Fara í efni

Ár mikilla breytinga hjá Evu Laufeyju

Lífsstíll - 29. desember 2022

Það gekk á ýmsu í lífi Evu Laufeyjar Kjaran Hermannsdóttur á árinu sem er að líða. Ævintýraleg ferðalög og samverustundir með fjölskyldunni skipuðu stóran sess og við tók nýtt hlutverk þegar Eva Laufey söðlaði um og byrjaði í öðru starfi eftir að hafa átt langan og farsælan feril í fjölmiðlum. Sjálf segist hún reyna að einblína á ljósu punktana í tilverunni og er spennt fyrir því að takast á við nýjar áskoranir.

Mynd: Íris Dögg Einarsdóttir
Eva Laufey tók við starfi markaðs- og upplifunarstjóra Hagkaups á árinu. Hún segir ánægjulegt að starfa hjá fyrirtæki sem láti sig samfélagsleg málefni varða, enda sé fátt jafn gefandi og að fá að taka þátt í verkefnum sem leiða til góðs

Þetta ár hefur verið lærdómsríkt og afar skemmtilegt, auðvitað með dögum inn á milli sem voru ekki brjálæðislega skemmtilegir eins og almennt gengur og gerist í lífinu, en heilt yfir gott ár sem ég mun minnast með þakklæti í huga þegar ég kveð það á gamlárskvöld,“ segir Eva Laufey um árið sem er að líða.

Spurð hvað standi upp úr svarar hún að það séu hiklaust samverustundirnar með fólkinu hennar. Fótboltamótin hjá dætrunum, sumarbústaðarferðirnar og ferðalögin með fjölskyldunni bæði innanlands og erlendis, fyrst til Tenerife, þangað sem svo margir Íslendingar lögðu leið sína á árinu og svo til Ítalíu, sem Eva segir vera ógleymanlega ferð. „Þetta var í fyrsta sinn sem ég fór til Ítalíu og mamma mía hvað ég naut þess!“

Hún segist klárlega ætla að heimsækja landið aftur – og vonandi sem fyrst.

Þá hafi fjölskyldan með aðstoð góðra aðila ráðist í pallasmíði. Nokkrir dásamlegir dagar hafi náðst á nýja pallinum og nú geti fjölskyldan ekki beðið eftir því að fá tækifæri til að nýta hann og garðinn í sumar. „Þótt það sé vissulega gaman að ferðast þá erum við mjög heimakær. Okkur líður einfaldlega alltaf best heima,“ útskýrir hún og brosir.

Spurð hvað standi upp úr svarar hún að það séu hiklaust samverustundirnar með fólkinu hennar. Fótboltamótin hjá dætrunum, sumarbústaðarferðirnar og ferðalögin með fjölskyldunni bæði innanlands og erlendis.

Líður vel í nýju hlutverki

Á árinu urðu líka stór tímamót í lífi Evu Laufeyjar þegar hún söðlaði um og tók við starfi starfi markaðs- og upplifunarstjóra Hagkaups. Fram að því hafði hún unnið við við dagskrárgerð í hvorki meira né minna en níu ár og komið víða við á ferlinum. Meðal annars í Íslandi í dag á Stöð 2 og Bakaríinu á Bylgjunni.

Hvernig tilfinning var að breyta til og segja skilið við fjölmiðla eftir svona langan og farsælan feril?

 „Það er svolítið stökk að kveðja vinnu til níu ára og stökkva á eitthvað nýtt,“ viðurkennir hún, „en tilfinningin sagði mér að gera það og tímasetningin var rétt. Vissulega voru þetta tímamót og þetta er klárlega ár breytinga því ég og maðurinn minn [Haraldur Haraldsson, innsk. blm.] tókum við nýjum störfum þannig að við höfum verið samtaka í því að breyta til og aðlaga okkur að nýju hlutverkum.“

„Við erum nokkrar fjölskyldur sem komum saman um áramótin og sú skemmtilega hefð hefur skapast að hver og ein fjölskylda segi frá því sem hefur gerst hjá henni á árinu,“ segir Eva Laufey.

Hefur ekki sagt skilið við fjölmiðla fyrir fullt og allt

Eva Laufey segir alltaf skemmtilegt og hollt að breyta til en kveðst þó alls ekki líta svo á að hún sé að kveðja fjölmiðla fyrir fullt og allt. Síður en svo. „Einu sinni upplifði ég það svo að maður þyrfti að velja einhvern starfsvettvang til frambúðar en ég horfi ekki þannig á hlutina í dag. Við getum verið allskonar.

Nú er ég að kveðja starfið hjá Stöð 2 eftir frábær níu ár en eins og ég lít á það ætti það alveg að ganga upp að gera þætti meðfram nýju starfi, það er að segja ef vilji er fyrir því og ég finn fyrir löngun til þess.“

Gefandi að láta gott af sér leiða

Eva Laufey viðurkennir þó að eins og sakir standa hafi hún reyndar ekki mikinn tíma til að hugsa næstu skref þar sem hún sé enn að koma sér inn í nýja starfið með öllum þeim spennandi verkefnum sem því fylgir.

„Ég vissi svo sem að það væri fjör á þessum markaði en mig grunaði nú ekki að það væri jafn mikið fjör eins og raun ber vitni,“ segir hún og skellir upp úr. „Annars finnst mér heiður að fá að starfa hér, því Hagkaup hefur fylgt þjóðinni bráðum í að verða 64 ár og skipar því ákveðinn sess í lífi Íslendinga.“

Þá sé ekki síður ánægjulegt að starfa hjá fyrirtæki sem láti sig samfélagsleg málefni varða, enda sé fátt jafn gefandi og að fá að taka þátt í verkefnum sem leiða til góðs. Sem dæmi um það nefnir Eva söfnun Hagkaups í október til styrktar Bleiku slaufunni, árlegu árvekni- og fjáröflunarátaki Krabbameinsfélagsins sem er tileinkað baráttu gegn krabbameini hjá konum. „Það skiptir bara miklu að fyrirtæki láti gott af sér leiða og skili af sér til samfélagsins og það gerir Hagkaup sannarlega á ári hverju með því að styrkja ýmis félög,“ bendir hún á.

Aðspurð segir Eva Laufey það hafa verið erfitt að kveðja vinnufélagana á sínum gamla vinnustað. „Sérstaklega þar sem vinnan er stór hluti af okkar lífi og eftir níu ár hjá Stöð 2 hef ég eignast frábæra vini sem ég er í góðu sambandi við,“ segir hún en tekur fram að nýja vinnan sé skemmtileg og lærdómsrík.

Forréttindi að fást við skemmtileg verkefni

Eva Laufey kveðst í raun vera svo heppin að koma inn í fyrirtækið á „draumatíma“ þar sem Hagkaup sé búið að vera í mikilli innri vinnu og sé í þann mund að fara að hrinda í framkvæmd stórum verkefnum og breytingum sem viðskiptavinir munu taka eftir á nýju ári. Í stuttu máli sé starfið búið að vera lærdómsríkt og krefjandi og það komi stöðugt á óvart.

„Ég er lánsöm að fá að gera það sem mér þykir gaman, að vakna og hlakka til að mæta til vinnu og vinna að skemmtilegum og fjölbreyttum verkefnum,“ segir hún. „Ég er búin að gegna starfinu í fjóra mánuði núna og veit aðeins meira en ég gerði á fyrsta degi og sú tilfinning er góð. Já, þetta verður bara betra og betra.“

Spurð hvort hún telji sig almennt heppna í lífinu kinkar hún kolli. „Já, mér finnst ég bara vera ótrúlega lánsöm; ég á tvær yndislegar stelpur og hann Hadda minn. Við eigum bæði stórar fjölskyldur og góða vini. Það er það sem skiptir okkur máli og í raun ekki hægt að biðja um meira. Lífið snýst um fjölskylduna og vini.“

Stórfjölskyldan kemur saman um áramótin

Talið berst þá að áramótunum sem eru framundan og Eva Laufey upplýsir að fjölskyldan ætli að vera á smá flakki um kvöldið, byrji það heima hjá tengdaforeldrunum en komi svo til með að færa sig yfir til foreldra hennar. Til allrar lukku sé ekki langt að fara þar sem stórfjölskyldan búi öll á Akranesi.

Eru Eva Laufey og fjölskylda búin að koma sér upp einhverjum skemmtilegum áramótahefðum?

 „Já, við erum nokkrar fjölskyldur sem komum saman um áramótin og sú skemmtilega hefð hefur skapast að hver og ein fjölskylda segi frá því sem hefur gerst hjá henni á árinu. Þetta er alveg frábært því þetta er stór hópur og eðlilega náum við að ekki fylgjast með því sem allir eru að gera en þarna fáum við tækifæri til þess að renna yfir það og sjá og heyra hvað bar hæst hjá fjölskyldunum okkar á árinu,“ útskýrir hún og mælir með að fólki prófi þetta, þó ekki nema fyrir sig sjálft, enda sé bráðskemmtilegt að rifja svona upp árið.

Alltaf svolítið meyr á gamlárskvöldi

Að eigin sögn verður Eva Laufey alltaf svolítið meyr á gamlárskvöld. „Já, ég kveð yfirleitt árin með söknuði. Því enda þótt árin séu vissulega misjöfn og sum býsna erfið þá reyni ég að einblína á ljósu punktana og það verður gjarnan til þess að allskonar tilfinningar hellast yfir mig þegar ég tek á móti nýju ári.“

Eva viðurkennir að hún verði líka alltaf pínulítið stressuð fyrir nýju ári. „Eða kannski ekki beint stressuð,“ segir hún við nánari umhugsun, „ heldur finnst mér það svolítið ógnvekjandi að vita ekki hvað nýja árið ber í skauti sér. Á sama tíma er ég líka full tilhlökkunar. Ætli megi ekki bara segja að ég sé fremur tilfinningarík um áramótin,“ segir hún og brosir.

Getur alltaf bætt sig í kökuátinu

Spurð hvort hún sé búin að strengja einhver áramótaheit er Eva Laufey fljót að kinka kolli og segist stefna á að hlaupa meira á nýju ári. Ég elska að fara út að hlaupa, það er eitt af mínum áhugamálum. Svo er það bara hið klassíska að verja eins miklum tíma með fjölskyldunni og hægt er og lesa meira - já það væri gott áramótaheit. Fyrir utan svo kökuát – þar get ég alltaf bætt mig,“ segir hún og skellihlær.

Annars segist hún ekki ætla að skipuleggja hlutina of mikið fram í tímann. Henni hætti stundum til að plana svolítið mikið og stundum yfir sig þannig að það sé bara ágætt að vera ekki með of mikil plön eða væntingar.

„Ég sé fyrir mér gott ár með mínu fólki og ekki of mikið planað - enn sem komið er - sem er bara gott.“

Hún er ekki í vafa um að reynslan á árinu eigi eftir að koma að góðum notum á nýju ári.

„Algjörlega. Það er svo margt sem ég lærði á árinu sem ég mun taka með mér inn í nýtt ár og komandi ár. Lífið er núna er stundum sagt og það er aðal málið, að lifa þessu lífi og hafa gaman af því,“ bendir hún á.

Fleiri bækur væntanlegar

En eigum við ekki örugglega von á fleiri bókum frá henni þegar fram líða stundir þótt hún sé byrjuð í nýrri vinnu?

 „Ó, ég hætti sko ekki að skrifa bækur,“ svarar hún glaðlega. „Vonandi næ ég bara að koma því að fyrr en síðar.“

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu