku. Það var frekar glatað að ekki ein mynd væri nothæf. Síðan þá hef ég reynt að negla allt í fyrstu töku. Sama hvort er bíó, tónlist eða myndataka.“

Mynd: Saga Sig.
Vilhelm Anton Jónsson, a.k.a. Villi naglbítur, tónlistarmaður og fjölmiðlamaður.

Birgir Steinn Stefánsson

Birgir Steinn Stefánsson, tónlistarmaður, fermdist í Digraneskirkju árið 2006.
Ég fermdist í Digranesskirkju árið 2006. Veislan var síðan haldin á Kaffi Reykjavík. Ég man að Hildur Vala og Jón Ólafs tóku lagið og mér fannst það geggjað.

„Mér finnst hárgreiðslan frekar flott, þarna hafði ég í það minnsta þolinmæði í að safna smá hári. Ég man að mér fannst jakkinn hallærislegur á sínum tíma, en ég valdi bleiku skyrtuna og bindið sjálfur svo það sé hreinu,“ segir Birgir Steinn og hlær. „Þetta lúkk hefur svona komið og farið úr tísku annað slagið, alla vegar sítt hár sem er að detta inn við og við. Bleikt bindi ofan á bleika skyrtu hefur þó líklega ekki verið sérstaklega í tísku og verður það eflaust aldrei!“

Mynd: Magnús Unnar
„Bleikt bindi ofan á bleika skyrtu hefur þó líklega ekki verið sérstaklega í tísku og verður það eflaust aldrei!“

Ragnhildur Þórðardóttir

Ragnhildur Þórðardóttir, sálfræðingur, betur þekkt sem Ragga Nagli, fermdist í 1993 í Bústaðakirkju.
Kjóllinn var saumaður af ömmu minni, Ingibjörgu Þórðardóttur. Amma var stórkostlega hæfileikarík í saumaskap.

Ég var með frunsu þennan dag sem var auðvitað heimsendir fyrir óörugga 14 ára unglingsstúlku. Svo ég juðaði á mig þykku lagi af varalit til að fela þennan ófögnuð,“ segir Ragga þegar hún virðir fyrir sér fermingarmyndina af sjálfri sér. „Kjóllinn var saumaður af ömmu minni, Ingibjörgu Þórðardóttur. Þetta var hnésíður, beinhvítur satínkjóll með blúnduermum og ég valdi sjálf efnið og lét ömmu vita hvernig hann ætti að vera í sniðinu. Amma var stórkostlega hæfileikarík í saumaskap.“

Ragga segir fermingardaginn hafa verið sólríkan og fagran pálmasunnudag. „Veislan var haldin heima hjá okkur í einbýlishúsi í Fossvoginum. Man ekki alveg eftir veitingunum, svo ég var greinilega ekki sami matarperrinn þá og ég er í dag. Það var spiluð félagsvist og riggað upp fullt af briddsborðum á neðri hæðinni fyrir gestina sem í minningunni voru alveg ótrúlega margir.“

Og ekki skemmdu fermingargjafirnar fyrir. „Ég fékk steríógræjur frá ömmu og afa og heilan hest frá foreldrunum, en framinn sem knapi tók snöggan endi þremur árum síðar þegar ævintýri unglingsáranna í borg óttans urðu mikilvægari en að ríða út á hrossi í Víðidalnum,“ lýsir Ragga og kímir.

„Ég fékk ekki mikinn pening í gjafir, en þeim mun meira af skrautskriftarpennum, ljóðabókum, skartgripum og fleira sem ég notaði skömmustulega aldrei.“

Mynd: Aníta Eldjárn.
„Veislan var haldin heima hjá okkur í einbýlishúsi í Fossvoginum. Man ekki alveg eftir veitingunum, svo ég var greinilega ekki sami matarperrinn þá og ég er í dag.“

Snjólaug Lúðvíksdóttir

Snjólaug Lúðvíksdóttir, uppistandari, skemmtikraftur og handritshöfundur, fermdist í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði árið 1996.
Nei, svona hárgreiðslur voru ekki í tísku. Stelpur fermdust með slöngulokka en mér fannst geggjað að vera með heyböggla, vöfflur, fléttur og slaufur á hausnum!
Mynd: Saga Sig.
Árið 1996 fermdust stelpur með slöngulokka. Snjólaug synti hins vegar gegn straumnum.

María Birta Bjarnadóttir

María Birta Bjarnadóttir leikkona fermdist í Grafarvogskirkju árið 2002.
Ég gæti ekki verið ánægðari með myndirnar mínar. Pabbi tók þær af mér í kirkjunni rétt eftir ferminguna.
María Birta leikkona er hæstánægð með fermingarmyndirnar af sér.
Pabbi Maríu Birtu tók myndirnar af henni að lokinni athöfn.

Úlfar Viktor Björnsson

Úlfar Viktor Björnsson tónlistarmaður, verslunarstjóri og förðunarfræðingur fermdist í Grafarvogskirkju árið 2007.
Ég man að ljósmyndarinn bað mig um að ímynda mér að ég væri í Dressmann-auglýsingu og þetta var útkoman.

„Hárprúður og með hettustrípur. Ég man að ljósmyndarinn bað mig um að ímynda mér að ég væri í Dressmann-auglýsingu og þetta var útkoman. Ætli ég hafi ekki fengið þessi hræðilegu jakkaföt að láni frá pabba mínum. Ég fékk einhverja pílu í hausinn um að vera í hvítum jakkafötum en móðir mín sló það út af borðinu - mér til mikillar ánægju í dag.

En þetta bindi... ég held að ég myndi ekki láta sjá mig með bindi í dag þótt ég fengi borgað fyrir það. En þessi strákur á þessari mynd var pikkfastur inni í skápnum og skíthræddur við að takast á við raunveruleikann og það sem mig langar mest að gera er að knúsa hann og segja að þetta verði allt í lagi,“ segir Úlfar.

Myndi hann breyta einhverju ef hann væri að fara að fermast í dag?

„Já, ýmsu. Fyrir það fyrsta myndi ég persónulega ekki láta ferma mig í dag. Ég myndi ekki fá mér þessar hettustrípur og þessi teinóttu jakkaföt og þetta bindi kæmi alls ekki til greina. Í dag færi ég í Kölska og myndi láta þá drengi sérsníða á mig falleg jakkaföt í einhverjum fallegum litatónum.

Á þessum tíma fannst mér ég samt flottastur og það er kannski það eina sem skiptir máli þegar uppi er staðið. Ég man hvað ég var sáttur við myndirnar mínar og í dag sé ég bara eitthvað krútt í fötum sem „klæddust hann“, frekar en í fötum sem hann klæddist. Ef þú skilur hvað ég meina.“

Mynd: Baldur Kristjánsson.
„Á þessum tíma fannst mér ég samt flottastur og það er kannski það eina sem skiptir máli þegar uppi er staðið,“ segir Úlfar.

Guðmundur Birkir Pálmason

Guðmundur Birkir Pálmason áhrifavaldur og kírópraktor, betur þekktur sem Gummi kíró, fermdist í Hafnarkirkju í á Höfn í Hornafirði árið 1994.
Ég verð bara að segja það að ég er bara nokkuð sáttur með lúkkið. Það hafa verið stærri tískuslys en þetta á fermingarmyndum landans!
Gummi kíró hefur mikinn áhuga á tísku.

Ólafur Egill Egilsson

Ólafur Egill Egilsson, leikari, leikstjóri og leikskáld, fermdist í Hallgrímskirkju árið 1991.
Síðan datt einhverjum í hug að þegar við fermingarárgangurinn gengjum inn Hallgrímskirkjugólfið væri sniðugt að raða hópnum eftir stærð, minnstir fyrst, svo ég þurfti að ganga fyrstur inn, og mér fannst allir stara á þennan litla sminkaða bólugrís!

„Ég lenti í því að fá hlaupabólu rétt fyrir ferminguna. Þegar kom að stóra deginum var ég ennþá með ör eftir bólurnar og vildi helst fá að sleppa þessu. En Mamma hafði ráð undir rifi hverju og sminkaði yfir verstu blettina. Ég mótmælti, en hún var alveg ákveðin í því að þetta myndi redda öllu.

Síðan datt einhverjum í hug að þegar við fermingarárgangurinn gengjum inn Hallgrímskirkjugólfið væri sniðugt að raða hópnum eftir stærð, minnstir fyrst, svo ég þurfti að ganga fyrstur inn, og mér fannst allir stara á þennan litla sminkaða bólugrís. Ég man svo bara hvað það var heitt í kirkjunni og hvað athöfnin var óbærilega löng, maður var auðvitað með einhvern kirtil yfir sér líka og ég svitnaði og svitnaði og mér fannst ég finna meikið leka niður andlitið.

Eftir athöfnina hitti ég svo stelpuna sem ég var skotinn í, Esther Talíu, og hún vorkenndi mér voða mikið, og þó það væri ágætt þannig séð, þá fullkomnaði það einhvern veginn niðurlægingu dagsins. Svo ég gekk mjög auðmjúkur og bugaður í kristinna manna tölu.

Ljósmyndin var síðan tekin einhverjum vikum seinna enda virðist ég að mestu búinn að jafna mig, líkamlega og andlega.“

Mynd: Jorri fyrir Þjóðleikhúsið.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu