Fara í efni

Heima­stefnu­mótin eld­sneyti fyrir komandi viku

Fjölskyldan - 8. febrúar 2022

Það getur verið snúið fyrir foreldra ungra barna að skipuleggja stefnumót. Hver á passa og hvert á að fara? Þá hefur tveggja ára heimsfaraldurinn með tilheyrandi samfélagstakmörkunum ekki auðveldað elskendum málin. Hér gæti lausnin þó verið komin! Hjónin Alma R. Thorarensen og Snæþór S. Halldórsson eru ekki að flækja hlutina og kunna svarið við því hvernig á að viðhalda neistanum, þau einfaldlega rigga upp heimastefnumóti flest laugardagskvöld ársins.

Alma og Snæþór voru kynnt af sameiginlegum vini árið 2006 og hafa verið saman síðan. Þau eiga þrjú börn, Arndísi Rún 21 árs, sem Alma hreppti í kaupbæti með eiginmaninum og þá Brimi Örn 7 ára og Erni Hlé 6 ára. Þau hafa búið í Noregi undanfarin 11 ár og starfa bæði í tæknigeiranum, Snæþór sem ráðgjafi á tæknisviði og Alma er mannauðsfulltrúi. Þau Alma og Snæþór komu sér upp þessari skemmtilegu hefð þegar drengirnir voru litlir og hafa haldið henni síðan. Hvað varð til þess að þau ákváðu að helga laugardagskvöldin hvort öðru?

„Drengirnir eru fæddir með tólf mánaða millibili og voru þeir báðir óværir fyrstu árin. Tæplega þarfnast það frekari skýringa að álagið á heimilinu var mikið og stuðningsnetið eins og það lagði sig, búsett á Íslandi. Fyrirkomulag heimastefnumótanna í upphafi gekk því fyrst og síðast út á tvennt: a) Vera í hreinum fötum í augnablik, eitthvað sem foreldrar smábarna tengja eflaust ágætlega við og b) geta borðað saman í friði. Í hraða nútímans, með börn, í vinnu og skóla, íþróttaæfingum, heimalærdómi, heimilisverkum, ræktinni og öllu því sem þarf að sinna, gleymist oft kjarni heimilisins, sem að okkar mati er parasambandið,“ segir Alma, en þau hjónin fara á heimastefnumót flesta laugardaga ársins og oftar í fríum og yfir sumartímann.

Hjónin Alma R. Thorarensen og Snæþór S. Halldórsson eru ekki að flækja hlutina og kunna svarið við því hvernig á að viðhalda neistanum.

Tækifæri til að leggja foreldragallanum í augnablik

Alma segir að í fyrstu hafi umgjörð stefnumótanna og það hvað á boðstólum var hverju sinni verið algert aukaatriði.

„Þegar við byrjuðum á þessu vorum við á þeim stað í lífinu að það eitt að geta sest niður í ró og borðað, að minnsta kosti nokkra matarbita áður en annað hvort barnið rumskaði, var algjör munaður. Á þessum tíma var það einfaldlega upplifun þegar Snæþór dró geltúbuna fram og gerði sig sætan og ég náði að setja á mig ilmvatnsdropa og varalit! Við hittumst svo í stofunni sæt og fín, búin að gera okkur til fyrir hvort annað í sitt hvoru rými hússins. Það gaf okkur tækifæri á því að leggja foreldragallanum í augnablik og eftir stóð parið VIÐ, Alma og Snæþór, í eigin sjálfi og engum öðrum hlutverkum og borðaði saman,“ segir Alma, en bætir því við að eftir því sem tíminn hafi liðið, börnin elst hafi heimastefnumótin þróast. „Nú höfum við bæði meiri tíma og orku. Matseldin er hin glæsilegasta, við gerum okkur glerfín í sitt hvoru lagi og hittumst í stofunni. Borðum saman, njótum góðra drykkja og spjöllum um heima og geima. Mögulega munu einhverjir hnjóta um orðalagið „glæsileg matseld“ og vaxa það í augum. Ég er svo heppin að maðurinn minn hefur brennandi áhuga á eldamennsku og riggar upp veislumáltíð á mettíma. Það á auðvitað ekki við um alla og okkur finnst mikilvægt að koma á framfæri að þessar stundir hverfast fyrst og síðast um að setjast niður og borða saman og njóta samverunnar í friði fyrir skarkala lífsins,“ segir Alma.

Mikilvægt að umgjörðin sé sem best

Þá er ekki úr vegi að heyra hvernig heimastefnumót þeirra Ölmu og Snæþórs eru í dag og að hverju þurfi helst að huga í tengslum við undirbúning þeirra.

„Lykilatriðið er að skapa rétta andrúmsloftið. Að heimilið líti ekki út eins og á úlfatímanum eftir að börnin koma heim á virkum dögum, að skólatöskurnar séu hvergi sjáanlegar og að púðarnir í sófanum séu á réttum stað,“ segir Snæþór og bætir því við að sitt hlutverk sé að tryggja að öll umgjörðin sé sem best.

„Ég færi frúnni glas með góðum drykk, tek til í stofunni, kveiki á kertum, legg á borð og bý til góðan mat. Maturinn verður líka að vera eitthvað sem við borðum ekki á snjóþungum miðvikudegi eftir vinnu og skutl, heldur verður hann að skara framúr, vera meira í ætt við það sem boðið er upp á á veitingahúsum. Ég hef útbúið allskonar mat í gegnum tíðina, en passa samt að hafa matseldina ekki of flókna, undirbúningurinn á ekki að taka allan daginn. Ég er því oft með steik, tapas eða sushi svo eitthvað sé nefnt. Við erum svo yfirleitt búin að ákveða fyrirfram hvenær Alma mætir, þannig að þegar hún líður inn í stofuna á háu hælunum, með glettið augnaráð og rauðar varir, þá er allt klárt. Dempuð ljós, notaleg tónlist ómar úr hátölurum, kertaljósin dansa á veggjum og bóndinn stendur klár með veisluföngin og vísar frúnni til sætis. Svo byrja barasta herlegheitin.“

Dempuð ljós, notaleg tónlist ómar úr hátölurum, kertaljósin dansa á veggjum og bóndinn stendur klár með veisluföngin og vísar frúnni til sætis. Svo byrja barasta herlegheitin.
Sæþór nýtur þess að elda góðan mat fyrir Ölmu.

Sófinn og símarnir eru úr myndinni

Þrátt fyrir fögur fyrirheit og markmið að rækta sambandið er líklega hættulega auðvelt að fresta eða fella niður stefnumót ef eitthvað annað kallar. Hafa Alma og Snæþór verið hörð á því að halda dampi og forgangsraða tíma sínum í hvort annað?

„Almennt séð séð bókum við okkur einfaldlega ekki á laugardagskvöldum til að eiga þessa stund saman, svo heilagur er þessi tími okkur og mikils virði. Okkur finnst mikilvægt að hafa gaman saman, við höfum alltaf verið samrýmd og sækjumst í félagsskap hvors annars. Það er gefandi og skemmtilegt að taka sig til fyrir ástina í lífi sínu og þessar stundir okkar, á laugardagskvöldum, er tilhlökkunarefni okkar beggja alla vikuna,“ segir Alma.

En, er engin hætta því að stefnumótin verði ekki alltaf eins grand, að þau endi með því að pizzasendilinn banki upp á og sjónvarpið kalli?

„Það má kannski segja að í lok vikunnar geti verið freistandi að láta sig hrynja í jogginggallanum ofan í sófann, með gosflösku og kartöfluflögur og halda til þar áður en næsta vinnuvika hefst. Að okkar mati fer þá til spillis gullið tækifæri til að rækta sambandið okkar með samveru, vera til fyrir hvort annað. Á laugardagskvöldum er sófinn út úr myndinni og símarnir líka. Grunnkonseptið er samt það sama og það var þegar við vorum vansvefta smábarnaforeldrar, þ.e. hafa okkur til fyrir hvort annað, hittast svo í stofunni og borða saman, spjalla saman, vera saman og njóta.“

Mikilvægi stefnumótanna 12 af 10 mögulegum

Aðspurð um mikilvægi heimastefnumótanna fyrir þau hjónin og hvort þau mæli með hugmyndafræðinni fyrir önnur pör segir Alma:

„Mikilvægi þeirra fyrir sambandið okkar myndi ég segja að væri 12 af tíu mögulegum. Svo við förum nú svolítið á persónulegu nóturnar þá voru það heimastefnumótin sem urðu til þess að við fundum aftur neistann í parasambandinu sem stilltur var á vafurloga þegar álagið með ungana og svefnleysið var í hæstu hæðum. Ég get því ekki annað en mælt heilshugar með því að önnur pör láti á þetta reyna. Í þessum samverustundum höfum við kafað rækilega ofan í áhugamál okkar, líðan hverju sinni og notað tækifærið til að tengjast. Það er samveran sem við erum fyrst og fremst á höttunum eftir. Ef við hugsum um hversdagsleikann sem fellibyl, þá upplifum við á þessum heimastefnumótum okkar að við sitjum í auga hans. Þar er lyngt. Þar er friður. Þar er samveran okkar, samtölin okkar og eldsneytið fyrir komandi viku.“

Það voru heimastefnumótin sem urðu til þess að við fundum aftur neistann í parasambandinu sem stilltur var á vafurloga þegar álagið með ungana og svefnleysið var í hæstu hæðum. Ég get því ekki annað en mælt heilshugar með því að önnur pör láti á þetta reyna.

Kirsuberið á toppinn

Valentínusardagur er framundan og því tilvalið að skella sér á deit með betri helmingnum, hvort sem það er heima eða út úr húsi.
Zara, 14.995 kr.
Zara, 10.995 kr.
Lindex, 5.999 kr.
Lindex, 2.599 kr.
Selected, 12.990 kr.
Esprit, 17.495 kr.
Karakter, 23.995 kr.
Vero Moda, 8.590 kr.
Kjóll úr love-línu Zara. 10.995 kr.
Rauðar varir og ljómandi húð er lúkk sem steinliggur!

Steldu lúkkinu

Lyfja, 1.887 kr.
Ljómapalletta fyrir allt andlitið frá RMS, Elira, 5.990 kr.
Hypnôse frá Lancôme er seiðandi og kynþokkafullur ilmur, Lyfja, 8.372 kr.
Áreynslaus smokey-förðun er og verður alltaf sexí.
Ombre Hypnôse Stylo frá Lancôme er augnskuggapenni sem er góður í áreynslulausa smokey-förðun. "Krassaðu" með pennanum kæruleysislega yfir augnlokið og blandaðu með fingrinum. Kemur í allskyns litum og fæst í Lyfju í Smáralind á 5.155 kr.

Hann

Selected, 10.990 kr.
Selected, 13.990 kr.
Galleri 17, 17.995 kr.
Armani Code Absolu, Lyfja, 9.589 kr.
Ilmurinn setur tóninn. Nuit Noire frá Victorian er eins og nafnið gefur til kynna kryddaður og kynþokkafullur kvöldilmur. Fæst í Snúrunni og kostar 7.500 kr.
Þá er bara að láta hugmyndaflugið ráða og setja ástina í fyrsta sæti!

Meira úr fjölskyldan

Fjölskyldan

Sætustu skólafötin

Fjölskyldan

Stílistinn okkar fann það besta á útsölu

Fjölskyldan

Loksins eitthvað nýtt og spennandi að gera með krökkunum!

Fjölskyldan

45 hugmyndir að mæðradags­gjöfum

Fjölskyldan

Sætustu barnafötin fyrir sumarið

Fjölskyldan

50 hugmyndir að sumargjöfum

Fjölskyldan

Kærkomnar konudagsgjafir

Fjölskyldan

22 hugmyndir til að gleðja ástina á Valentínusar­daginn