Fara í efni

Við mælum með þessum fyrir hönnunarunnendur

Heimili & hönnun - 10. júní 2021

Síðustu ár hafa fjölmargar vandaðar bækur verið gefnar út sem fjalla um hönnun, arkitektúr og listir. Hér eru nokkrar sem óhætt er að mæla með og ættu að falla í kramið hjá flestum. Bækurnar eru tilvaldar sem tækifærisgjafir og fara sérstaklega vel í hillu eða á borði.

This Is Home: The Art of Simple Living


Í bókinni er fjallað um 15 ólík heimili ásamt aragrúa af viðtölum þar sem leitast er við að svara spurningum um hvað það er sem gerir okkur hamingjusöm heimavið. Þar er líka skoðað hvernig innanhússhönnun getur aukið vellíðan. Undanfarin ár hefur áherslan í innanhússhönnun verið á persónlegan stíl og hvernig hver og einn getur fundið hann hjá sér en í bókinni er að finna ýmis góð ráð. Um tvö hundruð litmyndir eru að finna í henni en einnig eru sýnd dæmi hvernig hægt er að fegra heimilið á einfaldan hátt. Bókin skiptist upp í átta ólíka kafla sem hver og einn leiðir lesandann í gegnum það hvernig hægt er gera heimilið að ánægjulegri íverustað bæði hvað varðar fagurfræði og skipulag. Höfundur bókarinnar er Natalie Walton.

This Is Home fæst í Pennanum Eymundsson og kostar 6.999 kr.

100 Contemporary Wood Buildings


Margir hafa litið á við sem byggingarefni fortíðarinnar en sannleikurinn er hins vegar sá að færst hefur töluvert í aukana að nýta við sem meginbyggingarefni. Margar ástæður liggja þar að baki en þær helstu eru styttri byggingartími, lengri líftími byggingarefnisins og betri möguleiki á endurnýtingu, minni umhverfisáhrif og góð heilsufarsáhrif.
Í bókinni 100 Contemporary Wood Buldings eru valdar byggingar teknar fyrir sem eru verðugir fulltrúar samtímaarkitektúrs. Þessi mannvirki eru staðsett víðsvegar um heiminn, frá Kína til Chile og allt þar á milli. Þau eiga það sameiginlegt að vera byggð úr viði en eru breytileg að forminu til, stærð og gerð en auk þess þjóna þau mismunandi tilgangi. Bókin sýnir verk einna þekktustu arkitekta heims og hvernig þeir hafa innleitt byggingarefnið í verk sín og skapað magnaða upplifun.

Úr bókinni 100 Contemporary Wood Buildings.
Úr bókinni 100 Contemporary Wood Buildings.
Úr bókinni 100 Contemporary Wood Buildings.
Úr bókinni 100 Contemporary Wood Buildings.
Fæst í Pennanum Eymundsson.

Still: The Slow Home


Það má segja að bókin sé sjónrænt ferðalag um heiminn allan þar sem heimili fólks eru sýnd sem á það allt sameiginlegt að hafa einfaldað líf sitt og aðhyllast nú svokallaðan ,,slow-lífsstíl’’. Í bókinni er hugmyndafræði lífsstílsins gerð góð skil en einnig er skoðað hvernig hægt er að gera heimilið sjálfbærara. Þar skiptir efnisval miklu máli en mælt er með því að skoða nærumhverfið og náttúruna og nýta vel það sem hún hefur upp á að bjóða. Bókin er skrifuð af Natalie Walton og er hún nokkurs konar framhald af This Is Home en fer skrefinu lengra í átt að sjálfbærum og umhverfisvænum lífsstíl.

Úr bókinni The Slow Home.
Fæst í Pennanum Eymundsson og kostar 6.999 kr.

Leiðréttingar


Leiðréttingar er bók sem gefin var út árið 2019 með verkum Sigurðar Árna Sigurðssonar. Verkin eru myndasyrpa sem Sigurður hefur þróað frá árinu 1992 þar sem skuggar leika mikilvægt hlutverk og má segja að myndirnar séu nokkurs konar sjónblekkingar. Listamaðurinn notar efnivið sem hann hefur fundið á flóamörkuðum og fornbókabúðum á ferðum sínum erlendis, þá sérstaklega í Frakklandi, og eru þetta helst nafnlausar ljósmyndir og póstkort. Sumar myndanna eru þekktar og aðrar ekki en eiga það sameiginlegt að vera flestar nátengdar frönskum menningarheimi. Sigurður framlengir myndirnar með blýantinum og bætir við þær eða ,,leiðréttir’’ og oft á mjög skoplegan og athyglisverðan hátt. Fyrstu Leiðréttingarnar voru sýndar á Kjarvalsstöðum árið 1994 en safnið hefur stækkað síðan og spannar yfir 200 myndir.

Fæst í Pennanum Eymundsson og kostar 10.499 kr.
Úr bókinni Leiðréttingar.

Dæs


Heiti bókarinnar súmmerar nokkuð vel upp árið 2020 hjá flestum okkar og inniheldur hún 366 myndir sem spegla sameiginlega reynslu samfélags í samkomubanni. Höfundur bókarinnar er hin hæfileikaríka Lóa Hjálmtýsdóttir sem er myndlistarkona, teiknari, myndasöguhöfundur, söngkona og grínhöfundur svo eitthvað sé nefnt. Lóa sér skoplegu hliðar ársins og setur þær fram á sérlega skemmtilegan hátt með litríkum teikningum.

Dæs eftir Lóu H. Hjálmtýsdóttur.
Myndir Lóu eru uppfullar af húmor og kaldhæðni.

Fleiri góðar

Hér eru nokkrar í viðbót sem vert er að skoða.

Hönnunarbók er góð gjöf, þessar fást í Pennanum Eymundsson í Smáralind.

Meira úr heimili & hönnun

Heimili & hönnun

Gerðu barnaherbergið hlýlegt á einfaldan hátt

Heimili & hönnun

Kósí heima í haust

Heimili & hönnun

Brilljant hannaðar borðstofur

Heimili & hönnun

Huggulegt fyrir heimilið frá HAY

Heimili & hönnun

JÁ eða NEI? Vinsælustu brúðargjafir sumarsins

Heimili & hönnun

Brilljant brúðar­gjafa­hug­myndir

Heimili & hönnun

Baðherbergið tekið í gegn

Heimili & hönnun

50 skuggar af grænu