Fara í efni

Staðirnir sem íslenskir leiðsögumenn eru að missa sig yfir

Lífsstíll - 21. júlí 2023

Það er ekki neinum blöðum um það að fletta að Ísland státar af ótrúlega mörgum fallegum stöðum um landið vítt og breytt, sumum alveg einstökum og hreint út sagt mögnuðum. En hvaða staðir eru lausir við mesta áganginn? Og er ef til vill betra að fara þangað á einhverju tilteknum tíma til að geta notið nátturufegurðarinnar í friði? HÉR ER leitar svara hjá nokkrum þaulreyndum leiðsögu­mönnum.

Ragnhildur Aðalsteindóttir, leiðsögumaður og ljósmyndari.

Einn stórfenglegasti staður landsins

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir, leiðsögumaður og ljósmyndari, segir Stórurð vera einn stórfenglegasta stað landsins en það verði að hafa fyrir því að komast þangað, því þangað liggi enginn vegur.

„Gönguleiðin er í heildina um 15 km löng og algengast er að ganga í Stórurð úr Vatnsskarði. Gangan er frekar þægileg og vel stikuð,“ segir hún og af lýsingum að dæma er heilmikil upplifun að koma þangað. Risastór björg, sum á stærð við fjölbýlishús, og hyldjúp grænblá lón einkenna svæðið að hennar sögn og í bakgrunni blasa Dyrfjöllin við.

„Björgin hafa fallið úr móbergs- og þursabergsbjörgum ofan á skálarjökul við Dyrfjöll og björgin borist með jöklinum neðar í dalinn. Stórurð hefur mótast á síðasta ísaldarskeiði og þegar jökullinn hopaði hafa björgin orðið eftir í dalbotninum. Sjón er sögu ríkari,“ segir Ragnhildur og brosir.

Á vappi í Grímsey.

Sjarmerandi þorp og stórkostlegar stuðlabergsmyndanir

Næst nefnir Ragnhildur Grímsey, sem gagnstætt Stórurð sé frekar einfalt að heimsækja. „Það þarf bara að athuga hvort gisting er laus á einu af gistiheimilum eyjunnar, panta far með Sæfara og keyra til Dalvíkur. Siglingin tekur þrjár klukkustundir. Í höfninni taka bátarnir á móti manni og glöggt má sjá að hér er um fiskiþorp að ræða.“

Að sögn Ragnhildar er þorpið sjarmerandi og fuglalífið alltumlykjandi. „Gistiheimilið Gullsól er alveg við höfnina og á neðstu hæðinni er lítið kaffihús og minjagripaverslun. Þar rétt fyrir ofan er veitingastaðurinn Krían og þar við hliðina verslunin og bensínstöðin,“ bendir hún á og bætir við að innisundlaug sé einnig í eynni.

Stórurð er einn stórfenglegasti staður landsins að mati Ragnhildar.

„Fuglabjörgin eru stórfengleg og þarna er að finna stórkostlegar stuðlabergsmyndanir.“

 

Ragnhildur segir fimm gönguleiðir vera í eynni. Bláa leiðin svokallaða liggi yfir heimskautsbauginn og til baka í þorpið, rauða leiðin sé norður helmingur eyjarinnar, græna leiðin sé suðurhluti Grímseyjar, gula leiðin sé miðeyjan. Síðan sé hægt að fara allan hringinn. Náttúrufegurðin sé mikil og fuglalífið fjölskrúð­ugt.

„Yfir sumartímann er lundinn nánast hvert sem litið er og einnig má sjá langvíur, álkur, teistur og kríur, auk ýmissa mávategunda,“ lýsir hún. „Fuglabjörgin eru stórfengleg og þarna er að finna stórkostlegar stuðlabergsmyndanir.“

Nauthúsagil er skemmtilegt að heimsækja og upplifa með allri fjölskyldunni segir Ragnhildur.

Fallegur áfangastaður fyrir alla fjölskylduna

Síðasti staðurinn sem Ragnhildur nefnir til sögunnar er Nauthúsagil, skammt frá Seljalandsfossi við vegslóðann að Þórsmörk. Hún segir það vera tilvalinn áfangastað fyrir fjölskylduna. „Eftir að bílnum hefur verið lagt er gangan að gilinu og í gilinu sjálfu ekki löng. Nánast er gengið í árbotninum en stikla má á steinum þegar gengið er af stað. Þá tekur ævintýralegt umhverfi við, þröngt gilið, dálítil dimma, mikill gróður, aðallega birki, og rennandi áin.“

Hún segir smá klöngur að komst inn í botn en hægt sé að styðja sig við kaðal og höldur á erfiðustu köflunum. Innst í gilinu sé síðan fallegur foss. „Virkilega fallegur staður sem auðvelt er að heimsækja, ekki síst með börn.“

Bomber með útivistarívafi, 66°Norður, 62.000 kr.
Merino ullarbolur, Icewear, 11.990 kr.
Bestu útivistarbuxur sem við höfum kynnst, einangraðar með íslensku ullinni. Icewear, 22.990 kr.
Timberland gönguskór á helmingsafslætti, 14.994 kr.
North Face-regnjakki, Útilíf, 32.990 kr.
Icewear, 13.990 kr.
North Face-bakpoki, Útilíf, 14.990 kr.
Húfa frá Icewear, 2.290 kr.
Gönguskór frá North Face á útsölu, Útilíf, 12.495 kr.
Gönguskór frá North Face, Útilíf, 34.990 kr.
Jakki úr samstarfslínu Ganni og 66°Norður, 79.000 kr.
Teitur Þorkelsson veit hvað hann syngur enda starfað sem leiðsögumaður í mörg ár.

Af nógu að taka

„Enginn heilvita leiðsögumaður í betri klassanum gefur upp leynistaði og djásnin sín, nema til fjölskyldu, vina og borgandi viðskiptavina,“ segir Teitur Þorkelsson spurður hvort hann sé reiðubúinn að nefna best földu náttúruperlur landsins.

Teitur, sem er reyndur leiðsögumaður og hefur ferðast um allt landið, bendir á að þar fyrir utan sé erfitt og óskynsamlegt að fara að leiðbeina fólki að einhverjum ómerktum slóða að ónefndum stöðum „sem finnast ekki á Google maps eða gjörvöllu internetinu“. Hann vísi ekki á slíka staði nema vera sjálfur með í för. Hins vegar sé hann meira en reiðubúinn að nefna nokkrar ómótstæðilegar perlur enda af nógu að taka.

„Hálendið gjörvallt, Fjallabak syðra og hluti af nyrðra, Langisjór og Lakagígar,“ telur hann upp. „Svo er Þórsmörk alltaf frábær. Ef fólk nýtur þess að ganga í nokkrar klukkustundir er mest af þessu galtómt af fólki.“

Teitur nefnir líka Vestfirði í þessu samhengi, Strandir og Hornstrandir, en tekur fram að á Hornströndum þurfi að ganga mikið. „Og veðrið getur verið með eða á móti manni,“ bendir hann á. Öræfin séu stórkost­leg og þó mikið af fólki sé stundum í Skaftafelli eða við Jökulsárlón stoppi flestir stutt og „víðáttan gleypir það“.

Teitur bendir líka á Glym sem sé í þægilegri fjalægð frá borginni. Þar sé hægt að skella sér í böðin og sjósund í Hvammsvík á eftir.

Hálendið gjörvallt, Fjallabak syðra og hluti af nyrðra, Langisjór og Lakagígar. Svo er Þórsmörk alltaf frábær. Ef fólk nýtur þess að ganga í nokkrar klukkustundir er mest af þessu galtómt af fólki.

 

„Svo á fólk að vera nógu djarft til að kaupa sér gistingu á einstökum stöðum,“ segir hann, eins og á Skálakoti, Búðum, Egilsen, Sigló, Fosshótel Fáskrúðsfirði og Fjalladýrð á Möðrudal á Fjöllum, „svo fáeinir staðir séu nefndir“.

„Vilji fólk sjá tuttugu „frægustu“ og mest sóttu póstkortaáfangastaði Íslands sem eru með veitinga­sölu, klósettum og rútustæðum í júlí og ágúst þá sé yfirleitt gott að fara utan 10-18 tímans, þar er best í sumarnóttinni,“ lýsir Teitur.

Hannes Páll Pálsson, einn eigenda ferðaþjónustu- og viðburðafyrirtækisins Pink Iceland.

„Einn í heiminum“ stemning á Vestfjörðum

„Vestfirðir eins og þeir leggja sig eru frábærir að sækja heim,“ segir Hannes Páll Pálsson, einn eigenda hjá ferðaþjónustu- og viðburðafyrirtækinu Pink Iceland. „Það er ennþá auðvelt að upplifa sig eins og einan í heiminum á þessum slóðum. Landslagið er stórkostlegt og það er auðveldlega hægt að dunda sér þar í viku því það er svo mikið að sjá.“

Dynjandi, Rauðasandur, Önundarfjörður, Þingeyri og Flateyri eru þeir staðir sem Hannes heldur einna mest upp á á Vestfjörðum að ógleymdum Látrabjörgum.

„Þetta er staður sem þarf að upplifa,“ segir hann með áherslu. „Á lundatímanum er þarna fullt af lundum, sem eru ótrúlega gæfir og vappandi þarna úti um allt, en vegna þeirra er þetta stærsta fuglabjarg í Evrópu og tilkomumikið eftir því. Stórkostlegt bjarg eitt og sér hvort sem fuglarnir væru þarna eða ekki.“

Látrabjörg eru í miklu uppáhaldi hjá Hannesi Páli Pálssyni, einum eigenda ferðaþjónustu- og viðburðafyrirtækisins Pink Iceland.

Landslagið er stórkostlegt og það er auðveldlega hægt að dunda sér þar í viku því það er svo mikið að sjá.

 

Hannes segir að kaffi og kanilsnúðar á Kaffi Sól séu sömuleiðis „algert möst“. „Ef fólk finnur sig á annað borð í Önundarfirðinum og nágrenni er skylda að heimsækja Kaffi Sól í kaffi, fá sér súpu og bestu kanilsnúðana!“

Síðan sé alltaf yndislegt að heimsækja pottana í Drangsnesi.

Steingerður Steinarsdóttir, leiðsögumaður og verkefna- og ritstjóri Samhjálpar.

Algjör kyrrð og stundum einvera

„Ég á ótal marga uppáhaldsstaði allt í kringum landið og þeir eiga það sameiginlegt að þar er hægt að upplifa algjöra kyrrð og stundum einveru,“ segir Steingerður Steinarsdóttir, leiðsögumaður og verkefna- og ritstjóri Samhjálpar. „Þótt ferðamannastraumurinn hafi aukist mikið er enn hægt að fara á ýmsa staði á Reykjanesinu, ganga og setjast í hraunbolla og finnast maður alveg einn í heiminum. Þar má nefna Lambafellsgjá, gönguleiðina upp í Grindaskörð, notalegu Búrfellsgjána og Valaból. Vissulega eru þarna oft aðrir á ferli en enn koma stundir þegar göngumaður á þessa staði einn.“

Steingerður bendir á að í Mosfellsdalnum, hér rétt við bæjardyrnar sé líka að finna tvo mjög fallega fossa, Tröllafoss og Helgufoss. Það sé ekki löng eða erfið ganga að þeim þótt gönguleiðin að Tröllafossi sé svolítið ævintýraleg og á einum stað þurfi að vaða ána. 

„Þingvellir eru í mínum huga, líkt og ótalmargra annarra Íslendinga helgur staður,“ segir Steingerður og bætir við að þar sé að finna ýmsa áhugaverða staði.

Ótrúleg upplifun

„Þingvellir eru í mínum huga, líkt og ótalmargra annarra Íslendinga helgur staður,“ heldur Steingerður áfram. „Ég verð samt að viðurkenna að mér finnst mannvirki hafa spillt staðnum og hann allur annar en hann var þegar ég var barn. Ég skil samt þörfina fyrir göngustíga, brýr og annað sem beinir fólki í einn farveg en óneitanlega tekur það aðeins frá náttúruupplifuninni. Þess vegna finnst mér nú orðið skemmtilegast að ganga inn í Skógarkot og Ölkofradal þegar ég fer austur á Þingvelli. Það er líka ótrúleg upplifun að ganga gjárnar og þótt Snóka sé fremur örðug yfirferðar á kafla er hún einstaklega falleg.

Við gleymum líka oft að huga að hinu smáa. Í Snóku hafa fundist 75 tegundir íslenskra blómplatna og það er ótrúleg fjölbreytni á svo litlum stað. Það er óskaplega lærdómsríkt að huga að burnirótinni þar sem hún vex, að því er virðist, nánast beint út úr berum klettaveggnum, dást að geithvönninni og tína sér Ólafssúru að japla á.“ 

Fossinn Helgufoss, sem er að finna í Mosfellsdalnum.

Veldur vísindamönnum heilabrotum

Steingerður segist líka verða að nefna Vopnafjörð því þar var hún alin upp að hluta og á ættir að rekja þangað. „Þessi víði fallegi fjörður geymir ótal náttúruperlur og enn sneiðir meginþorri ferðamanna framhjá honum. Þar er að finna magnaðar klettamyndanir til dæmis í Fuglabjarganesi og Skjólfjörum. Gljúfursárfoss er á leiðinni í Skjólfjörur og er bæði hár og tignarlegur. Í Þuríðargili í Burstarfelli fannst fyrir rúmum fjörutíu árum steingervingur, beinagrind af litlu hjartardýri, en hann hefur valdið vísindamönnum heilabrotum æ síðan,“ segir hún.

Ef ferðafólk langar að fara eitthvert þar sem umferð er minni og þeir geta upplifað íslenska náttúru, einveru og kyrrð er þetta kjörinn staður.

 

„Ég gæti talið upp ótal fleiri fallega staði þarna en mér er alltaf kært fjallið fyrir ofan Refstað þar sem afi og amma bjuggu og ég lék mér sem barn. Klettarnir fyrir neðan Vindfell þar sem Rúna frænka bjó eru mér líka í barnsminni en það kitlaði ekki síst hversu hættulegir þeir voru. Þar er að finna glæsilegar stuðlabergsmyndanir. Og þegar maður ferðast um Vopnafjörð er ekki úr vegi að hafa augun opin fyrir nokkrum af einkennisjurtum Austurlands, meðal annars sjöstjörnu og lyngbúa.“

Hún bætir við að Vopnafjörður sé líka ríkur af alls konar þjóðsögum og sögnum og þar séu ótal fallegar gönguleiðir. „Ef ferðafólk langar að fara eitthvert þar sem umferð er minni og þeir geta upplifað íslenska náttúru, einveru og kyrrð er þetta kjörinn staður.“

Gréta S. Guðjónsdóttir leiðsögumaður og ljósmyndari grípur gjarnan í prjónana þegar hún er á faraldsfæti.

Eins og í ævintýri

„Gönguleiðin frá Núpstaðaskógi í Skaftafell er klárlega einn af skemmtilegri stöðum á landinu og ástæðan er einfaldlega sú að undir Færneseggjum er flottasta tjaldsvæði sem ég hef farið á,“ segir Gréta Guðjónsdóttir, leiðsögu­maður og ljósmyndari, þegar hún er beðin um að nefna uppáhaldsstaðina sína á landinu. „Þú ert þarna með flott klettafjöll öðrum megin og svo leggstu í mosann og horfir yfir á Skeiðarárjökull, en það er bratt niður á hann þannig að þetta er eins og að vera á syllu,“ lýsir hún. Tjaldsvæðið sé magnað, eiginlega hálf draumkennt og hægt að upplifa ótrúlega fallegt sólarlag. „Í stuttu máli er þetta eins og að vera staddur í ævintýri.“

Gönguleiðin frá Núpstaðaskógi í Skaftafell er klárlega einn af skemmtilegri stöðum á landinu.

 

Gréta segir að leiðina þurfi að ganga yfir sumartímann og eins verði fólk að vera í góðu formi. „Svo ferðu ekki yfir jökulinn án leiðsögumanns,“ segir hún með áherslu. „Það þarf vana manneskju sem ratar yfir sprungurnar.“

Í heimi náttúrunnar

Það er auðheyrt að fjöll eiga hug Grétu allan og hún nefnir fleiri til sögunnar. „Ég verð að benda á Bjólfell við Næfurholt við rætur Heklu af tilfinningalegri ástæðu því þetta er fyrsta fjallið sem ég gekk á, þá ekki nema tíu ára. Þetta er hryggur og síðan ertu komin hinum megin yfir í hálendið og ég man að mér fannst ég upplifa hálfgert tímaleysi þegar komið var niður hina hliðina í þetta einskismannsland. Engin mannvirki. Engir slóðar eða neitt. Engin sjáanleg ummerki um manninn. Bara heimur náttúrunn­ar.

Tjaldað undir Færneseggjum. Mynd / Gréta S. Guðjónsdóttir

Það má segja að það hafi verið þarna sem maður fékk fjallabakteríuna og enn í dag sækist ég eftir þessari upplifun þegar ég fer ein í ferðir.“

Að sögn Grétu er yfirleitt hægt að ganga á Bjólfell allt árið um kring, en það fari þó eftir snjólög­um.

„Svo er það með þetta eins og aðrar fjallgöngur að maður verður að vera í góðum skóbúnaði, meðal annars til að hrasa ekki,“ segir hún og bætir við að öllum í göngum þurfi síðan alltaf að vera með aukanesti komi eitthvað upp á og eitthvað hlýtt til að fara í ef eitthvað bregði út af.

„Hvað Bjólfelli viðvíkur er það nálægt bæjunum Næfurholti og Hólum þannig að það er ekki langt að fara eftir hjálp.“

Útsýnið af Einhyrning. Mynd / Gréta S. Guðjónsdóttir

Endalausir möguleikar

Gréta bendir líka á Einhyrning, Þríhyrning og veginn fyrir ofan Seljalandsfoss. „Þetta er rétt hjá túrista­straumnum en þarna er maður einn, sem er eins og ég segi nokkuð sem ég sækist svolítið í eftir þessa mögnuðu upplifun mína á Bjólfelli þegar ég var tíu ára; að geta upplifað ósnortna náttúru Íslands. Maður keyrir bara klukkutíma frá Hvolsvelli að Einhyrningi og er með flott útsýni yfir Emstrur og Þórsmörk.“

Ég man að mér fannst ég upplifa hálfgert tímaleysi þegar komið var niður hina hliðina í þetta einskismannsland.

 

Svo sé hægt að fara Laugaveginn.

„Því þótt allir séu að fara hann og það sé troðið þá er hægt að fara aðeins út fyrir hann og þá er maður skyndilega orðinn einn,“ segir hún. „Sem sýnir hvað náttúran okkar býður upp á endalausa möguleika.“

Hálendið í allri sinni dýrð.
Myndir / Gréta S. Guðjónsdóttir

Stórkostleg upplifun

Uppáhalds fjallstoppur Grétu er svo Sveinstindur (sjá mynd efst í grein). „Þar er útsýni yfir Lagagíga og Langavatn og þegar það er fallegt sér maður yfir allt. Aftur upplifir maður það að vera svolítið einn. Þar nálægt er Eldgjá en þegar komið er að barminum horfir maður niður í mjög stóra gjá. Stórkostlega upplifun og ekki þetta kraðak af fólki.“

Gréta bendir á að ekki sé hægt að fara leiðina nema frá júní og fram í september. Á öðrum tíma séu vegir lokaðir.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu