„Cinnabon“ snúðar
Snúðadeig
- 670-700 g Polselli hveiti
- 1 pk. þurrger (11,8 g)
- 120 g smjör
- 250 ml nýmjólk
- 100 g sykur
- 1 tsk. salt
- 2 egg
- 2 tsk. vanilludropar
- Setjið hveiti og þurrger í hrærivélarskálina og blandið saman (haldið eftir hluta af hveitinu þar til í lokin).
- Bræðið smjörið í potti og hellið síðan mjólk, sykri og salti saman við og hrærið þar til ylvolgt.
- Hellið saman við hveitiblönduna og hrærið með króknum á meðan.
- Bætið eggjum og vanilludropum saman við og síðan restinni af hveitinu ef þurfa þykir.
- Egg eru misstór og því þarf mismikið hveiti. Setjið hveiti þar til deigið hnoðast vel saman en er samt frekar blautt í sér.
- Náið því þá úr hrærivélinni og hnoðið saman í höndunum, penslið skál með matarolíu og veltið deiginu uppúr, plastið og leyfið að hefast í um 45 mínútur.
- Fletjið þá út á hveitistráðum fleti í um 40 x 50 cm og smyrjið kökuform/eldfast mót sem er um 25 x 35 cm að stærð vel með smjöri.
Fylling
- 220 g púðursykur
- 3 msk. kanill
- 100 g smjör við stofuhita
- Smyrjið útflatta deigið vel með smjöri.
- Blandið saman sykri og kanil og dreifið jafnt yfir deigið.
- Rúllið upp frá lengri endanum, skiptið niður í 12 einingar og raðið í formið.
- Plastið að nýju og leyfið að hefast aftur í um 45 mínútur.
- Bakið þá við 180°C í 20-25 mínútur eða þar til snúðarnir verða vel gylltir.
Rjómaostakrem
- 100 g rjómaostur við stofuhita
- 60 g smjör við stofuhita
- 200 g flórsykur
- 1 tsk. vanilludropar
- Salt af hnífsoddi
- Bleikur matarlitur (sé þess óskað)
- Þeytið saman rjómaost og smjör.
- Bætið flórsykri saman við í nokkrum skömmtum, skafið niður á milli.
- Bætið salti og vanilludropum við í lokin ásamt matarlit, sé þess óskað og smyrjið yfir volga snúðana. Gott að leyfa þeim að standa í um 15 mínútur eftir að þeir koma úr ofninum.


Ef bananabrauð var bakkelsi fyrstu bylgju mega þá kanilsnúðar vera málið í þessari?