Fara í efni

Margsannað að markmiðasetning ber árangur

Lífsstíll - 17. janúar 2022

Ef hinn dæmigerði Íslendingur væri beðinn um að draga janúarmánuð saman í eina setningu gæti hún hljómað nokkurn veginn svona: færri Mackintosh-molar, fleiri markmið! Já, við erum bara eitthvað svo ferlega til í að snúa öllu á hvolf og bæta ráð okkar fyrstu daga ársins. Stefnum að því að borða minna, sofa meira og jafnvel draga djúpa andann nokkrum sinnum yfir daginn. Spurningin er svo, verða loforðin aðeins innantóm orð eða lífsbreytandi ákvörðun?

Ef einhver veit hvað hún syngur í tengslum við markmiðasetningu er það sálfræðingurinn Erla Björnsdóttir, önnur þeirra sem stendur á bak við MUNUM dagbækurnar vinsælu. En, af hverju að nýta áramót til markmiðasetninga? Mælir Erla með því eða er það kannski bara bóla? Ef ekki, hvað getum við gert til þess að nýta tækifærið og ná þeim árangri sem við viljum?

„Það er eitthvað svo magnað við nýtt ár, bara eins óskrifað blað. Við þau tímamót höfum við tækifæri til að skrifa söguna okkar þetta ár og velta því virkilega fyrir okkur hvernig við viljum hafa næstu tólf mánuði. Gott er að byrja á því að horfa í baksýnisspegilinn og skoða síðasta ár. Með hvað vorum við ánægð? Hvað gekk vel og hvað ekki? Hvaða lærdóm drögum við af síðasta ári? Ég mæli með því að setja sér markmið í upphafi árs en staldra við og skoða þau jafnvel ársfjórðungslega. Á þann hátt er auðveldar að átta sig á því hvar við stöndum, hvort við séum á réttri leið eða hvort einhverju þurfi að breyta."

Margsannað er að markmiðasetning ber árangur og fólk sem nær langt á sínu sviði í lífinu á það flest sameiginlegt að setja sér skýr og hnitmiðuð markmið sem koma því á leiðarenda.
Erla Björnsdóttir sálfræðingur.

„Okkur hættir til að ætla að taka allt með trompi á nýju ári; út með allan sykur, hreyfa okkur daglega, vakna snemma og byrja daginn á því að hugleiða, fara snemma að sofa, minnka skjánotkun og fleira. Þetta eru of stórar breytingar á skömmum tíma til að við séum líkleg að halda þær út og ástæða þess hvers vegna flestir hafa svikið áramótaheitin sín um miðjan janúar. Lykilatriðið er því að fara hægt af stað og setja sér raunhæf markmið sem svo er hægt að byggja ofan á. Ef við hins vegar finnum að markmiðin eru ekki raunhæf ættum við alls ekki að slaufa þeim, heldur endurskilgreina leiðina að þeim. Þá er nauðsynlegt að markmiðin séu sértæk og hafi tímaramma, auk þess að við umbunum okkur þegar þeim er náð. Síðast en ekki síst þá mæli ég alveg sérstaklega með því að við setjum okkur nóg af skemmtilegum markmiðum, en þau eiga ekki bara að vera kvöð, heldur einnig áform um að gera meira að því sem gleður okkur og nærir.“

Penninn Eymundsson, 5.459 kr.
MUNUM dagbókin er nú að koma út sjöunda árið í röð, en hún er hugarfóstur Erlu og vinkonu hennar, Þóru Hrundar Guðbrandsdóttur. Fæst í Pennanum Eymundsson og kostar 5.459 kr.

„Við Þóra Hrund erum báðar mikið fyrir dagbækur og markmiðasetningu og höfðum oft rætt hversu sárlega vantaði góða íslenska dagbók sem sérstaklega væri hugsuð til að hjálpa fólki við markmiðasetningu. Við keyptum okkur gjarnan bækur erlendis og vorum oft með nokkrar í gangi á sama tíma. Eina fyrir skipulag, aðra fyrir markmið og þá þriðju kannski fyrir þakklætisskráningu. Okkur fannst vanta hina fullkomnu bók sem myndi innihalda alla þessa þætti í einu svo við ákváðum að gera dagbók sem myndi mæta öllum okkar þörfum og vonandi annarra einnig,“ segir Erla, en dagbókin varð strax vinsælli en þær stöllur hafði órað fyrir og síðan þá hefur bókin aðeins vaxið og dafnað.

„Við eigum orðið stóran hóp fastakúnna sem hefur keypt bókina alveg frá upphafi og fyrir það erum við þakklátar. Bókin hefur tekið ýmsum breytingum gegnum árin en áherslan er alltaf sú sama; að auðvelda fólki skipulag, hjálpa því að setja markmið sín upp á skilvirkan og árangursríkan hátt og efla tímastjórnun. Í raun lítum við á bókina sem verkfæri fyrir einstaklinga til að hámarka tíma sinn og efla sig á sama tíma.“

 

Við keyptum okkur gjarnan bækur erlendis og vorum oft með nokkrar í gangi á sama tíma, eina fyrir skipulag, aðra fyrir markmið og þá þriðju kannski fyrir þakklætisskráningu. Okkur fannst vanta hina fullkomnu bók sem myndi innihalda alla þessa þætti í einu svo við ákváðum að gera dagbók sem myndi mæta öllum okkar þörfum og vonandi annarra einnig.
Erla Björnsdóttir sálfræðingur, annar höfunda MUNUM dagbókanna.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu