Fara í efni

Frá mér til mín

Lífsstíll - 13. desember 2021

Þó svo að jólin séu skilgreind hátíð ljóss og friðar veldur undirbúningur þeirra mörgum streitu og kvíða. Berglind Guðmundsdóttir, eigandi matarbloggsíðunnar vinsælu Gulur, rauður, grænn og salt, hefur talað opinberlega um mikilvægi sjálfsástar undanfarin ár, en hún gefur sjálfri sér jólagjöf sem hún segir táknræna fyrir sitt sjálfsræktarferðalag. Berglind deilir hér sínum hugrenningum varðandi jólaundirbúninginn með sín gildi í huga.

Berglind segir aðventuna sinn eftirlætis tíma.

„Kertaljós, bakstur, samverustundir, bæjarferðir og allskonar dúllerí sem nærir mig frekar en hitt gefur mér mikið. En jólin sjálf þykja mér stundum svolítið yfirþyrmandi og ég verð oftar en ekki glöð þegar nýtt ár hefst. Það er reyndar áhugavert og kannski eitthvað sem kominn er tími til að vinna bug á og læra að njóta jólanna í botn. Ekki það, ég nýt þeirra alveg, en er kannski haldin smá kvíða gagnvart þeim. Kvíða sem hófst líklega við skilnað, þegar maður var að reyna að halda sér saman, en þó að freista þess að hafa jólaupplifunina jákvæða, láta börnunum líða vel og allt það, þegar maður var kannski smá „mess“ sjálfur. Við þessar aðstæður skapast einnig mikill peningakvíði; hvernig geri ég þetta ein? Get ég þetta? Núna, svo mörgum jólum síðar er allt orðið í lagi en tilfinningin situr samt áfram. Já, ætli ég þurfi ekki að skoða þetta aðeins með sjálfri mér,“ segir Berglind, sem aðspurð metur sig í meðallagi skipulagða þegar að jólagjafakaupunum kemur.

Ég hef lært að það borgar sig ekki að vera allt of tímanlega í að kaupa jólagjafir. Einu sinni prufaði ég að byrja mjög snemma og þá var ég alltaf að bæta við pakkana. Þau jól fóru því úr því að vera þau praktískustu yfir í þau allra dýrustu! Núna byrja ég í nóvember og nýti tilboðsdagana ef ég er komin með ákveðnar hugmyndir að gjöfum. Þeir geta hins vegar verið stórhættulegir, því ef ég er ekki með neitt ákveðið í huga kaupi ég bara eitthvað handa sjálfri mér!
Berglind Guðmundsdóttir hjá Gulur, rauður, grænn og salt.

Skýr mörk nauðsynleg

Berglindi þykir nauðsynlegt að setja sér ákveðin ramma við jólaundirbúninginn.

„Ég held að þetta sé kannski svolítið svipað og vikumatseðlar. Ef við gefum okkur ekki tíma til að skipuleggja hvernig við viljum hafa komandi viku í eldhúsinu, endum við þreytt og svöng í matvörubúðinni á mánudegi og verslum stjórnlaust. Þannig að spurningin er, hvernig viljum við hafa desember? Gott er að skrifa lista og forgangsraða. Hvað skiptir okkur mestu máli? Hverju má sleppa og hverju síður? Hvað veitir mér og mínum gleði? Annars má líka velta því upp hvort við séum ekki allt of upptekin af öllum þessum gjöfum. Hvort þetta sé ekki bara komið út í algjört rugl? Þegar við erum farin að eyða um efni fram og hefjum nýja árið á skuldabömmer. Erum við þá ekki í raun að beita okkur sjálf ofbeldi? Við viljum gleðja en ég held að það sé mjög mikilvægt að setja skýr mörk. Ef við eigum ekki pening núna, þá er það bara þannig. Við þurfum að viðurkenna það fyrir okkur og öðrum, að í ár verða gjafirnar færri og kannski ódýrari. Jafnvel heimagerðar. Sumir þurfa jafnvel að sleppa því að gefa jólagjafir eða þá halda því við sína allra nánustu. Það getur verið sár tilfinning, en það koma jól eftir þessi jól. 

Við upplifum flest tímabil þar sem við getum ekki haldið í við hina. En kannski er það alls ekki slæmt, heldur gjöf – tækifæri til að uppgötva nýja hluti, skapa nýjar hefðir og vinna með það sem maður hefur.

Helstu gleðistundirnar ókeypis

Hvernig sem allt veltist í veröldinni liggur eitt ljóst fyrir; við sitjum alltaf uppi með okkur sjálf og því eins gott að rækta það samband af alúð. Hvernig hleður Berglind batteríin á þessum annasama árstíma? Er það kannski enn mikilvægara í desember en aðra mánuði ársins?

„Við eigum alltaf að huga að okkur sjálfum, fáum það svo margfalt til baka. Það þarf ekki að kosta neitt, en mínar mestu gleðistundir eru þegar ég fer í labbitúr með góða hljóðbók eða tónlist í fallegu veðri. Þegar ég kveiki á kertum eða kúri undir teppi. Þegar maður leyfir sér að staldra við og sjá hvað það er margt að þakka fyrir. Stundum átta ég mig allt í einu á því að ég er stödd á stað sem mig dreymdi um að vera fyrir nokkrum árum. Þegar slíkt gerist fyllist ég þakklæti,“ segir Berglind.

Frá mér til mín

Berglind hefur undanfarin ár gefið sjálfri sér jólagjöf. Hvernig kom það til og hvað skyldi vera á hennar óskalista í ár?

„Ég gaf sjálfri mér gjöf fyrstu jólin eftir skilnað. Mér fannst það fallegt og það var kannski byrjunin á sjálfsástarferðalagi mínu sem hefur vaxið og dafnað. Mér finnst táknrænt að gefa sjálfri mér gjöf, sama hvað bjátar á, ég hef alltaf mig og ég mun alltaf koma vel fram við mig. Ég er svo mikill nautnaseggur að allt svona kósí er eitthvað sem ég gæti hugsað mér frá mér til mín. Body-lotion með góðri lykt, mjúkt teppi – fullt af teppum, ilmkerti, baðsalt, mjúkur sloppur, andlitsmaskar, náttföt, kósí inniskór, kósísokkar, mjúk sængurver, kampavín og góðir ostar. Ég hef reyndar farið og mátað hvítt loð-ennisband frá Mugga í nokkur ár en aldrei látið verða af því að kaupa það, kannski að ég láti það eftir mér í ár.

Annars er hugleiðsla besta gjöfin sem við getum gefið okkur sjálfum. Með því að stunda hana reglulega tengjumst við okkur. Þarf hvorki að vera flókið né tímafrekt, bara nokkrar mínútur til að spyrja sig, hvernig líður mér núna?
Berglind Guðmundsdóttir.

Kósígjöf

Hér eru nokkrar góðar hugmyndir að gjöfum til þín frá þér sjálfri.
Ilmkerti frá Victorian, Snúran, 10.500 kr.
Mjúkir og hlýir inniskór, Steinar Waage, 9.995 kr.
Hlýtt teppi, Epal, 16.580 kr.
Baðsalt frá Angan, Epal, 3.500 kr.
Jólailmkerti frá Skandinavisk, Epal, 7.900 kr.
Angóruullarsokkar, Icewear magasín, 1.490 kr.,
Sælkera gjafaaskja, Snúran, 5.490 kr.
Inniskór, Steinar Waage, 11.995 kr.
Kósí náttföt, Lindex, 7.999 kr.
Gjafaaskja með möskum frá Origins, Lyfja, 4.849 kr.
Mjúkur sloppur, Lindex, 12.999 kr.
Jólailmkerti frá Urð, Snúran, 5.990 kr.
Dásamlegt líkamskrem frá Elizabeth Arden, Lyfja, 4.438 kr.
Södahl rúmföt, Snúran, 12.900 kr.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu