Fara í efni

Svefninn grunnur að allri heilsu

Lífsstíll - 22. maí 2023

Það er enginn óhultur fyrir svefnvanda og birtingarmyndir hans geta verið ansi ólíkar, allt frá svefnleysi til sérkennilegrar hegðunar í svefni, kæfisvefns og martraða. „Það sem kemur fólki hins vegar oft á óvart er að það er í flestum tilvikum hægt að meðhöndla vandmálin á árangursríkan máta,“ segir Erla Björnsdóttir sálfræðingur sem hefur sérhæft sig í hugrænni atferlismeðferð við svefnleysi (HAMS) og sinnt slíkri meðferð um árabil. Í samtali við HÉR ER ræðir Erla helstu orsakir svefnvandamála og bendir á gagnlegar aðferðir til að vinna bug á þeim.

Mynd: Saga Sig.
Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og framkvæmdastjóri Betri svefns og doktor í líf og læknavísindum.
Ef við sofum ekki vel aukum við hættu á ýmsum sjúkdómum, drögum úr framleiðni okkar, blæum ónæmiskerfið og höfum neikvæð áhrif á líðan og lífsgæði. Svefninn hefur þannig áhrif á flest allt sem við tökum okkur fyrir hendur. Við erum einfaldlega heilsuhraustari ef við sofum vel og okkur líður betur.

„Já, það eru vísbendingar um að vandamál séu að aukast, sérstaklega hjá ákveðnum hópnum, til dæmis yngra fólki þar sem aukin notkun orkudrykkja og skjámiðla spila meðal annars inn í. Auk þess eru vísbendingar um aukna vanlíðan hjá ungu fólki og það hefur auðvitað áhrif á svefninn,“ segir Erla, þegar hún er spurð hvort svefnvandamál séu að aukast með hliðsjón af umræðunni.

Hún bendir á að á sama tíma sé að eiga sér stað vitundarvakningu um mikilvægi svefns.

„Það er mikil umræða um svefn og svefnvandamál í samfélaginu og fólk er meðvitaðara um að hægt sé að leita sér aðstoðar við slíkum vanda. Þröskuldurinn fyrir því að leita sér aðstoðar er því lægri. Þannig að í raun má segja að þetta sé sambland af hvoru tveggja, að einhverju leyti er aukning í svefnvanda hjá vissum hópum en þessi vitundarvakning sem er að eiga sér stað veldur því líka að fleiri leita sér aðstoðar.“

Fólk ætti að forðast orkudrykki, skjámiðla og óreglu, óhollt mataræði, mikinn sykur á kvöldin, áfengi, koffín, nikótín og mikla streitu.

Svefnleysi algengasti vandinn sem Erla sinnir

Spurð hver séu algengustu svefnvandmál meðal fullorðins fólks og barna og ungmenna segir Erla að það sé auðvitað misjafnt eftir hópum. „En yfirleitt á fólk í erfiðleikum með að sofna, það vaknar upp á nóttunni og / eða fær ekki endurnærandi svefn, sem helgast til dæmis af lífsstíl, óreglulegum svefni og fleiru.“

Með hvers konar vandamál leitar fólk til þín?

„Svefnleysi fyrst og fremst, sem helgast kannski af því að fólk á erfitt með að sofna eða sefur illa, eins og ég segi. En til mín leitar líka fólk sem glímir við annarskonar svefnvanda, til dæmis endurteknar martraðir eða sýnir sérkennilega hegðun í svefni.“

Sérkennilega hegðun?

„Já, og þegar ég segi sérkennilega hegðun á ég við þegar fólk talar upp úr svefni, gengur í svefni eða glímir við næturtrylling svo dæmi séu tekin. Ég fæ allt inn á mitt borð, en svefnleysi er algengasta vandamálið.“

Spurð hvort dæmi sé um að til hennar leiti fólk sem þjáist af svefnrofalömum (sleep paralysis) jánkar Erla því.

„Já, ég fæ reglulega til mín fólk sem glímir við þann vanda. Í slíkum tilvikum er mikilvægt að fara vel yfir rútínu og líffstíl viðkomandi því þessi vandi eykst þegar svefn er óreglulegur eða af skornum skammti og lífsstílstengidr þættir geta líka aukið á þennan vanda.“

Til Erlu leitar fólk með alls kyns svefnvanda, meðal annars fólk sem þjáist af svefnrofalömum (sleep paralysis) en henni hefur verið lýst á þann veg á sá sem glími við hana upplifi að hann geti sig hvergi hreyft rétt áður en hann festir svefn eða skömmu eftir að hann vaknar.

Streita og óreglulegt svefnmynstur algengar orsakir

Ef við förum aðeins aftur út í orsakir, hverjar eru þá helstu ástæður fyrir því að fólk glímir svefnvandamál?

„Streita, óreglulegt svefnmynstur og óheilbrigður lífsstíll, tengdur til dæmis áfengi, nikótíni, hreyfingu og mataræði. Þetta eru allt þættir sem trufla svefn. Síðan getur þetta tengst andlegri og líkamlegri heilsu og breytingum sem fólk er að ganga í gegnum í lífinu.“

Hvers konar breytingar?

„Dæmi um þetta getur verið nýtt starf, barneignir, skilnaður, flutningar og svo framvegis og oft fylgir streita stórum breytingum.“

Allir geti einhvern tímann upplifað svefnvanda

Spurð hvort eitthvað hafi komið henni á óvart í starfi í gegnum tíðina hugsar Erla sig um og segir að raun hafi fátt komið á óvart, þannig séð, nema þá helst af hversu fjölbreyttum toga svefnvandi geti verið. Reynslan hafi kennti henni að enginn sé óhultur fyrir svefnvanda og að birtingarmyndir hans geti verið ansi ólíkar.

„Það sem kemur skjólstæðingum hins vegar oft á óvart er að það er hægt að laga vandmálin,“ segir hún. „Það kostar þó oftast vinnu og stundum mikla vinnu og ef fólk er tilbúið að leggja út í hana þá er yfirleitt hægt að ná árangri og laga svefninn.“

En af hverju skiptir svefn og þá góður svefn okkur svona miklu máli?

„Af því svefn er algjör grunnur fyrir alla okkar heilsu og lífsgæði,“ svarar Erla. „Ef við sofum ekki vel aukum við hættu á ýmsum sjúkdómum, drögum úr framleiðni okkar, blæum ónæmiskerfið og höfum neikvæð áhrif á líðan og lífsgæði. Svefninn hefur þannig áhrif á flest allt sem við tökum okkur fyrir hendur. Við erum einfaldlega heilsuhraustari ef við sofum vel og okkur líður betur.“

Skaðleg áhrif viðvarandi svefnleysis

Talið beinst þá að svefnþörf fólks en Erla segir hana vera mjög einstaklingsbundna.

„Það er auðvitað einstaklingsbundið og fer líka eftir aldri,“ bendir hún á. „Börn og unglingar þurfa meiri svefn en fullorðnir, sem dæmi, og fullorðnir þurfa að meðaltali sjö til níu tíma svefn.“

En hvaða áhrif getur svefnleysi haft til skemmri og lengri tíma?

„Eins og ég nefndi þá hefur svefnleysi áhrif á orku, einbeitingu, afköst og til lengri tíma eykur svefnleysi líkur á sjúkdómum og getur stytt líf okkar ef ástandið er viðvarandi.“

En óreglulegar svefnvenjur?

„Þær eru einn stærsti áhættuþátturinn fyrir svefnleysi. Þær ýta hreinlega undir svefnleysi.“

Lausnir sem geta komið að góðum notum

Hver eru helstu ráðin við svefnvandmálum?

„Til að byrja með er að gott að skoða reglu og rútínu og lífsstílinn og hvort hægt sé að gera breytingar þar til að ná betri svefn. Gangi það ekki þá er hægt að skoða hugræna atferlismerðferð, þar sem fólk fær aðstoð sérfræðings til brjóta upp svefnmynstrið og takast á við vandann.“

Hvað er gert í meðferðinni?

„Í henni er svefnmynstur fólks kortlagt mjög nákvæmlega; fólk heldur skráningu yfir svefninn sinn og lífsstílstengda þætti sem hafa áhrif á svefn. Meðferðin er einstaklingsmiðuð en unnið er með alla þætti sem hafa áhrif á svefn, svo sem rútínu, svefnumhverfi, streitu, lífsstíl og fleira. Í þessari meðferð er unnið að rót vandans og fólk fær í hendur verkfæri til að takast á við vandann og bregðast við bakslögum. Þetta er lang árangursríkasta leiðin við svefnleysi og rannsóknir sýna langvarandi árangur.“

En hvað ætti fólk helst að forðast til koma í veg fyrir svefnvanda?

„Orkudrykki, skjámiðla og óreglu. Óhollt mataræði, mikinn sykur á kvöldin, áfengi, koffín, mikla streitu, nikótín. Nikótín er til dæmis örvandi og gefur haft áhrif á djúpsvefninn og dregið úr gæðum svefns. Sama má segja um sykur. Ef óregla er á blóðsykri þá verður svefninn verri. Áfengi hefur sömuleiðis neikvæð áhrif á svefn. Við sofnum kannski fyrr af völdum þess, en gæði svefnsins minnka hins vegar töluvert.“

Er hægt að veita öllum sem glíma við svefnvandamál viðeigandi hjálp?

„Já, það er hægt að gera það. En auðvitað er mismunandi á hverju fólk þarf að halda til að ráða bug á vandanum en yfirleitt eru lausnir í boði fyrir langflesta.“

Svefn eftir Erlu Björnsdóttur, Penninn Eymundsson, 4.499 kr.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu