Fara í efni

Sævar Helgi hvetur fermingarbörn til að láta gott af sér leiða

Lífsstíll - 10. apríl 2023

Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðikennari, vísindamiðlari, rithöfundur og dagskrárgerðarmaður, hvetur tilvonandi fermingarbörn að reyna njóta fermingardagsins. Sjálfur á hann ýmsar góðar minningar frá deginum en viðurkennir að sumt hafi komið honum spánskt fyrir sjónir.

Sævar Helgi Bragason, stjörnufræðikennari, vísindamiðlari, rithöfundur og dagskrárgerðarmaður.

Sævar Helgi segist ekki hafa verið ákveðinn í að fermast og raunar verið haldinn töluverðum trúarlegum efasemdum en að endingu látið til leiðast og fylgt straumnum. Það fór því svo að Sævar Helgi fermdist 19. apríl árið 1998, nánar tiltekið í Hafnarfjarðarkirkju, tveimur dögum eftir 14 ára afmælisdaginn. Hann segist nú ekki geta sagt að hann hafi verið beint spenntur fyrir deginum enda sé hann lítið fyrir mannfögnuði.

„Mér fannst svona athöfn dálítið skrítin og svo er ég voða lítið fyrir veisluhöld,“ viðurkennir hann og brosir.

Beðinn um að lýsa fermingarlúkkinu segist Sævar hafa skartað stuttri og frekar snyrtilegri klippingu og klæðst jakkafötum, sem hann valdi með foreldrum sínum.

„Ég man því miður ekki nákvæmlega hvaðan þau komu,“ segir hann, „en mig langar að segja úr Sautján.“

Allt hafi verið í hefðbundnari kantinum og ekkert til að skammast sín fyrir.

„Það er allavega ekkert vandræðalegt að skoða myndirnar frá þessum tíma,“ segir hann sposkur. „Jakkafötin og klippingin eru frekar tímalaus en þannig vel ég líka fötin mín. Ég er ekki mikið að taka áhættu þar, kannski því miður. Hitt hefði verið miklu skemmtilegra auðvitað,“ segir hann og kímir.

Þetta var vel heppnaður dagur en það sem stóð upp úr var hvað mamma var fáránlega dugleg að halda utan um þessa hrikalega miklu vinnu til þess að ég nyti hans.
Mynd: Saga Sig.

Keypti sér fyrsta stjörnusjónaukann

Fermingarveislan var haldin í veislusal í húsakynnum Fimleikafélagsins Bjarkar í Hafnarfirði og Sævar Helgi segir að sér hafi liðið ágætlega - miðað við aðstæður. „Ég var samt lítið gefinn fyrir athyglina,“ játar hann, „og mér þótti skrítið að ættingjum sem ég þekkti ekkert var boðið til veislunnar. Það voru svo sem engin skemmtiatriði eða neitt slíkt en ég man hvað ég var stressaður að tala fyrir framan gestina og bjóða þá velkomna og bjóða þeim að gjöra svo vel að þiggja veitingar. En það sem ég hafði gott af því!“

Spurður hvort hann muni hvaða gjafir hann fékk, segist Sævar Helgi hafa fengið fullt af bókum, þar á meðal stjörnufræðibækur sem hann óskaði sér. „Svo fékk ég reyndar líka Biblíuna en ég skipti henni í Mál og menningu á Laugavegi fyrir fleiri stjörnufræðibækur. Afgreiðslumanninum fannst mjög fyndið að ég skyldi skipta Biblíunni í vísindabækur. Og já svo fékk ég fullt af peningum og notaði þá til þess að kaupa mér minn fyrsta stjörnusjónauka,“ rifjar hann upp og brosir við tilhugsunina.

„Ég man því miður ekki nákvæmlega hvaðan þau komu,“ segir Sævar Helgi um fermingarfötin, „en mig langar að segja úr Sautján.“

Fær aldrei nógsamlega þakkað móður sinni

Sævar Helgi segist raunar muna merkilega margt frá deginum og dögunum í kringum ferminguna. Sumt sé greinilega vel greypt í minnið.

„Þetta var vel heppnaður dagur en það sem stóð upp úr var hvað mamma var fáránlega dugleg að halda utan um þessa hrikalega miklu vinnu til þess að ég nyti hans. Ég elska þig mamma.“

Kom honum eitthvað á óvart varðandi fermingardaginn?

„Já, hvað dagurinn var langur,“ svarar hann. „Mér fannst eins og athöfnin í kirkjunni ætlaði aldrei að enda. Ég er svo lítið fyrir svona hefðir, athafnir og veislur og gat ekki beðið eftir því að þetta mundi klárast svo ég gæti bara farið að lesa bækurnar mínar og leika mér í fótbolta með vinum mínum.“

Fermdist frekar hjá Siðmennt

Spurður hvort hann myndi gera eitthvað öðruvísi í dag hugsar Sævar Helgi sig um og segir að fengi hann að ráða hefði hann mat en ekki kökuboð í dag því hann sé mjög lítið fyrir kökur og sætmeti. „Líklega hefði ég líka kosið að fermast hjá Siðmennt, þar sem ég hef verið svo heppinn að fá að halda ræður fyrir fermingarbörn og séð það frábæra, uppbyggilega og áhugaverða starf sem þar er unnið. Ég er alveg viss um að fermingarfræðslan í kirkjunum sé líka prýðileg, hitt höfðar bara aðeins meira til mín.“

Síðan eru það fermingarfötin. Sævar Helgi er ekki í nokkrum vafa hvar hann myndi kaupa þau í dag.

„Ég færi í Herragarðinn og fengi mér einhver geggjuð dökkblá Hugo Boss jakkaföt. Síðan færi ég til klæðskera til að láta sníða þau að mér. Hvít skyrta og fallegt ullarbindi yrðu líka fyrir valinu og auðvitað klútur í brjóstvasann. Sokkarnir væru frá Paul Smith í Kúltúr og skórnir brúnir monk-strap sem eru glæsilegir.“

Hvetur fermingarbörn til að láta gott af sér leiða

Svona í lokin, á Sævar einhver ráð handa tilvonandi fermingarbörnum?

Hann kinkar kolli.

„Ég á þrjú ráð: Hættið aldrei að vera forvitin, setjið ykkur það markmið að láta gott af ykkur leiða og hugsið vel um elsku bestu plánetuna okkar. Hún þarf á því að halda. Svo er bara að njóta dagsins.“

Ef Sævar fengi að ráða fermingarfötunum í dag

Þá yrði Boss-jakkaföt og Paul Smith sokkar fyrir valinu.
Boss, Herrgarðurinn, 109.980 kr.
Paul Smith-sokkar, Kultur Menn Smáralind, 3.995 kr.
Ég færi í Herragarðinn og fengi mér einhver geggjuð dökkblá Hugo Boss-jakkaföt. Síðan færi ég til klæðskera til að láta sníða þau að mér. Hvít skyrta og fallegt ullarbindi og auðvitað klútur í brjóstvasann. Sokkarnir væru frá Paul Smith í Kúltúr og skórnir brúnir monk-strap sem eru glæsilegir.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu