Fara í efni

Heitustu heimilistrendin

Heimili & hönnun - 1. júní 2022

Nokkrir af helstu innanhússarkitektum og hönnuðum landsins spá í spilin.

Veggteppi og persónulegur stíll

Bryndís Stella Birgisdóttir innanhússhönnuður, sem ásamt Hildi Árnadóttur arkitekt rekur Béton Studio arkitekta- og innanhússhönnunarstúdíó, spáir veggteppum auknum vinsældum á næstunni.

„Að mínu mati gera þau heimili hlýlegri og svo tengjast þau þessum gamla heimilisiðnaði sem getur verið svo áhugaverður og skemmtilegur. Hér áður fyrr voru þetta oft verk unnin úr afgangsefnum og urðu oft að fallegum listaverkum.“

Bryndís Stella, eða Stella eins og hún er gjarnan kölluð, segir þessar auknu vinsældir veggteppa endurspegla áðurnefnda kröfu um notalegheit. Kostur teppanna sé þó ekki aðeins sá að þau geri heimili hlýlegri heldur megi útfæra þau eftir eigin höfði svo úr verða persónuleg listaverk sem ljá heimilinu meiri karakter og sál.

„Þar fyrir utan geta veggteppi bætt hljóðvist, sem er oft erfitt að ná fram með fallegum hætti,“ bendir hún á.

Stál í stað viðar?

Þá er Stella þeirrar skoðunar að stál muni ryðja sér frekar til rúms á næstunni. „Stál er að taka svolítið við af hlýlegum við,“ upplýsir hún og segir það ekki vera að ástæðulausu þar sem stál sé „einfalt“ og gaman að nota það í ramma á speglum, í blöndunartæki, hillur, innréttingar, rúmgafla, stigahandrið og svo framvegis.

„Auk þess virkar stál vel það með hvaða efni sem er,“ nefnir hún, „hlýlegu viðargólfi, floti eða notalegum flísum.“

Bryndís Stella Birgisdóttir innanhússhönnuður rekur Béton Studio arkitekta- og innanhússhönnunarstúdíó.
Að mínu mati gera veggteppi heimili hlýlegri og svo tengjast þau þessum gamla heimilisiðnaði sem getur verið svo áhugaverður og skemmtilegur. Hér áður fyrr voru þetta oft verk unnin úr afgangsefnum og urðu oft að fallegum listaverkum.
Mynd frá Bryndísi Stellu.
Stál er að taka svolítið við af hlýlegum við og ekki að ástæðulausu þar sem stál er "einfalt" og gaman að nota það í ramma á speglum, í blöndunartæki, hillur, innréttingar, rúmgafla, stigahandrið og svo framvegis.

Suðræn stemning

„Ég held að trendin verði þessi suðræna stemmning sem ég hef talað um áður, base litaðar flísar, brúntóna, hlýir jarðlitir og ljós steinn,“ segir Berglind Berndsen, innanhússarkitekt í samtali við HÉR ER.

Hún kveðst sannfærð um að marmarinn haldi vinsældum sínum og að áberandi veggfóður komi sterk inn.

„Bastið og rattan er að koma á fullum krafti inn og mjúk og rúnuð húsgögn. Eins tel ég að Travertine-steinninn eigi eftir að koma sterkur inn. Í grunninn er það alltaf einfaldleikinn og þessi náttúrulegi stíll sem heldur velli.“

Berglind Berndsen innanhússarkitekt. Mynd: Gunnar Sverrisson.
Mynd: Gunnar Sverrisson. Hönnun: Berglind Berndsen.
Hlýir viðartónar og marmari heldur velli í innanhússtískunni.

Hlýlegt og tímalaust

Spurð út í ástæðuna fyrir þessu segir Berglind að þetta séu einfaldlega efni og litir sem fólk fái ekki leið á. „Náttúrleg efni og einfaldur en hlýlegur stíll sem er jafnframt tímalaus og áreynslulaus,“ útskýrir Berglind.

Hún bætir við að landsmenn séu í auknum mæli farnir að móta sinn persónulega stíl og kjósi að hafa hlýlegt og fallegt í kringum sig. „Íslendingar vilja hlýlega jarðtóna, vandaðan textíl og vönduð húsgögn.“

Hlýir tónar á veggjum verða vinsælir á næstu misserum.

Falleg innanhússhönnun Berglindar Berndsen

Mynd: Gunnar Sverrisson.
Mynd: Gunnar Sverrisson.
Mynd: Gunnar Sverrisson.
Mynd: Gunnar Sverrisson.
Mynd: Gunnar Sverrisson.
Mynd: Gunnar Sverrisson.
Mynd: Gunnar Sverrisson.
Mynd: Gunnar Sverrisson.
Mynd: Gunnar Sverrisson.
Mynd: Gunnar Sverrisson.
Mynd: Gunnar Sverrisson.

Gardínur í mjúkum litum og efnum

Gardínur í mjúkum litum og efnum, til dæmis úr höri, eru að verða vinsælar aftur. Þetta segir Helga Sigurbjarnadóttir innanhússarkitekt. „Þær veita hlýleika og gera rýmin falleg og notaleg,“ útskýrir Helga.

Hún bendir á að gardínur rammi inn glugga og með þeim sé hægt að stjórna birtu í rýminu.

En ætti að hafa eitthvað sérstakt í huga verði slíkar gardínur fyrir valinu? „Það er alltaf góð hugmynd að velja litinn og efnið í samræmi við liti á veggjum og húsgögnum,“ svarar Helga. „Og með því að hafa samræmi í gardínum á heimilinu næst fram fallegur heildarsvipur á heimilinu.“

Helga Sigurbjarnadóttir innanhússarkitekt.
Gardínur í mjúkum litum og efnum, til dæmis úr höri, eru að verða vinsælar aftur.

Bólstruð húsgögn

Beðin um að nefna fleiri trend sem eru líkleg til að ná vinsældum er Helga ekki lengi að hugsa sig um. „Bólstruð húsgögn í náttúrulegum efnum held ég að nái auknum vinsældum,“ nefnir Helga. „Ástæðan er hlýleikinn sem fylgir bólstruðum húsgögnum eins og sófum og stólum sem eru bólstraðir með ullar- og höráklæðum. Hlýleiki er einn meginkosturinn við þetta trend og endalaust litaúrval,“ lýsir hún.

Helga segir að annar kostur þessa trends sé hversu auðvelt sé að innleiða það á heimilið. Hægt sé að velja húsgögn og hluti, til dæmis púða, mottur og fleira, í fyrrnefndum efnum og þá sé þetta komið.

Bólstruð húsgögn njóta mikilla vinsælda á næstunni.

Þægindi í fyrirrúmi

Kristján Kristjánsson, lýsingarhönnuður og eigandi lýsingarhönnunarstofunnar Hildiberg, segir að svokölluð upplifunarlýsing, sem hefur verið eftirsótt um nokkurt skeið, komi til með að njóta vaxandi vinsælda.

Vinsældirnar telur Kristján haldast í hendur við aukna heimaveru síðustu ára og meiri kröfur um notalegheit og þægindi af ýmsum toga. „Vinsældir upplifunarlýsingar fyrir heimili hefur komið í sveiflum síðustu fimmtán ár. Með tilkomu ledsins og möguleikana á að geta breytt lit á ljósi og átt við hreyfingu á ljósi þá varð hún mjög vinsæl. Svo datt hún aðeins úr tísku á tímabili en er orðin mjög eftirsótt aftur eftir að ljósastýring Philips Hue og lausnir komu á markað, en eins og kunnugt er gera þær fólki kleyft að stýra ljósum með appi,“ segir hann.

Kristján bendir á að einn helsti kosturinn við slíkar lausnir sé sá að fólk geti sett búnaðinn upp sjálft, án aðstoðar, auk þess sem hann sé sáraeinfaldur í noktun. „Þú þarft eingöngu að skipta út peru eða líma ledborða undir innréttingu og stinga í sambandi,“ lýsir hann, „og svo stýrirðu þessu með appi í símanum.“

Lausnirnar segir hann mjög eftirsóttar til dæmis í barna- eða unglingaherbergi. Auk þess séu þær nánast staðlabúnaður hjá tölvuleikjaspilurum. „Enda er þetta frábær viðbót, nánast eins og skraut á góðri köku og hægt að hafa gaman af búnaðinum, hvort sem til stendur að nota hann til að ná góðri slökun eða fyrir partí í sumar.“

Kristján Kristjánsson, lýsingarhönnuður og eigandi lýsingarhönnunarstofunnar Hildiberg.

Náttúruleg lýsing

Kristján segir náttúrulega lýsingu sömuleiðis vera mikið í tísku og hann reiknar með að vinsældirnar eigi bara eftir að aukast þegar fram líða stundir. „Náttúrleg dagsbirta er orðin hluti af lýsingarhönnun. Það er verið að vinna meira með rými þar sem hún er hluti af heildarlýsingarkerfinu,“ segir hann.

Að sögn Kristján er ekki að ástæðulausu sem lýsingahönnun tekur aukið mið af slíkri birtu. Náttúruleg birta sé síbreytileg, stýri svefnvenjum okkar og hafi áhrif á tilfinningar okkar og líðan og hafi mótað mannskepnuna í aldanna rás. Hún sé einfaldlega besta lýsing sem völ er á. „Rannsóknir sýna að ljósabúnaður sem er búinn þeim eiginleika að geta líkt eftir slíkri birtu getur í sumum tilvikum haft sömu jákvæðu áhrif og hún. Þess vegna er slíkur búnaður meðal annars að verða eftirsóttari, þess vegna eru fleiri gerðir hans að líta dagsins ljós.“

Kristján bendir þó á að ekki sé víst að allar þessar lausnir skili betri heilsu og líðan. En hvort sem þær geri það eða ekki þá séu margar óneitanlega skemmtilegar og geti sett fallegan svip á heimilið og önnur rými.

Góð lýsing á heimilum skiptir höfuðmáli.
Vinsældir upplifunarlýsingar fyrir heimili hefur komið í sveiflum síðustu fimmtán ár. Með tilkomu ledsins og möguleikanna á að geta breytt lit á ljósi og átt við hreyfingu á ljósi þá varð hún mjög vinsæl.
Epal, 23.900 kr.
Epal, 78.900 kr.
Snúran, 189.900 kr.
Snúran, 101.200 kr.
Hér má glögglega sjá hversu mikið falleg ljós gera fyrir rýmið. Mynd: Gunnar Sverrisson. Hönnun: Berglind Berndsen.

Hvað er að detta úr tísku?

Fólk er kannski minna fyrir kolsvart þessa dagana og skjannahvítar borðplötur,“ bendir Berglind Berndsen innanhússarkitekt á þegar hún er spurð hvort einhver tiltekin trend séu á útleið. „Fólk vill frekar brúnleitan og náttúrulegan efnivið eins og ljósa eik, hnotu og reykta eik og velur frekar borðplötur með miklum æðum og lífi. Fólk hefur verið óhræddara við að nota áberandi stein, sem er svo frábært.“

„Það trend sem er á útleið að mínu mati er formfastur hugsunarháttur. Fólk er farið að skapa sinn eigin stíl og leyfa hlutum að flæða og njóta sín á persónulegan hátt,“ segir Stella, hjá Béton Studio arkitekta- og innanhússhönnunar stúdíó og bætir við að þegar kemur að hönnun sé í raun ekkert heilagt. Stella hvetur fólk því að brjóta hefðbundnar reglur, hugsa út fyrir boxið og gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn.

Meira úr heimili & hönnun

Heimili & hönnun

Sæt sumarlína H&M Home

Heimili & hönnun

Stjörnu­stílistinn Þórunn Högna gefur gordjöss veislu­innblástur

Heimili & hönnun

Tips frá topp innanhúss­arkitektum til að bæta svefnherbergið

Heimili & hönnun

Stjörnustílisti skreytir páskaborðið

Heimili & hönnun

Heimilis­trendin sem verða áberandi 2023

Heimili & hönnun

Allt fyrir áramóta­partýið

Heimili & hönnun

Íslensk hönnun undir jólatréð

Heimili & hönnun

Fortíðarþrá á jólum