Fara í efni

Fræga fólkið rifjar upp 2021

Lífsstíll - 30. desember 2021

Við fengum nokkra listamenn til að gera upp árið sem er að líða og heyrum um markmiðin þeirra fyrir 2022.

„Ég er tilbúinn fyrir næstu skref"

Halldór Armand Ásgeirsson rithöfundur ætlar að fara út fyrir þægindaramman á nýju ári.
Töfrarnir gerast þegar maður fer út fyrir þægindarammann. Snilldarleg hönnun, ef þú spyrð mig.
Rithöfundurinn Halldór Armand. Mynd: Julia Colavita.

„Leggst bara vel í mig. 22 er góð tala. Tvöföld tvöföldun, ekki satt? Ég er allavega búinn að ákveða að fyrir mig persónulega verði þetta gírað ár og ég er tilbúinn fyrir næstu skref – eitthvað nýtt,“ segir rithöfundurinn Hallldór Armand Ásgeirsson, spurður að því hvernig nýtt ár leggist í hann. Hann hugsar sig um stundarkorn og bætir við að svo sé spurning hvort þetta ár verði mögulega smá Catch-22 fyrir heiminn eins og við þekkjum hann. „Það er að hann sé fastur í óleysanlegri mótsögn og viti þess vegna ekki hvernig hann getur haldið áfram,“ veltir hann fyrir sér.

Ætlar að reyna að vera hugrakkur

En hvernig er það, ætlar Halldór að strengja áramótaheit?

„Nei, ég hugsa ekki. Það er ekkert sem kallar á mig að undanförnu. En spurningin frá þér er reyndar ágætis hvati: Ég ætla að reyna að vera hugrakkur á nýju ári, fara út fyrir þægindarammann. Ég hef aldrei séð eftir því að setja mér slíkt markmið.“

Hefur hann gert eitthvað af því í gegnum tíðina?

„Nei, svona almennt og yfirleitt ekki. En ég hef alveg sett mér svona markmið, óháð áramótum, eins og til dæmis að fókusera á að gera eitthvað sem mér finnst almennt séð óþægilegt eða ógnvekjandi. Og klisjan er sönn: Töfrarnir gerast þegar maður fer út fyrir þægindarammann. Snilldarleg hönnun, ef þú spyrð mig.“

Undrandi á ástandinu

Spurður hver hápunkturinn hafi verið á árinu sem er að líða viðurkennir Halldór að 2021 hafi verið án hápunkta – og lágpunkta. „Eitt af þessum árum þar sem maður var soldið að líta á klukkuna og bíða eftir strætónum; ég held að 2022 sé árið þar sem þeir koma nokkrir í einu eftir langa bið. Það var reyndar reif haldið í Gufunesi í júlí sem var svolítið ógleymanlegt. Jú, það var hápunkturinn að vera þar með góðum vinum.“

Kom honum eitthvað á óvart?

„Ekki svona persónulega. En auðvitað kemur „ástandið“ manni sífellt á óvart, það hefur aldrei gerst jafn oft á einu ári að ég trúi ekki mínum eigin eyrum og augum. Heimurinn er að taka óafturkræfum breytingum á ógnarhraða fyrir augum okkar.“

Opinn fyrir öllu

 Tal okkar beinist þá að gamlárskvöldi sem er framundan og Halldór segist telja líklegt að hann muni borða með fjölskyldunni og fari síðan að hitta vini sína. Hann býst ekki við miklu en er opinn fyrir öllu.

Á hann einhverjar sérstakar hefðir og siði sem tengjast áramótum?

„Ég hef oft ætlað mér að byrja með einhverja áramótasiði en aldrei gert það,“ játar hann. „Maður sem ég þekki fer alltaf einn í göngutúr meðfram Ægissíðu og horfir til hafs á áramótunum. Mig langar mikið að byrja að gera eitthvað svona rómantískt, áramótin eru auðvitað ljúfsár og að vissu leyti erfiður tími. Þau eru svo mikill vitnisburður um hverfulleikann og alveg við hæfi að staldra svolítið við og líta um öxl.“

Og hvernig ætlar Halldór að hefja nýtt ár?

„Ég er að vinna í nýrri bók sem er langt komin. Vinnutitillinn er „Við erum bara að reyna að hafa gaman“. Þetta eru svona esseyjur um lífið, tilveruna og samfélagið. Ef ég þekki sjálfan mig rétt mun ég örugglega bara vakna á Nýársdag, fá mér kaffi og halda áfram að vinna í henni,“ segir hann og brosir út í annað.

„Sköpun, ást, skrif og óteljandi skemmtilegar stundir“

Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir á frábært ár að baki.
Í rauninni átti ég frábært ár. Þetta ár var mjög gott við mig, persónulega.
Rithöfundurinn Auður Jónsdóttir. Mynd: Saga Sig.

Auður Jónsdóttir rithöfundur segist alltaf bíða eftir nýju ári með tilhlökkun, henni finnist svo kærkomið að fá tímamótin áramót. Áramótin séu alltaf nýtt upphaf í einhverjum skilningi. Síðan sé bara „svo gott þegar byrjar að birta aftur“.

„Kannski eru það áhrif af kóvid að ég þrái helst ró á næsta ári og hugsa fyrst og fremst um að allt sé gott svo lengi sem allir séu sem frískastir,“ segir Auður og bætir við að hún voni að heilbrigðiskerfið verði betrumbætt sem mest á næsta ári.

„Raunar held ég, í ljósi mengunar og loftlagshamfara af mannavöldum, að maður verði mínímalískari í lífsháttum með hverju árinu sem líður. Í rauninni nægjusamari,“ heldur hún áfram. „Þegar ég hugsa um árið langar mig bara að við sonur minn getum haft það notalegt og gaman, líka með öðrum í stórfjölskyldunni í kringum okkur. Hvert ár hefur eitthvað glænýtt í för með sér, oftast bæði eitthvað gleðilegt og eitthvað annað erfitt, svo oft á ófyrirsjáanlegan hátt, svo nú er bara að sjá!“

Ár uppljómunar

Beðin um að lýsa árinu sem er að líða í einni setningu segir Auður að sér finnist þetta hafa verið ár uppljómunar. „Það var meiri ró í kringum mann, vegna kóvid, en um leið eru allskonar vitundarvakningar í gangi í umræðunni og þær hafa áhrif á bæði hugsun og atferli, já, í þessu ári bjó einhvern veginn bæði endir og upphaf.“

En þegar hún lítur um öxl, hvað stóð þá upp úr? „Stundin sem stóð upp úr á þessu ári, ef ég lít á það með samfélagslegum gleraugum, var augnablikið þegar ég, ásamt aragrúa fólks, sat í Laugardalshöll að fá bólusetningu og horfði á meðan á skjá á veggnum sem sýndi eldgos í beinni útsendingu,“ svarar hún.

Hefði viljað sjá barnið sitt upplifa ár án kóvids

Var eitthvað sem Auður hefði síður viljað upplifa á árinu? „Einangrun eldra fólks í kringum mig,“ segir hún alvarleg í bragði. „Þó að kóvidbylgjurnar hafi ekki reynt eins mikið á í ár upp á það að gera og allt sé orðið mun eðlilegra en fyrstu misserin, þá er flæði á milli fólks ennþá aðeins með breyttu sniði, allavega á köflum. Ég hefði líka viljað sjá barnið mitt upplifa ár án kóvids því hvert ár í barnsævinni er svo stórt og mikið.“

En hvað var eftirminnilegast? „Jarðskjálftarnir, eldgosið, kóvid, veikindi ættmenna og áhugaverðar vitundavakningar,“ telur hún upp. „Og svo allt það góða persónulega; sköpun, ást, skrif og óteljandi skemmtilegar stundir því í rauninni átti ég frábært ár. Þetta ár var mjög gott við mig, persónulega.“

Fagnar nýju ár í systkinafansi

Og nú eru áramótin framundan. Hvernig skyldi Auður ætla að verja gamlárskvöldi?

„Á gamlárskvöld ætlum við systkinin og börnin okkar að vera hjá Göggu systur minni og fjölskyldu hennar,“ svarar hún. „Það er orðið hefð að fagna nýju ár í systkinafansi og spennandi núna því Gagga er ein af þeim sem skrifar Áramótaskaupið. Krakkarnir búa til spurningaleik og fá að skála í krakkakampavíni og við þessi fullorðnu verðum öll væmin þegar við kyssum hvert annað gleðilegt ár, þakklát því að mega faðmast.“

„Við þurfum að vanda okkur“

Ólafur Egill Ólafsson, leikari, leikstjóri og skáld með meiru, á annasama tólf mánuði að baki. Hann segir mikilvægt að halda í bjartsýnina á nýju ári.
Við getum allt og ekkert er ómögulegt.
Ólafur Egilsson, leikari, leikstjóri og leikskáld.

Spurður að því hvernig hann ætli að hefja nýtt ár segist Ólafur ætla að vera bjartsýnn og þolinmóður. Hann lofi því. „Annars byrja ég á æfingum á einleiknum „Það sem er“ sem María Ellingsen mun leika í Tjarnarbíói,“ heldur hann áfram. „Svo er það smá æfingarispa á „Ástu“ í Þjóðleikhúsinu og halda utan um „9líf“ sem rúllar áfram í Borgarleikhúsinu - ef Covid lofar.“

Hverju skyldi hann vera stoltastur af á árinu sem er að líða?

„Börnunum, alltaf börnunum,“ svarar hann án umhugsunar. „Þau eru best. Konunni minni líka. Hún er líka best, og svo er hún svo flink leikkona. Og þolinmóð. Það er ekki verra, sérstaklega af því að ég á það til að vera það ekki.“

Væntingastjórnunin fór úr böndunum

Var einhver hápunktur sem Ólafur man sérstaklega eftir?

Hann hugsar sig um andartak. „Ætli það hafi ekki verið þegar leikhúsin máttu loksins fara í gang,“ segir hann svo. „Og bæði 9Líf og Ásta komust á fjalirnar, eftir alla biðina.“

En var eitthvað sem hann hefði síður viljað lenda í?

„Ég hefði alveg getað sleppt þessum þónokkru skiptum sem við byrjuðum að æfa og héldum að við værum að fara að sýna en svo á síðustu stundu var öllu skellt í lás. Það tók aðeins á, væntingastjórnunin fór alltaf úr böndunum hjá mér,“ viðurkennir hann.

Gerum þetta meira saman

Kom Ólafi eitthvað á óvart?

„Hvað það þarf í raun lítið til að koma manni úr jafnvægi, hvað allt verður flókið og yfirþyrmandi - en svo líða örfá augnablik og þá verður allt svo blátt áfram og viðráðanlegt. Og svo snýst það aftur við og svo enn aftur og svo framvegis. En hér er maður samt og allt fer einhvernveginn og núið líður stöðugt áfram og við getum allt og ekkert er ómögulegt.“

Hvernig myndi hann lýsa árinu 2021?

Hann glottir út í annað. „Án þess að blóta? Ég veit ekki ... gerum þetta saman? Þetta er orðið gott? Gerum þetta meira saman?“

Hlegið og grátið – og mikið af því

En áramótin, hvernig skyldi þeim vera háttað hjá Ólafi og fjölskyldu?

„Það fer eftir sóttvörnum býst ég við,“ segir hann. „Vonandi hitti ég sem flesta fjölskyldumeðlimi. Við erum með hefð, á gamlárskvöld förum við sem saman erum komin hringinn við matarborðið og allir nefna tvennt sem stendur upp úr á árinu. Það bregst ekki að það er bæði hlegið og grátið, og mikið af því. Ég vona að við náum að halda þeirri hefð til streitu.“

Spurður í lokin hvernig nýtt ár leggst í hann svarar hann: „Bara vel. Þetta er allt á uppleið, er það ekki? Við þurfum aðeins að vanda okkur, en þetta er allt að koma. Ég trúi því. Ég ætla að trúa því.“

Mynd: Brynjar Snær.
Ólafur segist vera stoltastur af eiginkonunni og börnum þeirra. Hér eru þau samankomin, Ólafur og leikkonan Esther Talía Casey, eiginkona hans og börn þeirra.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu