„Þegar ég staldra við, sem ég geri reyndar alltof sjaldan af því það er ekki oft tími til þess, þá er alveg ótrúlegt að líta yfir þetta ár. Það gerðist svo margt,“ segir Viktoría glöð í bragði. „Ég var í fæðingarorlofi meiri hluta ársins og að skrifa lokaverkefnið ásamt því að klára heimildarmyndina, Velkominn Árni. Ég náði að tvinna þetta saman og nældi mér í mastersgráðu í vor. Við fjölskyldan fluttum svo í dásamlegt hús á yndislegum stað og gætum ekki verið ánægðari með það.“
Ekki nóg með þetta heldur eignuðust Viktoría og Sólmundur Hólm eiginmaður hennar saman annað barn um mitt síðasta ár og eiga þar með samtals fimm börn. Í september á þessu ári gengu þau skötuhjú síðan í það heilaga.
„Já, við Sóli giftum okkur í september, loksins,“ segir hún, því upphaflega hafi staðið til að gera það tveimur árum áður en svo hafi heimsfaraldur skollið á og „sett smá strik í reikninginn“.
„Þetta var algjörlega geggjaður dagur með okkar besta fólki og af mörgum góðum þá toppar hann líklega allt á árinu,“ segir hún og brosir.
Djúpt snortin yfir viðbrögðunum
Ýmis fleiri tímamót urðu í lífi Viktoríu á árinu. Þættir hennar Hvunndagshetjur hófu göngu sína á RÚV í ársbyrjun og hlutu glimrandi góðar viðtökur og dóma, rétt eins og mynd hennar Velkominn Árni sem hlaut meðal annars áhorfendaverðlaun Skjaldborgar 2022, hátíð íslenskra heimildakvikmynda. Viktoría segist nú alveg hafa grunað að þessar sögur kynnu að hreyfa við fólki en viðurkennir að hún hafi hins vegar kannski ekki búist við svona brjálæðislega góðum viðbrögðum. Það hafi vissulega verið ánægjulegt.
„Það var algjörlega mögnuð stund þegar við sýndum myndina fyrst í bíóinu á Skjaldborg að fá að upplifa það að horfa á hana með áhorfendum og fá viðbrögð beint í æð. Síðan var frumsýningin í Bíó Paradís þar sem Árni var einnig viðstaddur líka mögnuð,“ lýsir hún og undirstrikar að hún sé hreint út sagt djúpt snortin yfir viðbrögðunum og henni finnist ótrúlega gaman hvað fólk tengir mikið við myndina á mismunandi hátt.
En var Viktoría ekkert stressuð fyrir viðtökunum?
„Þó ég hafi fulla trú á efninu þá gerist það alltaf einhvers staðar í ferlinu að maður fer smá að efast,“ játar hún en tekur fram að hingað til hafi það nú verið að ástæðulausu. „Sama á við um Hvunndagshetjur,“ heldur hún áfram, „ég var ekki beint stressuð en mér finnst ég aldrei alveg vita hvernig fólk á eftir að taka því sem maður er að gera. En þeim var alveg ótrúlega vel tekið og ég er mjög þakklát fyrir það og satt best að segja er ég eiginlega hálf feiminn yfir öllum þessum góðu viðbrögðum.“
Viktoría segist brenna fyrir að segja sögur, öll eigum við okkar sögu og það sé svo gaman að fá að miðla þeim. Henni finnst hún því vera alveg ótrúlega heppin að fá að vinna við það sem hún hefur mestan áhuga á.
Telur hún sig almennt hafa verið lánsama í lífinu?
Hún kinkar kolli. „Já og ég reyni að passa mig á því að vera þakklát fyrir það. Ég og við erum svo sannarlega lánsöm og það er alls ekki sjálfgefið,“ segir hún og bætir við að þetta sé eiginlega búið að vera alveg rosalegt ár og ótrúlega margt frábært hafi gerst. Hún muni því minnast ársins 2022 með mikilli hlýju.
„Í raun var þetta algjört draumaár.“
Eiginmaðurinn haldinn framkvæmdakláða fyrir hátíðirnar
Nú þegar áramótin eru svo á næsta leiti er ekki úr vegi að spyrja hvernig þeim komi til með að vera háttað hjá Viktoríu og fjölskyldu. „Það er ekki alveg ákveðið,“ segir hún. „Stóru börnin okkar eru hjá okkur á jólunum í ár en ekki áramótunum þannig ég býst við að við verðum nú bara róleg, horfum á Skaupið og höfum gaman.”
Eru þau fjölskyldan með einhverjar sérstakar hefðir í tengslum við áramótin?
„Aðalhefðin okkar hingað til hefur verið að við séum í framkvæmdum á stórhátíðum. Sóli fær framkvæmdarkláða alltaf rétt fyrir jól en ég bannaði honum fyrir þessi jól að hefja nokkurs konar framkvæmdir. Þannig að núna verðum við vonandi bara í rólegheitum eftir miklar vinnutarnir hjá okkur báðum. Sóli er búinn að vera með sýninguna sína Jóli Hólm allan desember og ég að taka upp nýja þáttaröð af Hvunndagshetjum, þannig það verður kærkomið að slappa aðeins af.“
Er Viktoría búin að strengja áramótaheit?
Hún brosir. „Nei, reyndar ekki en ætli það sé ekki bara tilvalið að stefna að því að hafa gaman og hitta fólkið sitt oftar.“
Úr Landanum yfir í Kastljós
Spurð hvernig nýtt ár leggist almennt í hana segist Viktoría hlakka til þess en auðheyrt er að það verður nóg að gera.
„Við erum að klára nýja þáttaröð af Hvunndagshetjum sem verður frumsýnd á nýju ári og síðan fer ég að taka upp þriðju þáttaröðina af Fyrir alla muni. Þetta eru mjög ólík verkefni en ótrúlega skemmtileg.
Í Fyrir alla muni fær nördið í mér að grúska endalaust. Ég hlakka til að byrja almennilega á því. Fara að grúska í alls konar heimildum og finna sögur hinna ýmsu muna.
Ég er síðan með nokkur önnur spennandi verkefni á verkefnalistanum sem ég vona að ég komist í á árinu en ég byrja árið í Kastljósinu. Ég var í Landanum fyrir áramót en það er skemmtilegt að fá að gera alls konar hérna á RÚV.”
Langþráð brúðkaupsferð á döfinni
Viktoría segir þau Sóla síðan ætla í brúðkaupsferð í vor. „Það er að segja ef við náum að ákveða hvert við viljum fara og ég hlakka alveg fáránlega mikið til að slaka á bara við tvö í nokkra daga. Fyrir utan það náum við vonandi að klára það sem þarf að klára í húsinu okkar og vera í rólegheitum með börnunum okkar þess á milli.“
Tilhlökkunin fyrir árinu sem er fram undan leynir sér ekki en Viktoría segist fagna hverju nýju ári því það þýði að maður hafi lifað það síðasta af.
„Já, 2023 leggst bara ágætlega í mig,“ segir hún glaðlega, „og ég vona það færi okkur öllum skemmtileg ævintýri.“
Hvetur aðra til að láta gott af sér leiða
Undir árslok á síðasta ári sagði Viktoría í viðtali að hún tryði því að þættir hennar Hvunndagshetjur væru fólki gott veganesti inn í nýtt ár. Þeir fengju kannski fólk til að hugsa „hvað það sjálft geti gert til að stuðla að betra samfélagi.“ Í viðtalinu sagðist hún líka telja að væri tilvalið fyrir fólk „að fá svona í byrjun árs þegar allir eru að pæla einhvern veginn í hvernig þeir geti orðið betri manneskjur.“
Er Viktoría á því að við værum betra samfélag ef allir leggðu sitt af mörkum og reyndu að hafa jákvæð áhrif á líf annarra?
„Já algjörlega,“ segir hún hiklaust. „Ég held við mættum öll taka þessar hvunndagshetjur örlítið til fyrirmyndar og reyna að gefa meira af okkur. Það þarf oft ekki mikið til. Bara láta okkur varða um fólkið í kringum okkur, láta gott af okkur leiða á einhvern hátt og hugsa um annað en bara sjálfan sig.
Þetta byrjar allt hjá okkur sjálfum og þannig held ég að við búum til betra samfélag. Ég hef heyrt frá mörgum að þættirnir hafi veitt þeim mikinn innblástur í að gera góða hluti fyrir aðra og mér finnst það frábært.“
Ætlar Viktoría sjálf að fara inn í nýtt ár með því hugarfari?
„Já, heldur betur og ég hvet fólk til þess að gera það líka.“