Gleði og meira „retró“
Það fer ekkert á milli mála að ákveðið ástand sem átti sér stað í heiminum fyrir alls ekki svo löngu, hefur markað lifnaðarhætti og hegðun okkar fyrir komandi ár. Við setjum enn meiri fókus á notalegheit - þar sem gleði, endurnýting og „retró“ eru einkunnarorðin sem við tileinkum okkur.
Djörf og straumlínulaga form í bland við litapallettu sem gleður hjartað er það sem sumarið færir okkur í ár. Blómleg mynstur sem kalla á bjartari tíma í bland við skúlptúraða vasa og stóra, mjúka púða. Húsgögn má finna í mynstruðum textíl eða úr basti, þá í ávölum formum - og lampar eru litríkir sem aldrei fyrr.
Til marks um litagleðina sem von er á inn á heimilum er hér gott dæmi um línu sem er væntanleg hjá H&M Home þar sem unnið er með sterka Pantone-liti.
Við elskum fjölnota
Við sjáum meira af þróun húsgagna og smáhluta sem þjóna fleiri en einum tilgangi, sem hafa þarfir og aðstæður í hinu daglega lífi í huga. Til dæmis litlir borðlampar sem ganga fyrir rafhlöðu og gera okkur kleift að færa þá á milli staða á heimilinu, eða jafnvel út á pallinn yfir sumartímann ef því er að skipta. Eins sniðugar hirslur sem og fjölnota innkaupapoka sem margir hverjir þykja óvenju smart og eru hámóðins.
Góðar fréttir fyrir græna fingur
Það eru margir með græna fingur þarna úti og hreinlega elska þennan árstíma, ekki að ástæðulausu. En apríl mánuður er upplagður til að fylla útipottana af vorblómum og njóta sólarinnar eins mikið og hægt er. Í maí þegar allt fer að spretta upp, er tilvalið að gróðursetja tómata, chili-pipar og jafnvel gúrkur - sértu með gróðurhús. Salat og kryddjurtir er auðvelt að rækta í eldhúsglugganum heima, og er einkar hentugt að geta gripið í slíkt þegar við sýslum yfir pottunum.
Gleðilegt Sumar!