Tískuheimurinn, með tískubiblíuna Vogue fremsta í flokki, hefur hingað til ekki verið þekkt fyrir að fagna fjölbreytileikanum. Hvítar og horaðar fyrirsætur-og seinna leikkonur eru það sem við höfum mátt venjast á forsíðum tímaritsins síðan það var stofnað fyrir rúmri öld.
Í því ljósi hefur verið einkar ánægjulegt að fylgjast með þeim miklu breytingum sem ritstjóri breska Vogue, Edward Enninful hefur staðið að síðan hann tók við keflinu fyrir þremur árum. Fyrsta konan til þess að prýða forsíðuna undir hans stjórn var engin önnur en feminíski aktivistinn og fyrirsæta af blönduðum uppruna, Adwoa Aboah. Með þeirri ákvörðun gaf hann til kynna það sem koma skal-hann mun ekki veigra sér við að taka pólitíska afstöðu.

Adwoa hefur verið ein vinsælasta fyrirsætan síðustu misserin en hún er einnig stofnandi samtakanna Gurls Talk, sem hvetja ungar konur til þess að tala opinskátt um málefni sem brenna á þeim, hvort sem það er andleg heilsa, líkamsímynd, fíkn eða kynvitund.
Stærstu fyrirsagnir nýja ritstjórans minnast ekki eingöngu á trendin, vinsælustu töskurnar eða nýja maskara heldur listar upp nöfn þeirra sem eru hvað stærstir á sviði pólitíkur og lista og eru einnig af mjög ólíkum uppruna og á breiðu aldursbili í öllum litum og stærðum en þeldökkar konur eru loksins sýnilegar á forsíðu og síðum tímaritsins.


Ritstjóri breska Vogue er staðráðinn í því að sýna konur af fjölbreyttum uppruna, með mismunandi vaxtarlag og bakgrunn. Edward er fyrsti svarti og jafnframt fyrsti karlkyns ritstjóri tímaritsins í rúmlega 100 ára sögu þess og segist vilja að Vogue verði eins og búð sem konur hræðast ekki að ganga inn í.

„Áður en ég fékk starfið talaði ég við margar konur sem fannst þær ekki geta samsamað við þær sem voru hvað mest á síðum tímaritsins. Þess vegna langaði mig til þess að hafa blaðið opið og vinalegt. Þið munum sjá allar stærðir og gerðir, aldur, kyn og ólík trúarbrögð sýnileg í blaðinu, ég er mjög spenntur fyrir því. Og mun minna af fyrirsætum sem eru með óheilbrigt útlit,” lét hinn nýi ritstjóri hafa eftir sér. Edward bætti því við að hann myndi berjast gegn „stærð núll“-kúltúrnum í tískuheiminum með því að sýna konur með allskonar vaxtarlag og ræða opinskátt við hönnuði um þessi mál.“

Þær konur sem stóðu vaktina á tímum Covid-heimsfaraldurs í mikilvægum störfum á borð við ljósmæður, hjúkrunarfræðinga, verslunarfólk og lestarstjóra prýddu forsíður tímaritsins í júlímánuði.

Þegar ég byrjaði í bransanum á tíunda áratugnum þá voru prufustærðirnar númer 4 og 6. Í dag eru prufustærðirnar tvöfalt núll. Mér finnst að tískubransinn eins og hann leggur sig verði að taka þátt í samræðum um þessi mál.