Fara í efni

Fræga fólkið gefur góð ráð: Leiðir að aukinni vellíðan

Lífsstíll - 7. nóvember 2022

Hreyfing, svefn, húmor, sköpun, ást, afslöppun og reglulegt „time out“. Þetta er á meðal þeirra atriða sem skipta máli fyrir andlega líðan segja þjóðþekktir Íslendingar, sem deila hér góðum ráðum með lesendum HÉR ER.

„Vil vera til staðar fyrir þetta litla barn“

Breyttar aðstæður í lífi tónlistarkonunnar Gretu Salóme urðu til þess að hún fór að huga betur að andlegri heilsu.
Aðspurð játar Greta að hafa stundum hunsað andlegu heilsuna hér áður fyrr og bara „keyrt áfram á einhverri sjálfstýringu“. „Sem er að sjálfsögðu ekki vænlegt til árangurs. Enda upplifi ég mikinn mun eftir að ég fór að hlúa almennilega að andlegu heilsunni og finnst ég sterkari fyrir vikið,“ segir hún.

„Fyrir mér þá hangir þetta tvennt saman, andlega heilsan og sú líkamlega. Ég er mjög meðvituð um hvað andlega heilsan skiptir miklu máli þegar kemur að því að lifa heilbrigðu líferni og að líða yfirhöfuð vel. En í vor gerðust hlutir sem urðu til þess að að ég ákvað að leggja enn betri rækt við hana. Pabbi minn veiktist skyndilega og á sama tíma varð ég ólétt. Þetta varð til þess að ég ákvað að taka málin enn fastari tökum, því ég vil vera til staðar fyrir fjölskylduna mína og þetta litla barn sem er að koma í heiminn,“ segir Greta.

Hún segir að fram að því hafi hennar hugleiðsla falist í því að fara annað hvort á mjög erfiða æfingu í Mjölni eða fara inn í bílskúr og lyfta í klukkutíma. Eftir að hún varð barnshafandi hafi hún hins vegar ekki sama úthald og áður til að taka langar þrekæfingar en hlakkar til að stunda þær aftur eftir nokkrar vikur þegar barnið er komið í heiminn. „Eins og stendur hef ég frekar farið í langa göngutúra eða skokkað rólega í náttúrunni hérna í Mosfellsbæ þar sem við búum, enda fylgir því ótrúlega mikil núvitund og núllstilling.“

Hún hvetur fólk að prófa þessa hluti, viljji það hlúa betur að andlegri heilsu, enda hafi þeir nýst henni vel.

„Svo mæli ég með að skrifa niður það sem er að angra mann eða það sem maður vill tileinka sér þegar kemur að andlegri heilsu. Mér finnst það gott, það er eins og hlutirnir verði einhvern veginn raunverulegri fyrir vikið.

Síðast en ekki síst er gott fyrir sálina að tileinka sér örlítið æðruleysi og fara ekki endilega allt á hnefanum, heldur gefa sér tíma til að staldra við og njóta. Það hefur án efa verið stærsta lexían í þessu ferli,“ segir hún og brosir.

„Þetta var eitraður kokteill“

Fjölmiðlamaðurinn Atli Fannar Bjarkason byrjaði ekki að hreyfa sig fyrr en hann varð 27 ára. Hann segir ákvörðunina hafa margborgað sig því í kjölfarið hafi allt orðið miklu auðveldara og skemmtilegra.
Atli Fannar Bjarkason á að baki langan feril sem fjölmiðlamaður. Á síðasta ári opnaði hann ásamt fleirum líkamsræktarstöðina Afrek í Skógarhlíð.

Þegar Atli er spurður hvernig hann hlúi að geðheilsunni læðist glott fram á varirnar og hann segir að það megi flokka bæði sem klisjukennt og leiðinlegt. „Til að byrja með lít ég á lífið sem langtímaverkefni, þótt það sé furðustutt - og það hjálpar. Þegar eitthvað slæmt gerist horfi ég bara á það sem hindrun á löngu ferðalagi, þá verður það bara lítið í stóra samhenginu og því ekkert annað í stöðunni en að halda áfram.“

Hann segist finna hvað það geri líka ótrúlega hluti fyrir geðheilsuna að velja til dæmis gæði umfram magn þegar kemur drykkju og að vera hreinskilinn gagnvart sjálfum sér og öðrum. „Grunnurinn að þessu öllu saman er svo að hreyfa sig. Ég lyfti lóðum og hoppa upp á kassa nokkrum sinnum í viku í Afreki í Skógarhlíð, sem er auðvita besta og vinalegasta gymmið í bænum,“ segir hann og blikkar blaðamann.

Atli viðurkennir fúslega að það séu hins vegar ekkert rosalega mörg ár síðan hann tamdi sér jákvæðara viðhorf til lífsins, „eftir að hafa verið týpískur neikvæður ungur maður sem eyddi óþarfa tíma í að vorkenna sjálfum sér“.

„Þannig að ég hef ekki alltaf hlúð vel að andlegri heilsu,“ játar hann, „alls ekki. Ég var neikvæður og svartsýnn og byrjaði ekki að hreyfa mig fyrr en ég varð 27 ára, eftir 15 ár af iðjuleysi. Þetta var eitraður kokteill en það var ekkert voðalega erfitt að breyta þessu. Þetta snýst allt um viðhorf, samhengi og að byrja að dedda.“

En hvað varð til þess að hann tók svona mikla u-beygju?

„Ég fékk bara nóg,“ segir Atli hreinskilinn. „Mig langaði einfaldlega að líða betur.“

Hann segir þá ákvörðun hafi borgað sig því í kjölfarið hafi allt orðið svo miklu auðveldara og skemmtilegra.

„Mánudagar hættu til dæmis að virka eins og óyfirstíganleg hindrun og urðu eitthvað sem hægt var að hlakka til. Mánudagar koma í hverri viku þannig að það er vel þess virði að reyna að bæta þá,“ segir hann og brosir.

Hann hvetur þá sem vilja huga betur að andlegri heilsu að byrja að hreyfa sig.

„Finnið eitthvað skemmtilegt og byrjið. Hvort sem það eru lóðalyftingar eða frisbígolf. Regluleg hreyfing er grunnurinn að þessu öllu saman.“

„Leyfðu þér að vera til og hættu svo að skamma þig“

Andleg heilsa er svo ótrúlega mikilvæg, að því að ef við hlúum ekki að henni þá eigum við erfitt með að njóta lífsins og vera virkur þátttakandi í lífinu segir Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir greinahöfundur, kvikmyndagerðarmanneskja, rithöfundur og trans aðgerðasinni.
Ugla Stefanía mælir með að fólk leyfi sér einfaldlega að vera til. Það sé ein best aðferðin til að rækta andlegu heilsuna.

„Við eigum ekki að vera á endalausu spani að keppast við okkur sjálf og annað fólk. Annars brennum við bara út, og þá gögnumst við engum, síst okkur sjálfum,“ bendir Ugla á í samtali við HÉR ER.

Hún segist hafa lært að endalaust stress og vinna skili eiginlega engu og það sé mikið betra að taka því rólega, sinna þeim verkefnum sem þú getur og læra að slappa af og kúpla sig út.

„Sem sjálfstætt starfandi manneskja þá er það mjög auðvelt að finnast eins og kvár þurfi alltaf endalaust að vera að gera eitthvað, en það er alveg jafn mikilvægt að sinna áhugamálum, verja tíma með vinum og fjölskyldu og gera eitthvað skemmtilegt.“

Sjálf kveðst hún vera duglega að gera hluti sem henni finnst skemmtilegir og leyfi sér að njóta.

„Ég hef til dæmis alltaf spilað tölvuleiki, lesið bækur og horft á sci-fi og fantasíu þætti - og er bara almennt mikið nörd. Á sama tíma elska ég raunveruleikasjónvarp og helli mér í að horfa á slíka þætti meðan ég elda og borða góðan mat. Að sinna þeim áhugamálum og týna mér í einhverjum allt öðrum heimi hefur reynst mér mjög vel.“

Spurð hvort hún hafi alltaf hlúð vel að andlegri heilsu, segist Ugla alltaf hafa gert það, já, en hún hafi kannski verið meira meðvituð um mikilvægi þess síðustu ár.

„En ég hef alltaf verið dugleg að sinna áhugamálum og verja tíma með vinum og fjölskyldu og lærði frekar snemma að vera ekkert að stressa mig of mikið á hlutunum. Ég hef kannski verið frekar heppin að hafa getað verið í þeirri stöðu, en hlutirnir hafa bara alltaf einhvern veginn gengið upp.“

Ugla segir að vera trans hafi verið helsta ástæðan fyrir því að hún fór að vinna í sjálfum sér.

„Það að vera trans er eitthvað sem að hverfur bara ekki, sama hversu mikið þú reynir að forðast það. Þegar ég fór að átta mig betur á því þá varð það drifkrafturinn í að vinna í sjálfri mér, koma út úr skápnum og hætta að lifa lífinu fyrir annað fólk. Í kjölfarið gat ég svo einbeitt mér að öðrum hlutum, enda mikil léttir að geta loksins verið ég sjálf.“

Hún fer ekki í grafgötur með hvað sú ákvörðun hafi verið góð.

„Að koma út úr skápnum er það besta sem ég hef gert í lífinu, og hefur leyft mér að eiga betri tengsl og sambönd við annað fólk, og hefur líka gert mér kleift að sinna námi, vinnu og áhugamálum án þess að hafa neinar áhyggjur af einhverju öðru.“

Af fenginni reynslu mælir Ugla með að fólk leyfi sér einfaldlega að vera til. Það sé ein best aðferðin til að rækta andlegu heilsuna.

„Leyfðu þér smá sjálfselsku. Gerðu það sem þig langar að gera, fyrir þig. Það er allt í lagi að taka sér tíma til að hlaða batteríin, ekki vinna allan sólarhringinn eða mæta á alla viðburði. Gerðu eitthvað fyrir þig - borðaðu það sem þér sýnist, horfðu á það sem þér sýnist og farðu í rúmið þegar þig langar. Í Stuttu máli: Leyfðu þér að vera til og hættu svo að skamma þig.

Það er svo ótrúlega mikilvægt að við lifum lífinu fyrir okkur sjálf og getum skít í hvað öðru fólki finnst.“

Fékk hjálp og líður vel í dag

Fjölmiðlakonan Olga Björt Þórðardóttir varð fyrir miklum áföllum og mótlæti sem barn og ung kona, utan heimilisaðstæðna, og byrjaði ekki að gera það upp fyrr en hún var komin hátt á fimmtugsaldur. Þá áttaði hún sig líka á því hversu fallvölt andleg heilsa getur verið og henni þykir æ vænna um hana með hverju árinu.
Olga Björt Þórðardóttir fer ekki leynt með það hvað hún upplifir mikinn mun eftir hún að huga betur að andlegu heilsunni.

„Ég fékk taugaáfall 2015 eftir langt og erfitt tímabil og lærði hjá sálfræðingi mikilvægar aðferðir til að hlúa betur að mér og forgangsraða upp á nýtt. Haustið 2020 hrundi svo andleg heilsa mín aftur eftir annað tímabil og ég ætlaði að taka eigið líf en fékk hjálp og hef verið að byggja mig upp síðan og líður mjög vel í dag,“ lýsir Olga.

Hún fer ekki leynt með það hvað hún upplifir mikinn mun eftir hún að huga betur að andlegu heilsunni.

„Já, algjörlega. Þroskinn hefur líka áhrif, dómgreindin breytist með árunum og það er ekki sjálfsagt að halda góðri heilsu yfirleitt. Það verður að vera í forgangi eins og hægt er að hlúa að andlegri heilsu, setja mörk og stunda sjálfsmildi.“

Olga segir að kærleiksríkt uppeldi hafi líka verið ómetanlegt veganesti í lífinu.

„Ég er alin upp við falleg gildi sem ómeðvitað hjálpuðu mér að horfa á lífið með þakklætisaugum og með eftirvæntingu.“

Húmor, tónlist og söngur eða einhvers konar sköpun hafa líka alla tíð verið hluti af lífi hennar og það hafi lagði mikinn grunn að andlegri velferð hennar síðar.

Spurð hvernig hún leggi helst rækt við andlegu heilsuna, segir Olga að það séu alls konar góðar aðferðir til þess.

„Svefninn skiptir þar mestu máli ,“ segir hún, „og öll hvíld yfirleitt. Ég er frekar kvöldsvæf og á móti mikil morgunhæna svo að ég hika ekki við að fara að sofa klukkan tíu að kvöldi eftir annasaman dag og vakna þá jafnvel fyrir allar aldir og nýt rólegheitanna og morgunskímunnar.“

Olga segist líka hafa komist að því hvað mataræði getur haft mikil áhrif.

„Ef ég innbyrði sem dæmi mikið af einföldum kolvetnum og glúteni, þá líður mér bæði illa líkamlega og andlega. Ég reyni því að passa upp á að fá þá næringu sem ég þarf, til dæmis D-vítamínið þegar rökkvar og einnig B-vítamín og C-vítamín í nægu magni og járn tek ég inn aukalega.“

Hún segir að þegar það hellist yfir hana kvíði eða áhyggjur þá grípi hún einfaldlega til þess ráðs að fara í göngutúr og hlusta á rólega tónlist eða gefandi viðtöl í hlaðvörpum.

„Ég kveik líka á kertum heima, set á þægilega instrumental tónlist og hugleiði.“

Þá hjálpi líka mikið að geta bara sent hljóðskilboð á messenger til góðrar vinkonu sem þekkir hana vel og fengið að pústa og fengið svo viðbrögð til baka þegar vinkonunni hentar.

„Við erum nokkrar vinkonur sem hjálpumst að með andlega heilsu og bara lífið yfirleitt með þessari aðferð. Það tekur styttri tíma en símtöl og við hvorki fáum né gefum óumbeðin ráð og allt fær að flæða. Þetta er svakalega hjálplegt.“

Hverskyns sköpun sé sömuleiðis holl fyrir sálina..

„Það getur til dæmis verið bara að útbúa málsverð og reiða hann fallega fram. Ég elska líka að taka myndir og það hjálpar mér að deila þeim á samfélagsmiðlum, því það veitir ekki af að deila einhverju sem gleður og gefur lífinu aðeins fallegri tón.“

Það geri líka heilmikið fyrir geðheilsuna að vera til staðar fyrir aðra.

„Eitt það besta sem ég geri til að bæta andlega heilsu er líka að koma að gagni, til dæmis með því að aðstoða aðra ef ég get og einfaldlega með því að hrósa fólki í einlægni.“

Olga bætir við að ef fólk er á biðlista eftir sérfræðingi þá mæli hún hiklaust með að bæta svefninn, útiveru, einhvers konar hreyfingu og huga að mataræðinu.

„Og þetta með hljóðskilaboðin er gríðarlega mikil sáluhjálp. Bara fá að koma tilfinningum í orð og farveg þar sem enginn stoppar okkur af eða dæmir jafnast á við tíma hjá sálfræðingi,“ segir hún í lokin og brosir.

Ástríða, edrúmennska og hreyfing lykill að betri líðan

„Það er algjört möst að hlúa vel að andlegri heilsu, þótt misjafnt sé hvaða aðferðir hentar hverjum og einum,“ segir myndlistarmaðurinn Aron Leví Beck, sem ákvað að snúa við blaðinu og vinna í sjálfum sér.
„Hreyfing og öll útivera eru góð fyrir andlegu heilsuna,“ segir myndlistarmaðurinn Aron Leví Beck.

„Auðvitað er mjög misjafnt hvað hentar fólki, eins og ég segi, en ein besta ákvörðun sem ég hef tekið var að hætta að drekka fyrir þremur árum,“ segir Aron. „Ég átti einfaldlega orðið erfitt með að segja nei við við áfengi og réði illa við drykkjuna. Síðan var þetta bara komið út í það að ég var alltaf í einhverju sulli og það og fjölskyldulífið fóru skiljanlega ekki vel saman. Það varð í raun til þess að ég tók af skarið og leitaði mér aðstoðar og með hjálp fjölskyldunnar og tólf spora samtaka tókst mér að koma þessu til betri vegar.“

Aron segist ekki sjá eftir því að hafa tekið þá ákvörðun, enda líður honum mun betur bæði á líkama og sál. Núna finnist honum tilhugsunin um að drekka vera absúrd. „Þetta er samt eilífðarverkefni,“ tekur hann fram, „og það er mikilvægt að sofna ekki á verðinum.“

Spurður hvað hann geri fleira til að hlúa að andlegri heilsu svarar Aron því til að hann reyni að stunda útiveru og hreyfingu í einhverjum mæli enda hafi hann áttað sig í tímans rás hvað það sé gott fyrir geðheilsuna.

„Ég var greindur með ADHD í æsku og ég hugsa, svona eftir á að hyggja, að það hafi hjálpað mikið að ég skyldi byrja að æfa íshokki um svipað leyti, því þar fékk ég bæði fína hreyfingu og komst í góðan félagsskap.“

Í dag segir Aron góða göngutúra vera sína helstu hreyfingu.

„Ef ég er að drukkna í verkefnum eða er bara orðinn þreyttur þá hef ég yfirleitt gott af því að fara í smá göngutúr á kvöldin. Ég er með stóra fjölskyldu og er á fullu í myndlistinni á daginn og með börnunum eftir vinnu þannig að eini glugginn sem ég hef fyrir sjálfan mig er á þeim tíma sólarhrings, þar sem ég einfaldlega nenni ekki að mæta í ræktina á morgnana klukkan sjö,“ segir hann og glottir.

Aron segir líka mikilvægt að geta sinnt hugðarefnum sínum.

„Það skiptir ekki máli hvort manni þykir gaman að keyra mótorhjól eða hlusta einn á tónlist, eins og mínu tilviki, eða eitthvað annað, fólk verður að fá að gera það sem því finnst skemmtilegt og njóta sín. Enda er nauðsynlegt að geta verið í aðstæðum, þar sem maður er laus við áhyggjur, þótt það sé ekki nema í smá stund.“

Sömuleiðis skipti máli að starfa við hluti sem maður hafi ástríðu fyrir. „Tökum myndlistina sem dæmi. Ef maður kann að beita henni rétt og getur tekist á við sjálfsgagnrýnina og niðurrifið, sem geta fylgt sköpun, þá getur hún veitt útrás og gert mikið fyrir geðheilsuna. Maður verður bara að leyfa hlutunum að flæða, jafnvel þótt útkoman sé ekki alltaf góð. Leyfa sér að mála lélegar myndir inn á milli og sætta sig við það.“

En er eitthvað sem Aron sneiðir hjá?

Hann kinkar kolli.

„Já, ég forðast að vera mikið á samfélagsmiðlum. Ef ég fer til dæmis mikið inn á TikTok þá finn ég bara neikvæðan mun á mér, finn ákveðið tilgangsleysi hellast yfir mig. Því þótt það geti auðvitað verið áhugavert að vera þar inni og skoða sig aðeins um þá hefur enginn gott af því að láta mata sig svona.“

Hann ítrekar að misjafnt sé hvað henti hverjum og einum en sjálfum finnist honum gott fyrir geðheilsuna að að setja sér marmkið og einblína á verkefnin sem hann er að vinna að hverju sinni.

„Svo er bara fara að út í þetta með opinn huga, taka eitt skref í einu og reyna að finna eitthvað sem gefur lífinu gildi.“

„Það opnaðist heimur innra með mér“

Fyrirlesarinn, rithöfundurinnn og fjölmiðlakonan Sirrý Arnarsdóttir segist vera þeirrar skoðunar að til að líða vel andlega þurfi nútímamanneskjan að hafa tilgang, gera gagn og snerta líf annarra.
„Við erum heild, hringrás og andleg heilsa hlýtur að taka mið af umhverfinu, heildinni. Einstaklingshyggjan er búin að vera, hún er kulnuð,” segir Sirrý, sem er með mörg járn í eldinnu um þessar mundir en auk þess að vera fyrirlesari er Sirrý stjórnendaþjálfari og kennari við Háskólann á Bifröst.

„Þegar ég hef tækifæri til að miðla, gefa af mér, verða að liði, gera gagn, hvetja aðra þá líður mér vel andlega,“ lýsir hún. „Mér líður líka vel í geðinu þegar ég rækta jörðina, grænmeti og plöntur, fer vel með. Við erum heild, hringrás og andleg heilsa hlýtur að taka mið af umhverfinu, heildinni. Einstaklingshyggjan er búin að vera, hún er kulnuð.”

Aðspurð segist Sirrý hafa hugað meðvitað að andlegri heilsu alveg frá því hún komst til vits og ára.

„Ég fann fyrir kvíða sem barn og unglingur. Veiktist í maga af kvíða og fór á spítala. Á menntaskólaárunum var ég til dæmis með andateppu af kvíða. Upp úr því fór ég að huga markvist að leiðum til að bæta andlega líðan.

Ég fann svo fyrir depurð þegar ég var í fyrsta sinn í fæðingarorlofi og það ýtti við mér að skoða þetta markvisst.“

Sjálfsvinna Sirrýar varð að bókinni ,,Laðaðu til þín það góða”, sem kom út árið 2012 og er löngu uppseld, en í bókinni deilir Sirrý reynslu og ráðum sem breyttu lífi hennar og líðan; „þakklætisgöngu” og fleiri aðferðum sem eru hluti af hvunndegi hennar ennþá. Hún segir að draumar hennar hafi allir ræst og þessi sjálfsvinna hafi þar af leiðandi verið mikil gæfa.

Það fer ekki á milli mála að Sirrý upplifir mikinn mun eftir að hún fór að huga betur að andlegu heilsunni.

„Já, mikinn mun. En andleg og líkamleg líðan helst í hendur og þegar ég fer í langa göngutúra, upplifi sjó, skóg, brekkur og mannlíf rækta ég samtímis geðið og skrokkinn. Ég verð lausnamiðaðri og sef betur.“

Hún bendir á að það sé hægt að huga að andlegu heilsunni á svo fjölbreyttan máta að það sé af mörgu að taka.

„Ég vel mér viðhorf, ég hugsa jákvætt, ég öfunda ekki heldur samgleðst öðrum,“ telur hún upp og heldur áfram.

„Ég hrósa, læri stöðugt af öðrum, skapa og miðla í störfum mínum.

Ég huga að orðunum sem ég nota, ég stunda þakklæti meðvitað.

Syndi, sæki í súrefni og geri öndunaræfingar til að endurnýja líkama og sál.

Ég rækta og endurnýti en það nærir sálina.

Ég nýt þess að umgangast börn, enda er það svo heilandi.

Þá hef ég lært raja yoga-hugleiðslu, meðal annars í Oxford, og það opnaðist heimur innra með mér.“

Þá mælir Sirrý með að fólki læri að treysta á einfaldleikann.

„Geðorðin 10 hafa til dæmis reynst mér vel,“ upplýsir hún, „og ég reyni að lifa eftir þeim. ,,Flæktu ekki líf þitt að óþörfu” er geðorð sem ég hef oft gripið til.“

Eins séu jákvæðar staðhæfingar algjört vítamín fyrir geðheilsuna.

„Staðhæfingar eins og „Ég er nóg“, „Sjálfur leið þú sjálfan þig“, „Jafnan er dimmast undir dögun“,“ tekur hún sem dæmi. „Þetta eru allt sönn gullkorn.“

Það dýrmætasta sem við eigum

Góð andleg heilsa er ásamt líkamlegri heilsu undirstaða allrar lífshamingju að mati rithöfundarins Sverris Norland.
Spurður hvort hann hafi alltaf lagt rækt við andlega heilsu hristir Sverrir Norland hausinn. „Sjálfsagt ekki. En þetta kemur með auknum þroska og aldri.“

Þegar Sverrir er spurður hvernig hann hlúi að andlegri heilsu er hann ekki lengi að hugsa sig um.

„Þrjú orð: Ást. Forvitni. Listir.“

Hann segir líka mikilvægt að fást við eitthvað sem veitir manni ánægju í lífinu.

„Sjálfur er ég svo heppinn að fást við hluti sem ég hef ástríðu fyrir, hvort sem það eru bókaskrif, útgáfa, sjónvarp, útvarp, fyrirlestrar, en ég held að okkur líði vel, andlega, þegar við höfum einhverja stjórn á eigin tilveru og fáumst við það sem við trúum á og skiptir okkur máli.“

Að hans mati skiptir ekki síður máli að geta stimplað sig út og slappað af.

„Ég er vinnusamur frá náttúrunnar hendi en hef farið í gegnum tímabil þar sem vinnuálagið hefur orðið alltof mikið og þá getur orðið stutt í að sköpunargleði breytist í sköpunarkvöð. Ég þarf því oft að minna mig á að keyra mig ekki út.“

Spurður hvað hann geri svona helst til að stimpla sig út segist hann til dæmis reyna að muna að taka sér tíma í að hreyfa sig.

„Ég hjóla á milli staða, hleyp og geri æfingar, bara með eigin líkamsstyrk á dýnu - þetta þarf ekki að vera flókið.

Svo er líka gott að hitta fólk. Hitta umheiminn. Leika við börn og spila á gítar,“ segir hann og brosir.

Hann segist ekki geta ítrekað nógu oft hversu mikilvægt sé að huga að andlegri heislu.

„Góð andleg heilsa er auðvitað, ásamt líkamlegri heilsu, undirstaða allrar lífshamingju. Ríkt innra líf er fjársjóður. Það dýrmætasta sem við eigum.“

Á Sverrir, svona í lokin, einhver góð ráð fyrir þá sem vilja byrja að huga betur að andlegu heilsunni?

„Sömu þrjú orð og í upphafi: Ást. Forvitni. Listir. Sem sagt: Elskaðu aðra og sjálfan þig. Hafðu áhuga á umheiminum - og hreyfðu þig, ferðastu. Og vertu skapandi og sömuleiðis móttækilegur fyrir sköpun annarra. Mér finnst þetta þrennt vera kjarni lífsins.“

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu