Fara í efni

Það leynist fjársjóður í hverjum bás

Lífsstíll - 24. janúar 2022

Undanfarin ár hefur orðið almenn vakning um mikilvægi endurnýtingar á fatnaði og fylgihlutum. Brynja Dan Gunnarsdóttir er einn eigandi Extraloppunnar í Smáralind, verslunar sem gefur því sem er gamalt fyrir þér nýtt líf hjá einhverjum öðrum.

Mynd af Brynju Dan: Aldís Pálsdóttir.
„Extraloppan er lítið grænt fyrirtæki hér í Smáralindinni sem stofnað var með endurnýtingu og minni neyslu í huga,“ segir Brynja, en tvö og hálft ár eru síðan verslunin opnaði og hefur hún gengið vel, þrátt fyrir heimsfaraldur.

„Auðlindir heimsins eru ekki ótakmarkaðar og þurfum við að fara að hugsa betur um jörðina. Sem betur fer er meðvitund okkar að aukast um þá hringrás sem verður að skapast. Vissulega er einstaklingsframtakið bara dropi í hafið, en margt smátt gerir eitt stórt og því mikilvægt að hvert og eitt okkar leggi sitt af mörkum,“ segir Brynja, sem sérstaklega vill hrósa yngri kynslóðinni sem hún segir fyrirmynd í því að velja vistvænni kosti.

„Unga fólkið okkar er svo flott og vel þenkjandi og ég sé að þau versla sífellt meira notað. Unglingar í dag eru líka að pæla í hlutum sem ég var í það minnsta ekki að hugsa um þegar ég var á þeim aldri, þau eru virkilega meðvituð um endurvinnslu og endurnýtingu og mikilvægi þess fyrir umhverfið. Við hin höfum sem betur fer verið að stíga á vagninn, eitt af öðru,“ segir Brynja.

Extraloppan vegur upp á móti útblæstri þúsunda bíla árlega

Þau eru ófá kolvetnissporin sem sparast hafa með tilkomu Extraloppunnar og Brynja segir ánægjulegt að sjá árangurinn í mælanlegum tölum. „Frá opnun Extraloppunnar árið 2019 hafa selst yfir 400.000 vörur. Ef við reiknum þetta til dagsins í dag þá gera það um 12-15.000 tonn sem jafnast á við sparnað af útblæstri 6-7.000 bíla árlega, sem er góður slatti! Á heimsvísu er áætlað að textílneysla hvers jarðarbúa sé um 11 kg og að textíliðnaðurinn valdi um 8% gróðurhúsaáhrifa á jörðinni. Til dæmis fara um 6-8 þúsund lítrar af vatni við framleiðslu á einum gallabuxum. Endurnýting og endurvinnsla eru þær aðgerðir sem draga hve mest úr þessum áhrifum. Þessi lífsstíll fækkar því kolefnissporunum, minnkar neyslu á nýjum vörum og skilar hagstæðara verði til neytenda, en við erum að fá inn stráheilar vörur sem öðlast nýtt líf fyrir kannski 50% af upphaflegri verðlagningu, eða jafnvel enn lægra verði,“ segir Brynja.

Leðurkápur hafa verið áberandi í tískunni undanfarin misseri. Brynja fann eina slíka úr mjúku hanskaleðri á 7.000 krónur í Exraloppunni í Smáralind.

Frá götutískunni í París.
Parísartískan.
Falleg leðurkápa á tískudívu í London.
Lundúnartískan.
Leðurkápur eru líka vinsælar í Mílanó.
Mynd: Aldís Pálsdóttir.
Ég tel að við eigum bara eftir að stækka og að þessi lífsstíll verði frekar normið heldur en hitt. Að verslunarkjarnar verði blandaðri en þeir eru og við getum keypt allskonar notaðan varning þar, hvort sem það er fatnaður, húsgögn, tæki eða tól.

Getur leyft sér meira með því að velja notað

Vöruúrvalið í Extraloppunni er mikið og daglega bætast við nýjar vörur. „Ég mæli svo mikið með því að byrja leitina í Extraloppunni og sambærilegum verslunum, ef þú finnur ekki það sem leitað er að þar, er hægt að fara annað,“ segir Brynja, sem sjálf segist líklega versla 80% af sínum fatnaði í Extraloppunni. „Það leynist fjársjóður í hverjum bás, án gríns! Til okkar rata öll helstu merkin, stór sem smá, svo sem LV, Prada, Gucci, Dior, Stone Island, Cintamani, 66, Stussy, Vans, Nike, Jordan, Adidas, Carhartt, og bara allt hitt. Tíska er mitt áhugamál og með því að kaupa notað get ég leyft mér meira og svo sel ég það bara aftur. Við eigum svo mikið af fötum og hlutum sem við erum ekki að nota, af hverju ekki að selja það fyrir smá aur og gefa þeim nýtt líf? Ég hef horft á flík frá mér koma þrisvar til fjórum sinnum inn í búðina, það er svo dásamlegt, allir græða.“

Brynja velur ekki einungis notað fyrir sjálfa sig, heldur einnig 13 ára son sinn. „Ég keypti föt á hann í Extraloppunni fyrir skólann í haust, öll þessi þekktu merki á borð við Vans og Stussy. Ég reiknaði muninn og borgaði 17.000 kr í stað þess að þetta hefði kostað 65.000 krónur nýtt,“ segir Brynja sem horfir björtum augum til framtíðar. „Ég tel að við eigum bara eftir að stækka og að þessi lífsstíll verði frekar normið heldur en hitt. Að verslunarkjarnar verði blandaðri en þeir eru og við getum keypt allskonar notaðan varning þar, hvort sem það er fatnaður, húsgögn, tæki eða tól.“

„Fólk er duglegt að skapa sinn eigin stíl"

Brynja segir lífsstílinn ekki einungis umhverfisvænan og hagstæðan, hann auki einnig fjölbreytileika götutískunnar. „Það skemmtilega við tískuna í dag er einmitt að allir þurfa ekki að vera eins, fólk er duglegt að skapa sinn eigin stíl og þá er einmitt tilvalið að finna gull og gersemar í Extraloppunni. Auðvitað er það alltaf þannig að ákveðnir hlutir koma í tísku og fólk telur kannski að erfitt sé að finna eitthvað sem passar í „second hand verslunum“, en það er síður en svo. Tískan fer í hringi og því má 100% finna eitthvað sem aftur er orðið vinsælt í dag og er mögulega búið að fara einn eða fleiri hringi í keðjunni. Það eru einmitt slíkir molar sem ég elska mest. 

Sú geggjaða tilfinning að hrasa um einhvern fágætan gullmola á betra verði en þig hefði órað fyrir. Mér þykir afar vænt um slíkar flíkur, til dæmis fann ég síða leðurkápu úr mjúku og fallegu hanskaleðri á 7000 krónur í Extraloppunni.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu