VERTU MEÐ PUTTANN Á PÚLSINUM
Í hverjum mánuði vinnur heppinn póstlistavinur HÉR ER 15.000 kr. gjafakort frá Smáralind!
Þegar góða veislu gjöra skal er margt sem vert er að hafa í huga. Því ákváðum við að fá góð ráð frá Kolbrúnu Pálínu Helgadóttur fagurkera og kynningarstjóra hjá Icepharma sem er komin á flug við að undirbúa fermingarveislu dóttur sinnar.
„Ég elska að gera heiminn minn fallegan með bæði upplifunum og litlum hlutum. Ég er síbreytandi og hreyfandi allt í kringum mig rétt eins og maður virkar sjálfur. Síbreytilegur… sem gerir lífið svo áhugavert og skemmtilegt,“ segir Kolbrún Pálína Helgadóttir.
Kolbrún er nú í hlutverki fermingarmömmu Tinnu Karítasar sem hún segir vægast sagt spennandi verkefni en það er nánast allt klárt hjá þeim mæðgum fyrir stóra daginn. Það hefur hún lært með hverju barnaafmæli og veislu í gegnum árin að góður undirbúningur skiptir öllu máli og það sé ekkert sem heiti of snemmt þegar kemur að því að undirbúa góða veislu.
Með góðu skipulagi losnarðu bæði við óþarfa uppákomur, stress og óvæntan kostnað.
Aðspurð að því hver fyrstu skrefin væru segir Kolbrún þær mæðgur hafa byrjað á því að búa til „moodboard“ sem innblástur fyrir veisluna, þar völdu þær allt sem þeim fannst fallegt og í anda fermingarbarnsins Tinnu Karítasar. „Út frá því var auðveldara að byrja að versla. Eins er gott að gera gestalistann svona í fyrsta fasa þar sem maður vill ekki lenda í að gleyma neinum á lokasprettinum.“
Fermingarveisla Tinnu er haldin heima og verður því með persónulegu ívafi að sögn Kolbrúnar. Staðsetning veislu hefur mikil áhrif á undirbúninginn og því gott að hafa það í huga snemma í ferlinu því það er gott að gera ýmsar ráðstafanir í kjölfar þess eins og til dæmis að leigja veislutjald ef halda á veisluna heima. „Við fáum gestina til okkar seinnipart dags, bjóðum upp á léttan mat og gerum ráð fyrir að sitja saman fram eftir með okkar besta fólki,“ segir Kolbrún.
Tímasetning veislu hefur áhrif á veitingar en það er um að gera að huga að öllum veitingum sem fyrst. Hvað ætlið þið að gera sjálf og hvað er aðkeypt? Tæmandi innkaupalisti með drykkjum og öllum veitingum hjálpar til þegar nær dregur og þá getur verið gott að vera búin að skipuleggja hver sækir matinn og ef vinir eða fjölskylda hjálpa til á deginum sjálfum eða kvöldinu áður.
Hvar eru þið stödd í fermingarferlinu á þessari stundu?
„Við erum búin að ákveða flest sem snýr að fermingardeginum á þessum tímapunkti. Eins er kjólinn klár, þá er nú mikið frá. Það er búið að ákveða hárgreiðslu, kaupa kerti og servíettur í draumalitnum og panta myndatöku.“
Hvaða ráð getur þú gefið okkur fyrir komandi veisluhöld?
„Gramsið í skápum, geymslum, fáið lánað og hugsið út fyrir kassann þegar kemur að því að fegra borð, sali og heimili. Það þarf ekki að kaupa allt! Það má nota glös og flöskur undir blóm, sömuleiðis undir kerti. Blóm, blöðrur og kerti geta spilað stórt hlutverk í fermingarveislum, eins finnst mér alltaf spennandi að nota náttúruna, skreyta greinar, til dæmis að hengja myndir af fermingarbarninu á greinabúnt og setja í vasa.“
„Kortakassinn má ekki gleymast en hann má búa til úr skókassa þess vegna og skreyta að vild. En einnig er hægt að kaupa fallega kassa í hinum ýmsu verslunum. Eins mæli ég með að fermingarbarnið fái svolítið að skína í gegn þegar kemur að vali á veitingum. Maður hefur heyrt fallegar sögur þar sem boðið hefur verið upp á grjónagraut eða pylsur, einfaldlega þar sem það var í uppáhaldi hjá fermingarbarninu. Munum að þetta er þeirra dagur og þeirra veisla. Allt hefur sinn sjarma!“
Er eitthvað sérstakt í tísku fyrir fermingarnar í ár?
„Það er einmitt það skemmtilega við fermingarnar að það er svo mikil og falleg hefð í þeim. Ég upplifi kjólana ekki mikið öðruvísi en þegar ég fermdist sjálf. Strigaskórnir hafa reyndar tekið svolítið yfir sem er bara skemmtilegt. Svo er búið að bera mikið á umræðunni hvort stelpurnar eigi að bera hanska eða ekki þetta árið og það eru alveg skýr skilaboð að þær mega bara ráða því sjálfar. Eðlilega er alltaf einhver þróun í þessu öllu saman en hún er bara falleg.“
Er búið að versla föt fyrir ferminguna?
„Kjóllinn er kominn, það eina sem að okkur vantar í þeirri deild eru skór, stóra spurningin er hvort þar verði hælar eða strigaskór fyrir valinu.“ Hjólabuxur hafa verið vinsælar á seinustu árum undir kjóla og halda áfram að vera það, sama á við um fallega hlýraboli undir kjólinn.
Er fermingarbarnið með ákveðnar hugmyndir?
„Já, hún valdi greiðsluna sjálf, þemalitinn í veislunni og er búin að sýna undirbúningnum alveg einstakan áhuga, draga mig á fermingarsýningar og fleira sem er búið að gera þetta mjög ánægjulegt.“ Þemaliturinn í veislunni hennar Tinnu er fallega ljósbleikur litur.