Fara í efni

Frægir gefa góð ráð fyrir Valentínus­ar­dag: Uppskrift að fullkomu stefnu­móti

Lífsstíll - 10. febrúar 2022

Valentínusardagurinn, dagur elskenda, er kjörið tilefni til að tjá ástvinum hug sinn. Algengt er að ástfangnir skiptist á blómum eða súkkulaði og öðrum gjöfum en það er líka hægt að sýna ást sína með öðru móti eins og ritstjórn HÉR ER komst að raun um þegar hún leitaði ráða hjá nokkrum þjóðþekktum Íslendingum.

Farðu á stefnumót með einhverjum sem lætur þig hlæja, brosa og líða vel. Ef það er ekki með í jöfnunni þá get ég lofað því að þótt viðkomandi kæmi að sækja ykkur á þyrlu og flygi með ykkur yfir í Viðey, sem væri öll þakin rósablöðum og upplýst með kertum, skipti það engu einasta máli. Hlátur og bros verða að vera til staðar. Það þarf ekki meira til að hlutirnir gangi upp.
Þúsundþjalasmiðurinn Eva Rusa er mikill rómantíker.

Ráð sem nýtast pottþétt vel og leiða jafnvel til hjónabands

Eva Ruza ætti að vera landsmönnum að góðu kunn, en hún starfar sem skemmtikraftur, kynnir, veislustjóri og áhrifavaldur, auk þess að færa hlustendum K100 fréttir af fræga, fallega og ríka fólkinu á hverjum degi. Að eigin sögn er Eva rómantísk í sér og óhemju væmin, svo væmin að stundum gengur það fram af eiginmanninum.

Spurð hvort Eva eigi einhver ráð handa þeim sem eru á leið á stefnumót á Valentínusardag segir Eva reglu númer eitt að bursta tennurnar vandlega. „Gerið ráð fyrir því að það verði kelerí og þá eru hreinar tennur málið.

Númer tvö: Setjið símann á „silent“ og látið hann bara alveg eiga sig. Ég veit að það er erfitt í hraða lífsins í dag, en það er samt nauðsynlegt til að geta einbeitt sér almennilega. Nema það séu börn sem bíða heima. Þá leyfi ég að það sé kíkt annað slagið á skjáinn.

Númer þrjú: Farið með opnum hug af stað á deitið og leyfið kvöldinu að flæða og ekki ofhugsa neitt.

Númer fjögur: Setjið ilmvatnsdropa á bakvið eyrun því ef það verður eitthvað um hvísl í eyru þá getur örlítill ilmur kveikt blossa. Ég lofa.

Númer fimm: Og keliði smá í guðanna bænum. Ef stefnumótið gengur vel og tilfinningin er góð látið þá hvíslið í eyrað þróast út í smá kossa. Fyrst þið voruð búin að bursta tennurnar á annað borð þá er um að gera að láta vaða. Kossar segja svo mikið.“

Eva tekur fram að þessi ráð séu ætluð þeim sem eru á leið á fyrsta deit og muni því pottþétt nýtast einhverjum vel. „Og jafnvel leiða til hjónabands,“ bætir hún við glettin.

Rósir og kertaljós ekkert endilega aðalmálið

 

Eva segir auðvitað misjafnt hvað fólk upplifi sem rómantík. Fyrir henni persónulega snúist rómantík ekkert endilega um rósir og kertaljós. Þvert á móti séu það stundum „litlu hlutirnir í lífinu“ sem hitti beint í hjartastað.

„Eins og þegar Siggi maðurinn minn kemur heim með glampa í augunum, kyssir mig og segir „hæ“. Eða þegar hann lagar eitthvað fyrir mig. Ég veit að eflaust hugsa margir: „Það er ekkert rómantískt við það!“ En þegar þú átt mann sem er ekkert sérstaklega rómantískur í sér þá veistu að hann notar aðrar leiðir til að sýna ást þér sína. Hann myndi gera allt í heiminum fyrir mig og mér finnst heilmikil rómantík fólgin í því.“

Eva játar þó að hafa stundum látið eiginmanninn heyra að hann sé algjörlega geldur á þessu sviði en þá sé hann iðulega fljótur til svars.

„Eva, það er ekki pláss fyrir tvo væmna hvolpa í þessu hjónabandi, bendir hann á. Sem er rétt. Það væri hrikalegt ef við værum bæði eins og ég. Ég þarf samt að senda hann í bréfaskóla um rómantík eða eitthvað. Ætli það sé ennþá séns fyrir hann að læra þetta?“ Hún skellir upp úr.

Greip andann á lofti þegar hún sá tilvonandi mannsefnið

 

Eva og maðurinn hennar, umræddur Siggi eða Sigurður Þór Þórsson eins og hann heitir fullu nafni, eru búin að vera saman í 22 ár, en þau hittust fyrst árið 2000 á Sálarballi á Broadway þegar Eva var aðeins sautján ára. Hún segist hafa staðið úti á miðju dansgólfi seint um kvöldið þegar hún sá hann koma niður stigann. Í minningunni hafi hún gripið andann á lofti, hlaupið til vinkonu sinnar og sagt – þó meira í gríni en alvöru - að nú væri hún búin að finna manninn sinn.

„Ég ætlaði samt ekki að þora að gera neitt í málinu þannig að Regína besta vinkona mín ýtti mér í áttina að honum á dansgólfinu og stuttu síðar gripu hendur um mittið á mér og karlmannsrödd hvíslaði upp í eyrað á mér: „Hæ sæta. Ég heiti Siggi. Hvað heitir þú?“

22 árum seinna erum við Siggi hjón með tvö börn og eigum fallegt líf,“ segir hún og brosir út að eyrum.

Rómantískt ráðabrugg sem rann út í sandinn

 

Tuttugu og tvö ár, það er nú ágætis tími, en Eva segist gera ýmislegt til að viðhalda neistanum. Mikilvægt sé að þora að láta ást sína í ljós. Sjálf gerir hún það með faðmlögum og kossum og eitt sinn, áður en börnin komu til sögunnar, hafi hún meira að segja gengið svo langt að breyta heimilinu í hálfgerða ástardyngju.

„Já, áður en Siggi kom heim úr vinnunni kveikti ég á slóð kerta sem lágu inn í stofu og kom þar fyrir teppum og jarðarberjum og súkkulaði og bara öllu því sem rómantískasta sem hægt er að hugsa sér,“ lýsir hún.

Ráðabruggið fór þó aðeins öðruvísi en Eva ætlaði sér því þegar parið var búið að fá sér nokkur jarðarber og kela smávegis þá steinsofnaði Siggi. „Ég hafði nú reiknað með aðeins meira stuði en veistu, þetta var svo kósí og vel heppnað að ég breiddi bara yfir hann teppi í sófanum og leyfði honum að sofa," segir hún og skellir uppúr.

Ógleymanlegt fyrsta stefnumót

 

Annars mælir Eva með því að fólk gefi sér góðan tíma til að hlúa að sambandinu og það sé hægt að gera með ýmsu móti, til dæmis með því að fara á stefnumót annað slagið. Í því samhengi rifjar Eva upp þegar Siggi bauð henni út í fyrsta skipti en hún segir að það sé líklegast besta deit sem hún hafi farið á.

„Það var hrikalega órómantískt en á sama tíma eitthvað svo ferlega krúttlegt og fallegt,“ segir hún og verður dreymin á svip við tilhugsunina. „Við fórum í bíó saman og ég man að áður en hann sótti mig var ég ekki viðræðuhæf, ég var svo spennt, enda bara sautján ára og Siggi fyrsti alvöru kærastinn minn. Þegar hann dinglaði bjöllunni heima faldi ég mig í stiganum og lét Tinnu systur opna hurðina til að hún gæti mælt drenginn út. Svo gekk ég þokkafull niður stigann og reyndi að vera rosa flott gella. Og þarna stóð hann svo fagur og skælbrosandi og ég hugsaði: ,,Damn, Eva Ruza, þú nældir þér í töffara!“ Ég man reyndar ekkert hvaða mynd við sáum, en við keluðum ROSA mikið eftir hana í litlum rauðum Yaris og ég man að mér fannst þetta fyrsta deit okkar Sigga vera besta kvöld sem ég hafði nokkru sinni upplifað.“

Hlátur og bros ómissandi

 

Blaðamaður stöðvar Evu og spyr hver sé uppskriftin að fullkomnu stefnumóti að hennar mati.

„Farðu á stefnumót með einhverjum sem lætur þig hlæja, brosa og líða vel,“ svarar hún án þess að hugsa sig um. „Ef það er ekki með í jöfnunni þá get ég lofað því að þótt viðkomandi kæmi að sækja ykkur á þyrlu og flygi með ykkur yfir í Viðey, sem væri öll þakin rósablöðum og upplýst með kertum, skipti það engu einasta máli. Hlátur og bros verða að vera til staðar. Það þarf ekki meira til að hlutirnir gangi upp. Sjálf held ég að neistinn okkar Sigga sé einfaldlega húmorinn og ástin sem við berum í brjósti til hvors annars,“ heldur hún áfram. „Húmorinn tendrar upp ástarblossann og kveikir í hjartanu.“

Eva segir að hún og Siggi hafi ekki haldið Valentínusardag hátíðlegan hingað til, en aftur á móti hjálpi hún mörgum að gera það. „Dagurinn hjá mér fer í hjálpa rómantíkerum landsins í að sýna ást, þar sem ég starfa í blómabúðinni Ísblóm og þar dælum við mamma blómum, súkkulaði og hjörtum yfir borðið hjá okkur allan daginn.“ Hún segir konudaginn vera með svipuðu móti en þá dekri eiginmaðurinn hins vegar við hana eftir vinnu. „Mögulega eini dagurinn sem hann ,,Rómeó" minn er með hlutina á hreinu,“ segir hún sposk á svip.

Mikilvægt að prófa sig áfram í ástarlífinu

Tómas Valgeirsson, blaðamaður, kvikmyndarýnir og þáttastjórnandi hlaðvarpsins Sandkorn, hvetur fólk til að vera óhrætt að prófa sig áfram í ástarlífinu og reyna að læra af mistökunum. Hann segist ekki vera með neitt sérstakt planað á Valentínusar dag og ætlar að halda deginum opnum.

Það væri gaman að geta rammað út eitthvað plan, en bestu plönin geta oft verið þau ófyrirsjáanlegu,“ segir Tómas léttur í lund.

Hann bætir við að vissulega geti þó verið gaman að koma sér upp hefð á Valentínusardegi, eins og að fara með sinni heittelskuðu eða -elskaða í bíó, eða annað sem fólki finnst gaman að gera. Reynslan hafi hins vegar kennt honum að stundum borgi sig ekki endilega að vera að plana hlutina of mikið fyrirfram og í því samhengi nefnir hann að á hans besta stefnumóti til þessa hafi til að mynda ekkert gengið samkvæmt áætlun.

„Þetta var annað deitið okkar og ég ætlaði að vera ofsa sniðugur og koma henni á óvart með óvæntri gjöf,“ rifjar hann upp. „En svo þegar ég var mættur fyrir utan hjá henni á tilsettum tíma kom í ljós að hún hafði tafist annars staðar og til að bæta gráu ofan á svart varð síminn minn batteríslaus.“

Á svipstundu fuku öll plön því út í veður og vind og stefnumótið breyttist í „algjöra ringulreið“ eins og Tómas orðar það, þar sem hann og stúlkan leituðu logandi ljósi að hvoru öðru um miðbæ Reykjavíkur þar til þau náðu loks saman.

„Eins mikil ringulreið og kvöldið var í byrjun þá hefð ég samt engu viljað breyta,“ segir hann með bros á vör. „Því við tóku fjórar til fimm samfelldar klukkustundir af spjalli, hlátri, spurningaflórum og það sem mestu máli skipti er að þarna um kvöldið urðum við rosalega skotin í hvoru öðru. Við náðum einhverri djúpri tengingu og þó sambandið hafi seinna runnið sitt skeið þá var það ekkert minna ekta eða dýrmætt fyrir vikið.“

Hann segir þetta raunverulega hafa kennt sér að fullkomnun sé oft að finna í ófullkomnleikanum. „Kemistría er kemistría,“ segir hann ákveðinn. „Allt annað er punt, pomp og peningaskraut.“

Hörmulegt deit samkvæmt öllum mælikvörðum

 

Blaðamaður stenst ekki mátið og spyr hvort rómantískir tilburðir Tómasar hafi einhvern tímann misheppnast?

„Allt of oft,“ játar hann og skellir upp úr. „Eins og til dæmis þegar ég framreiddi einu sinni dýrðar ostabakkaveislu fyrir manneskju sem reyndist ekki þola osta og er þar að auki með mjólkuróþol.“

Tómas hlær við tilhugsunina en segir að þetta sé þó langt í frá það vandræðislegasta sem hann hafi upplifað á stefnumóti. „Nei, ætli það sé ekki þegar ég þóttist vera séntilmaður og ætlaði að losa bíl stelpunnar úr snjóskafli en endaði á því að hringspóla í hjólförum, sem gerði bara illt verra.“

Í öðru tilfelli segist hann hafa farið á stefnumót þar sem enginn neisti var á milli hans og dömunnar. „Greyið, hún var nýkomin úr löngu sambandi og megnið af kvöldinu fór í að gefa henni ráð um hvernig best væri að taka næstu skref. Hörmulegt deit samkvæmt öllum mælikvörðum en á móti eignaðist ég góða vinkonu.“

Þá segist Tómas meira að segja hafa lent í því fyrir löngu síðan að fara á stefnumót þar sem viðkomandi lét ekki sjá sig.

Hann hlær aftur og segir að svona sé þetta bara í ástarlífinu. Fólk þurfi að prufa sig áfram og reyna að læra af mistökunum.

Verið þið sjálf

 

En skyldi Tómas eiga heilræði handa þeim sem eru að fara á stefnumót á Valentínusardag?

Hann þagnar, hugsar sig um stundarkorn og segir síðan að sitt ráð til annarra sé að læra að þekkja og elska sjálfan sig og líf sitt áður fólk fer að leita hamingjunnar í faðmi annarra . „Þegar það er sirka komið á hreint er auðveldara að búa til pláss fyrir förunaut,“ útskýrir hann.

„Svo er það argasta klisja en það er aldrei óheilbrigt ráð að hvetja fólk til að vera það sjálft; algjörlega eins og það kemur klætt til dyra - þó vonandi í einhverju ögn fínna en bara einhverju tuskutaui sem sýnir núll „effort“.

Tómas segir að því fylgi bara hausverkur að vera að setja upp einhverja grímu til að þóknast einhverjum sem maður er spenntur fyrir. Auk þess sé það yfirleitt ávísun á að hlutirnir fari fyrr eða síðar út um þúfur.

Þá varar hann við því að fólki hoppi beint í rómantískt samband eftir sambandsslit. „Ég mæli til dæmis með því að fólki forðist „deitheima“ í leit að andstæðu manneskjunnar sem særði mann. Ég hef aldeilds verið í þeim sporum, ráfað í gegnum stefnumótalagerinn án þess að vita almennilega að hverju ég væri að leita.“

Bannað að vera leiðinleg

 

Í stuttu máli segist Tómas hvetja fólk til að gefa sér tíma til að átta sig aðeins á hlutunum áður en það hendir sér út í djúpu laugina. Þótt það borgi sig að vera með opið hugarfar þá sé best að vera búinn að átta sig á hvað höfði til manns.

„Farangur lífs þíns er leyfilegur, en það er bannað að vera leiðinlegur,“ segir hann með áherslu og brosir.

Tómas segir að fyrir sér sé uppskriftin að fullkomnu stefnumóti sambland af einhverju sem báðir aðilar virkilega fíla og einhverju nýju sem höfðar til þeirra beggja. „Blanda af heimum hvors annars, ef svo má segja, og einhverri nýrri upplifun sem samanlagt gerir stefnumótið einstakt. Í raun snýst þetta kannski ekki um hvað er gert heldur meira um hugarfarið sem þú ferð með á stefnumót, hvernig þú ert stemmdur fyrir því að kynnast nýjum einstaklingi. Lífið er svo stutt að það er um að gera að leyfa sér að lifa og njóta.“

Spurður hvað heilli hann helst í fari kvenna segist Tómas ekki vera mikið gefinn fyrir að setja hlutina í box. Þó viðurkennir hann að hreinskilni, húmor og „júník“ rödd kveiki gjarnan í honum. „Og kannski eitthvað „auka“ sem talar einfaldlega rakleiðis til mín eða minnar sérvisku,“ bætir hann við.

Þarf ekkert að vera flókið

Birgir Steinn Stefánsson söngvari og hans heittelskaða Rakel Sigurðardóttir halda Valentínusardag yfirleitt ekki hátíðlegan, en Birgir játar að honum finnist samt gaman að gera eitthvað í tilefni dagsins.

Spurður hvort hann og kærastan séu með einhver áform á Valentínusardag í ár segir Birgir ekkert vera planað eins og er. „En það er aldrei að vita, kannski dettur okkur eitthvað sniðugt í hug,“ bætir hann við og segir að þeim skötuhjúum þyki gaman að gera sér dagamun með því að fara saman út að borða eða skella sér í „laufléttan“ ísbíltúr.

Er Birgir rómantískur?„Ég er væminn að eðlisfari,“ svarar hann hreint út. „Kannski of væminn að margra mati og ég hef örugglega oft farið langt yfir eðlileg mörk hvað varðar rómantík,“ viðurkennir hann og hlær. Hann vill þó ekki fara nánar út í þá sálma. Segir kíminn á svip að eflaust sé fyrir bestu að halda því á milli sín og kærustunnar.

En hvernig tjáir hann kærustunni hug sinn?„Mér finnst gaman að elda fyrir hana mat sem henni finnst góður,“ svarar hann. „Svo slær gott nudd yfirleitt í gegn.“

Gaman að láta koma sér á óvart

 

Sjálfum finnst Birgi rómantískt að finna fyrir væntumþykju. „Yfirleitt þarf ég ekki meira en það,“ segir hann glaðlega. „Síðan finnst mér auðvitað gaman líka þegar mér er komið á óvart annað slagið.“

Birgir útskýrir að hann sé voðalega mikill „minna-er-meira-kall“. Fyrir honum sé til dæmis góður kvöldverður, drykkur og spjall uppskrift að fullkomnu stefnumóti. Honum finnst óþarfi að flækja hlutina of mikið. Í því samhengi nefnir hann að upp á síðkastið hafi hann og Rakel verið dugleg að æfa sig tvö saman í Kviss svo þau eigi sjens í vinafólk þeirra á næsta spilakvöldi. Slík samvera sé til dæmis rómantísk að hans mati.

Kærastan tók fyrsta skrefið

 

Þegar blaðamaður forvitnast aðeins um sambandið kemur í ljós að Birgir og Rakel eru búin að vera saman í yfir fjögur ár. Leiðir skötuhjúanna lágu saman á samfélagsmiðlum en að sögn Birgis var það Rakel sem tók fyrsta skrefið.

„Hún sendi mér skilaboð á Instagram og ég var ekki lengi að samþykkja að fara á fyrsta stefnumótið með henni,“ rifjar hann upp. „Hún er einfaldlega ákveðin, sá bara hvað hún vildi og lét vaða - sem betur fer!“

Birgir segir að þessi ákveðni hafi einmitt verið eitt af því fyrsta sem heillaði hann í fari kærustunnar. „Það sem heillar mig mikið við Rakel er hvað hún ákveðin, öguð og dugleg - eflaust mun duglegri en ég. Svo styður hún við bakið á mér í öllu sem ég tek mér fyrir hendur,“ segir hann með áherslu, „sem er ekki sjálfgefið.“

Sýnið áhuga og EKKI mæta of seint

 

Á þessum fjórum árum eru skötuhjúnin búin að bralla ýmislegt skemmtilegt saman. Birgi er til dæmis minnisstæð ferð til Parísar þar sem þau notuðu tímann til að skoða borgina, drekka gott vín og borða yfir sig af ostum. Hann segir að ferðin hafi verið feykilega skemmtileg. Þá sé fyrsta stefnumótið ógleymanlegt.

„Það var reyndar voða „beisik“. Við pöntuðum pítsu, horfðum á mynd og spjölluðum alla nóttina. Nú erum við búin að vera saman í rúmlega fjögur ár og okkur finnst enn jafn gaman að panta pítsu og horfa á myndir.“

Spurður hvort hann lumi á ráðum handa þeim sem eru að fara á deit þvertekur Birgir fyrir að vera eitthvert stefnumótagúrú. Hann segir að auðvitað sé misjafnt fólki hvað fílar en sjálfum finnist hann einfaldleikinn bestur.

„Hafið gaman og sýnið viðkomandi áhuga,“ mælir hann með. „Já, og EKKI mæta seint. Ég hef brennt mig á því og mæli eindregið með að sleppa því,“ segir hann og glottir við tönn.

Birgir Steinn Stefánsson og Rakel Sigurðardóttir eru búin að vera saman í rúmlega fjögur ár. „Mér finnst gaman að elda fyrir hana mat sem henni finnst góður,“ segir hann. „Svo slær gott nudd yfirleitt í gegn.“
Love is in the air!

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu