Fara í efni

Áfangastaðirnir sem Íslendinga dreymir um

Lífsstíll - 30. maí 2023

Lægðir, hvassviðri, skúrir, haglél og reglulegar gular viðvaranir víða um landið. Nei, það er ekki beint hægt að segja að veðrið leiki við landsmenn þessa dagana og lítið útlit fyrir að það breytist í bráð, ef marka má veðurspána. Því er kannski vel skiljanlegt að marga dreymi um að komast eitthvert annað þar til bregður til betri veðráttu. En hvaða áfangastaði dreymir fólk um að heimsækja og hvaða stöðum mælir fólk með? HÉR ER leitaði svara hjá nokkrum ferðaglöðum Íslendingum og sönnum heimsborgurum sem viðurkenna að þeir gætu nú alveg hugsað sér smá tilbreytingu – og ótrúlegt en satt þá er Tenerife ekki efst á óskalistanum.

Heilsu- og sjálfsræktarferð

Greta Salóme tónlistarkona.

Drauma-áfangastaður?

„Mig dreymir um að fara í æfingaferð til Phuket á Taílandi. Ég og maðurinn minn höfum gert það tvisvar og það er svo geggjað að blanda saman fríi og æfingum. Það er nú ekki oft sem maður kemur „heilbrigðari“ heim úr fríi en það hefur gerst í þau skipti sem við höfum komið heim frá Taílandi.“

Hvaða áfangastaður stendur upp úr?

„Mér finnst Sankti Pétursborg ein fallegasta borg sem ég hef komið til. Byggingarnar eru svo ótrúlega fallegar og menningin ótrúleg. Sennilega er maður ekki á leiðinni til Rússlands í bráð þannig að ég er fegin að hafa náð að fara þangað nokkrum sinnum áður en stríðið skall á.“

Í ljósi þessu hversu stutt er frá Phuket og yfir til Phi Phi-eyjar þá myndi ég gripa tækífærið og gista á eynni í tvær nætur. Það er ævintýralega fallegt þar. 
Phi Phi-eyjar.
Phuket í Taílandi er í uppáhaldi hjá Gretu Salóme.
„Ég myndi taka íþróttagalla með til Phuket. Þar er nefnilega mikið af skemmtilegum æfingastöðvum og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, crossfit, yoga, hlaup og svo framvegis.“
Toppur, Air, 11.495 kr.
Hjólabuxur, Air, 7.995 kr.
Íþróttaskór, Air, 18.495 kr.

Þyrstir í Afríku-ævintýri

Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir, blaðamaður og heimsborgari.

Hvaða stað dreymir þig um að heimsækja?

„Ég á marga drauma áfangastaði þannig að mér þykir svolítið erfitt að benda á einhvern einn stað. En það svæði sem hefur kannski mest verið í huga mínum undanfarið er Afríka og þá einna helst Suður-Afríka. Ástæðurnar fyrir því að ég heillast af Suður-Afríku eru nokkrar; í fyrsta lagi á ég vini sem hafa farið þangað og þeir tala afskaplega vel um landið, þar ku vera einstaklega fallegt og fjölbreytt landslag. Auk þess er maturinn víst verulega góður og mikil vínrækt í landinu en matur og vín er eitt af því sem ég sækist í á mínum ferðalögum. Þar er líka fjölbreytt dýralíf og hægt að fara í safarí sem mig hefur dreymt um lengi. Ekki má gleyma góðu loftslagi og fallegri birtu sem mér finnst spennandi þar sem ég er áhugaljósmyndari.“

Hönnu dreymir um að ferðast til Suður-Afríku.

Nú ertu mikill ferðanörd. Hvaða staður finnst þér einna helst standa upp úr?

 „Mér finnst alltaf erfitt að velja og gera upp á milli staða enda hefur hver staður sinn sjarma og sérkenni. En svona til að svara spurningunni þá myndi ég segja að það sé kannski einna helst Oman en það er á Arabíuskaganum austan við Sameinuðu Arabísku Furstadæmin. Þetta er einstaklega fallegt og friðsælt land með fjölbreytta afþreyingu, ríka sögu, fornminjar og fallegan arkitektúr. Hægt er að heimsækja magnaða fjallgarða og eyðimörkin er heillandi. Auk þess eru strandir með heiðbláum, heitum sjó sem gaman er að svamla í og snorkla.“

Loftslagið í Oman er dásamlegt, heitt og þurrt að mestu en sumarið er ekki góður tími til að heimsækja landið þar sem hitinn getur orðið óbærilegur.

„Uppáhaldsborgin mín er hins vegar án efa París og þarf kannski engan að undra þar sem ég bjó þar í tæp þrjú ár og hef heimsótt hana reglulega í yfir 30 ár. Borgin er full af fallegum minnismerkjum og byggingum, söfnin eru ævintýri fyrir listasögunörd eins og mig og svo er maturinn dásamlegur. Tuttugu ólík hverfi eru í Parísarborg en þau hafa hvert sinn sjarma og einkenni, óhætt er að segja að borgin sé í raun margir litlir bæir. Þrátt fyrir að hafa búið í borginni uppgötva ég nánast alltaf eitthvað nýtt í hverri heimsókn hvort sem það er nýr matsölustaður, búð eða safn.“

Gott útsýni í Parísarborg.
Kaffihúsin í París eru goðsagnakennd.
Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir er mikill ferðanörd en hún starfaði lengi sem ritstjóri Gestgjafans þar sem hún skrifaði fjöldann allan af vönduðum og flottum ferðagreinum. Henni er margt til lista lagt en um þessar mundir starfar hún meðal annars við blaðaskrif á Morgunblaðinu og kennslu.
Hörpils, Zara, 5.995 kr.

Fullkomin blanda af náttúrufegurð, menningu og mat

Berglind Pétursdóttir Festival fjölmiðlakona.

Drauma-áfangastaður?

 „Mig langar mest að fara til Mexíkó núna. Ég hef verið að skoða ýmsa áfangastaði og mér sýnist það vera hin fullkomna blanda af náttúrufegurð, menningu og mat - og þegar ég segi mat þá er ég ekki að tala um mexíkóska kjúklingasúpu!“

Hvaða áfangastaður stendur upp úr?

 „Þegar ég ferðast þá finnst mér mikilvægast að fá eitthvað gott að borða svo ég verð að vera mjög ófrumleg og segja Ítalía og Frakkland. Fyrir nokkrum árum keyrði ég hringinn í kringum Ítalíu og það var sama í hvaða krummaskuði maður stoppaði maturinn var alltaf betri en frábær. Ég mæli með því, þetta var alveg frábært „mission“.

Nú, svo reyni ég að fara til Parísar að minnsta kosti árlega og þá helst í för með Rakel Sif vinkonu minni sem er sérfræðingur í að finna og maula eitthvað ótrúlegt í borginni góðu.“

Ekki fara til Parísar í ágúst. Þá eru allir góðu veitingastaðirnir lokaðir.
Berglind elskar að ferðast til Parísar með vinkonu sinni Rakel Sif, sem er sérfræðingur í að finna góða veitingastaði í borginni.
Vero Moda, 4.990 kr.
Buxur, Zara, 6.995 kr.
GS Skór, 24.995 kr.
Saint Laurent, Optical Studio, 74.300 kr.

Fjölmiðlakonan Berglind Festival nýtur þess að ferðast á sér þá ósk heitasta að heimsækja Mexíkó.

Markaður í Mexíkóborg.

Paradís fyrir sælkera

Ýmir Björgvin Arthúrsson, lífskúnstner, matarleiðsögumaður og eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Magical Iceland.

Óska-áfangastaður?

„Eilat í Ísrael. Ég fór til Ísrael 19 ára með bakpoka á vit ævintýra í leit að tilgangi lífsins, alheimsins og alls þar fyrir utan. Endaði með að vinna í níu mánuði á seglskútu á Rauðahafinu þar sem ég grillaði ofan í ferðamenn sem fóru í dagsferð til Kóralla-eyjunnar. Einhverju sinni sat ég með fæturna út fyrir borðstokkinn á skútunni, sem ég bjó í þessa níu mánuði og horfði á sólina setjast og lita Rauðahafið rautt og lofaði sjálfum mér að ég myndi koma einhvern tímann aftur á skútuna sem farþegi og njóta þegar ég væri orðinn gamall karl með fjölskyldu. Jæja, nú er ég kominn með skegg og grátt hár og fjölskyldu svo kannski er stundin runnin upp!“

Ými dreymir um að ferðast aftur til Eilat í Ísrael.

Af öllum þeim stöðum sem þú hefur heimsótt hver stendur upp úr að þínu mati?

„San Sebastian. Ég fór þangað í mars á þessu ári og naut þess í botn. Borgin er ofboðslega falleg og svipar mikið til Rio de Janeiro í Brasilíu. Hún er í fallegum flóa við Atlantshafið á nyrsta hluta. Við sjávarsíðuna mætir manni lítil smábátahöfn og hvítar strendur og fjöll allt um kring. San Sebastian er líka sannkölluð paradís fyrir sælkera, þekkt sem „culinary capital of the world“ og það er borgin svo sannarlega. Það úir og grúir af pínulitlum, dásamlegum veitingastöðum þar sem fólk stendur og pantar sér smárétti, sem innfæddir kalla „pintxos“ og eru þeirra útfærsla af tapas smáréttum. Þess má enn fremur geta að í San Sebastian eru flestir Michelin-veitingastaðir í heimi, miðað við höfðatölu.“

Kynnið ykkur Michelin-staðina í San Sebastian og veljið þá sem ykkur líst best á, en gætið þess að bóka á stöðunum með eins miklum fyrirvara og hægt er! Það er eina ráðið ef þið viljið komast að á þeim allra bestu.

„Síðast en ekki síst er regla á mínu heimili, í hvert skipti sem farið er í nýja borg, að leigja prívat sælkera-leiðsögumann í þrjár til fjórar klukkustundir í upphafi heimsóknar. Þetta er gert til að læra af heimamönnum hvert sé best að fara til að njóta, hvar innfæddir halda sig og bara fá beint í æð öll leyndarmálin sem ekki eru gefin upp á þessum dæmigerðu ferðasíðum. Þar fyrir utan eru rosaleg verðmæti fólgin í því að heyra beint frá heimamönnum hvað er í gangi í borginni og í landinu og í lífi innfæddra.“

Ýmir Björgvin Arthúrsson ætti að vita hvað hann syngur enda á hann og rekur ferðaþjónustufyrirtækið Magical Iceland sem býður innlendum og erlendum ferðamönnum upp á skipulagðar matarferðir um sveit og borg.
Passið að hafa góðan hluta heimsóknarinnar til San Sebastian algjörlega opinn og ekki gera nein sérstök plön, heldur ráfið um gamla bæinn og njótið þess að heimsækja eins marga pintxos staði og þið getið.
Pintxos-réttir eru ómótstæðilegir í San Sebastian.
Polo Ralph Lauren, Herragarðurinn, 14.980 kr.
Bruun & Stengade, Herragarðurinn, 10.980 kr.
Tom Ford, Optical Studio, 71.600 kr.
Timberland, 15.990 kr.

Ævintýraferð til Asíu

Steingerður Steinarsdóttir, verkefna- og ritstjóri Samhjálpar, hefur áralanga reynslu af blaðaskrifum og ritstýrði hinu vinsæla tímariti Vikunni í áratug. Steingerður veit fátt skemmtilegra en að ferðast en eftir hana liggur meðal annars fjöldinn allur af áhugaverðum greinum um ferðalög og frábæra staði til að heimsækja.

Drauma-áfangastaður?

„Einmitt núna dreymir mig helst um að fara til Mílanó. Fyrir fimm árum fórum við hjónin til Ítalíu, höfðum bækistöð í Arezzo og keyrðum um Toskana. Þetta var yndislegt frí þar til alveg í lokin. Hundurinn okkar veiktist og dó og við ákváðum að stytta ferðina um þrjá daga. Þeim dögum ætluðum við að verja í Mílanó og sjá meðal annars Síðustu kvöldmáltíðina. Manninum mínum hefur langað að klára þessa ferð alla tíð síðan og nú í júní erum við búin að bóka far og gistingu svo loks er komið að því.

En stærsti draumurinn er að fara til Asíu og ferðast um Taíland, Laos, Kambódíu, Víetnam og fleiri framandi ævintýralönd. Ég veit að náttúrufegurð er mikil á þessum slóðum, áhugaverð menning og einstakt mannlíf. Frá því að ég var barn hefur mig líka langað að fara til Ástralíu og Nýja Sjálands. Þegar ég las Grant skipstjóri og börn hans í útgáfu Iðunnar kviknaði þessi löngun og ég held að Ástralía sé ævintýraheimur, fullur af framandi og spennandi dýralífi, fjölbreyttri náttúru og gerólíkri okkar. Nú nálgast óðum eftirlaunaaldur hjá okkur og hver veit nema við skellum okkur í þessar draumaferðir.“

Mílanó er draumaáfangastaður.

Hvaða áfangastaður finnst þér standa upp úr?

„Enn sem komið er stendur Prag árið 2000 upp úr. Þegar ég kom þangað hafði kapítalisminn ekki fyllilega tekið yfir og enn voru handverksmenn á Karlsbrúnni, hver með sínar vörur. Allt var svo vandað og sérstakt og þótt flest kostaði ekki mikið á mælikvarða okkar var ekki á blaðamannslaunum hægt að kaupa allt sem mig langaði í. Fólkið var svo vingjarnlegt og tók svo vel á móti okkur og öll þjónusta til fyrirmyndar.

Borgin var líka einstaklega falleg og hvarvetna bar hún vitni um hagleik og snilli þess fólks sem þar hafði búið og byggt hana upp. Ég kom svo þangað aftur 2010 og þá hafði allt breyst. Handverkið var meira og minna fjöldaframleitt og allt eins. Fólkið hafði mun minni áhuga á túristum og alls staðar höfðu sprottið upp staðlaðir veitingastaðir og einhvers konar afþreying fyrir túrista. En borgin var enn fögur og spennandi. Það er einhver einstök kyrrð niður við Moldá og byggingarnar í miðbænum stórkostlegar.“

Ferð til Prag í kringum aldamótin stendur upp úr hjá Steingerði.

„Í allar borgarferðir er algjört möst að taka með sér góða skapið og slatta af umburðarlyndi. Maður verður að vera undir það búinn að villast og lenda í vandræðum með að komast að því sem mann langar helst á sjá, verða fyrir vonbrigðum með matinn í einhver skipti og lenda í pirrandi og erfiðu fólki. Þá er best að horfa upp og njóta þess að skoða skreytingarnar á byggingunum því þær eru iðulega dásamlegar, ekki hvað síst í Prag.“

Ef farið er til Prag mæli ég með að fara Pilsen-ferð í undirgöngin, fara í kastalann og í bátsferð með málsverði á Moldá. Allt er þetta ævintýraleg upplifun.
Taíland, Laos, Kambódía, Víetnam og fleiri framandi ævintýralönd eru draumaáfangastaðir Steingerðar.
Lindex, 7.299 kr.
Esprit, 14.995 kr.
Max Mara, Optical Studio, 55.200 kr.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu