Fara í efni

Frægir gefa góð ráð: Svona kemstu í frábært form

Lífsstíll - 10. maí 2022

Viltu bæta heilsuna og komast í fantagott form? Fjórir landsþekktir karlar, sem allir eru annáluð hreystimenni, þeir Sigurstein Másson, Jói Fel, Ómar Eyþór Úlfarsson og Guðmundur B. Pálmason, deila góðum ráðum með lesendum HÉR ER.

Ég greindist með geðhvörf þegar ég var nýorðinn 29 ára og þurfti þá að taka svefn, mataræði og hreyfingu alveg í gegn.

Var algjör efnishyggjupési og partígaur áður en hann snéri við blaðinu

Í samtali við HÉR ER segist Sigursteinn Másson, kvikmyndagerðarmaður og rithöfundur með meiru, vera búinn að einsetja sér að að komast í eitt besta form sem hann hefur verið í á ævinni. Hann kveðst ganga mikið þessa dagana, fara í ræktina fjórum til fimm sinnum í viku, stunda fjallgöngur af miklum krafti og reyna að gæta að mataræðinu með því að borða „að minnsta kosta 80 prósent meinhollt“, eins og hann orðar það. Hollt mataræði sé algjört lykilatriði í þessu samhengi. „Það er náttúrulega númer eitt og tvö,“ segir hann með áherslu. „Þar á eftir kemur svo hreyfingin.“

Sigursteinn bætir við að fyrir sig dugi hins vegar ekki að ganga endalaust, jafn vel þótt það sé á fjöll. „Það styrkir vissulega lungu og leggi,“ tekur hann fram, „en ekki efri hluta líkamans. Ég hef nefnilega oft rekist á fjallgöngugarpa með rýrar hendur, aumar axlir og engan brjóstkassa og þannig vil ég ekki vera,“ útskýrir hann. „Þess vegna skiptir líkamsrækt, eins leiðinleg og hún getur verið, mig gríðarlegu máli.“

Sigursteinn Másson, kvikmyndagerðamaður og rithöfundur með meiru er í besta formi lífs síns.

Neyddist til að huga betur að heilsunni

Spurður hvort honum hafi alltaf verið svona umhugað um heilsuna og að vera í góðu formi svarar Sigursteinn að lengst af, síðustu þrjá áratugi, hafi hann stundað einhverja líkamsrækt. Á meðan hann borðaði kjöt hafi hann hins vegar hugsað töluvert minna um hollustu og næringu. „Það hefur komið mikið með breyttum lífsstíl, síðustu fimmtán árin, að meðvitund mín um heilsu hefur aukist,“ segir hann.

Varð eitthvað til þess að Sigursteinn fór almennt að huga betur að heilsunni? „Ég neyddist einfaldlega til þess eftir veikindatímabil fyrir rúmum tuttugu árum ,“ svarar hann hreinskilinn. „Ég greindist með geðhvörf þegar ég var nýorðinn 29 ára og þurfti þá að taka svefn, mataræði og hreyfingu alveg í gegn.“

Spark í rassinn

Sigursteinn segir að það hafi tekið hann svolítinn tíma að átta sig á því en sú sjúkdómsgreining og það sem fylgdi hafi verið eitt kröftugasta spark í rassinn sem hugsast gat. Í dag sé hann óendanlega þakklátur fyrir sparkið.

„Þegar ég missti andlega heilsu um tíma varð ég að endurskoða tilveru mína frá A til Ö,“ lýsir hann. Ég hafði verið í þessu endalausa íslenska framakapphlaupi og var algjör efnishyggjupési og partígaur þegar að ljóst var að það var vegurinn að tortímingu minni,“ viðurkennir hann.

Sigursteinn kveðst ekki óska neinum þess sem hann gekk í gegnum á þremur síðustu árum tuttugustu aldarinnar, þegar hann var þrívegis á valdi geðhvarfanna, en hins vegar reyndist það vera akkúrat það sem þurfti til að hann færi að horfast í augu við sjálfan sig og axla ábyrgð, fyrst á andlegri- og svo líkamlegri heilsu sinni.

Mikilvægt að slá rétta tóninn í upphafi dags

En hvernig heldur Sigursteinn sér við efnið?

„Ég er meðvitaður um að það fyrsta sem ég læt ofan í mig á morgnanna er eldsneytið mitt inn í allan daginn,“ svarar hann. „Dagurinn minn ræðst af hollum og næringarríkum morgunverði. Það skiptir mig miklu máli að slá rétta tóninn í upphafi dags og ég gef mér alltaf góðan tíma í það. Ef ég geri þetta ekki er ég kominn í sykurfall um kvöldmatarleytið og þá bregðast allar sykurvarnir og vítahringur óhollustu tekur við.“

Hann segist hafa komist að því að það skiptir miklu máli að taka auka prótein bæði með morgunmatnum og eins eftir síðdegisæfingu. „Það hefur meiri áhrif en ég gerði mér grein fyrir hvort maður tekur prótein einu sinni eða tvisvar á dag. Og fyrir þau okkar sem borða ekki kjöt er brýnt að huga vel að próteinbúskapnum og borða þá meira af allskyns baunum, banönum, avókadó og öðrum próteinríkum afurðum.“

Hann reynir að vera vel meðvitaður um hvað virkar vel fyrir sig, hvort sem það er matur eða líkamsæfingar og hvað virkar ekki og greina þar á milli. „Sumir segja að of mikil áhersla sé lögð á að líkaminn sé í flottu formi en ég er þessu ósammála,“ segir hann. „Hylkið utan um sálina okkar sýnir hve mikla sjálfsvirðingu við höfum og hve mikla áherslu við leggjum á heilsusamlegt líf og það skiptir auðvitað máli.“

„Dagurinn minn ræðst af hollum og næringarríkum morgunverði. Það skiptir mig miklu máli að slá rétta tóninn í upphafi dags og ég gef mér alltaf góðan tíma í það. Ef ég geri þetta ekki er ég kominn í sykurfall um kvöldmatarleytið og þá bregðast allar sykurvarnir og vítahringur óhollustu tekur við.“

Ósiður að verðlauna sig með óhollustu

Þegar Sigursteinn er spurður hvort hann verðlauni sig fyrir að standa sig vel, hugsar hann sig um. „Á íslandi er talað um að gera vel við sig í mat og drykk,“ segir hann svo, „og þá er venjulega verið að meina mikið óhóf í hvoru tveggja. En ef þú spáir í það þá er í raun fáránlegur ósiður að verðlauna sig með óhollustu.“

Hann segir að hvergi í heiminum hafi hann séð jafn mikið rými lagt undir sælgæti og ruslfæði en matvöruverslunum á Íslandi. „Nú þegar hálf þjóðin er lögst í flensu ofan í kófið þá væri ráð að við reyndum að tengja saman tvo einfalda punkta: hollt mataræði og bætta heilsu. Ég hef verið mikið á Spáni á síðustu árum þar sem fólk borðar vel og stundum mikið en hreyfir sig líka talsvert. Hér í þorpinu mínu eru til dæmis þrjár líkamsræktarstöðvar. Í hvert skipti sem ég kem heim til Íslands bregður mér við að sjá hve margt fólk er akfeitt og mér finnst þetta sífellt aukast. Allir ættu að vita að það að fara út að labba, í ræktina eða í sund dugar ekki út af fyrir sig heldur verður að taka mataræðið föstum tökum líka.

Hvernig heldur Sigursteinn sér á beinu brautinni þegar kemur mataræði?

„Það er engin bein braut,“ svarar hann ákveðinn. „Meðvitundin er kannski aðalatriðið. Að muna hver maður er, hvaðan maður kemur og hvert maður ætlar. Þegar ég dett í súkkulaðið þá þarf ég að muna hvernig mér leið síðast þegar ég borðaði heilt súkkulaðistykki. Hve illa ég svaf og meltingartruflanirnar. Nú orðið hnerra ég þegar ég borða súkkulaði sem er ágætis áminning. Þess vegna læt ég kannski tvo bita nægja og fæ mér svo epli.“

Meðvitundin er kannski aðalatriðið. Að muna hver maður er, hvaðan maður kemur og hvert maður ætlar. Þegar ég dett í súkkulaðið þá þarf ég að muna hvernig mér leið síðast þegar ég borðaði heilt súkkulaðistykki. Hve illa ég svaf og meltingartruflanirnar. Nú orðið hnerra ég þegar ég borða súkkulaði sem er ágætis áminning. Þess vegna læt ég kannski tvo bita nægja og fæ mér svo epli!

Er alls enginn engill

Sigursteinn segist samt ekki ætla að þykjast vera einhver engill í þessum efnum. „Ég dett í það stundum í óhollustu,“ játar hann. „En snýst þetta ekki annars um það að reyna,“ spyr hann jafnóðum. „Reyna að gera betur og læra af hverri reynslu; velta því fyrir sér hvenær manni leið vel eftir mat og hvað það var sem maður borðaði þá og hvenær illa og hvað maður asnaðist þá til að láta ofan í sig.“

Hann viðurkennir að „fíkniefnið“ sykur hafi alveg ákveðin tök á sér þótt hann reyni að vera meðvitaður um það og streitast á móti því. Þar spili ákveðið atvik inn í. „Ég gleymi því aldrei þegar afganskur flóttamaður, sem ég hef aðstoðað í nokkur ár, fór í fyrsta sinn ævinni til tannlæknis á á Íslandi þá 21 árs gamall og engin tannskemmd fannst og ekkert þurfti að gera við. Í fátæka fjallaþorpinu hans var aldrei neinn sykur. Svo einfalt er það. Þar af leiðandi verðlauna mig heldur með góðu rauðvínsglasi en ís,“ segir hann og brosir.

Engin millileið ef maður vill ná árangri

En á Sigursteinn einhver ráð handa fólki sem vill hreyfa sig meira?

„Ekki vera of góð við ykkur. Þjáningin hefur tilgang þegar uppbygging er annars vegar. Það er alltof lítið að hreyfa sig tvisvar eða þrisvar í viku. Í besta falli viðheldur það því lélega formi sem þú ert í,“ bendir hann á.

„Fyrir mig er áreynslan og hreyfingin í forgangi ásamt með mataræðinu og svefninum,“ upplýsir hann. „Það er engin millileið í því ef maður vill ná árangri og þá er ég ekki að tala um eitthvað keppnisform heldur bara gott form. Það frábæra við þetta er að þegar maður er kominn af stað og í gírinn þá eru áhrifin á andlega vellíðan, afköst, einbeitingu og jákvætt hugarfar svo ótrúlega mikil. Það er stóri bónusinn.“

„Þetta er vinn-vinn!"

Spurður hvernig sé best fyrir nýliða að koma sér af stað segist Sigursteinn telja að langir göngutúrar annan hvorn séu ágætis byrjun. „Og drullast svo til að taka árskortið í líkamsræktina upp úr skúffunni og gefa sér klukkutíma í senn, fjórum til fimm sinnum í viku, til að mæta í æfingatíma,“ bætir hann við ákveðinn.

Sigursteinn segir að sund með sé frábært en það þurfi, eftir því sem hann telur, að synda mikið, hratt og langt til að ná sama líkamlega árangri og maður getur náð í þróuðum líkamsræktartækjum. Hann segist þó ekki vita þetta fyrir víst enda finnist honum persónulega leiðinlegt að synda og hoppi því beint í heita pottinn.

Hann bætir við að ekki megi gleyma að í flestum líkamsræktarstöðvum sé líka boðið upp á spinning, yoga, Zumba og fleira sem sé gráupplagt. „Nú heyri ég einhvern emja um að hann hafi ekki klukkutíma aflögu á dag, en þá er bara að slökkva klukkutímanum fyrr á tölvunni eða sjónvarpinu og fara þeim mun fyrr að sofa,“ segir hann sposkur. „Þetta er vinn-vinn!“

Svo er það auðvitað mataræði, minnir hann á.

Skiptir það í alvöru svona miklu máli?

„Næstum því öllu máli.“

En er eitthvað sem Sigursteinn forðast eftir fremsta megni?

„Lakkrís! Ég forðast hann orðið eins og heitan eldinn. Eins og ég elskaði nú íslenska marsipanlakkrísinn!“

Tilfinning sem hann gleymir seint

Guðmundur B. Pálmason, eða Gummi Kíró eins og hann er gjarnan kallaður, hefur verið duglegar að mæta í ræktina alveg síðan hann var unglingur. Hann viðurkennir að í upphafi hafi markmiðið einfaldlega verið að verða vöðvastæltur. Nú sé tilgangurinn að viðhalda góðri líkamlegri heilsu og líta vel út á miðjum aldri.

„Ég byrjaði mjög ungur að æfa handbolta og körfubolta þangað til vaxtarrækt og crossfit tóku við,“ segir Gummi. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á æfingum og heilsu og það er helsta ástæða fyrir því að ég vann sem einkaþjálfari og fór síðan að læra kírópraktík,“ útskýrir hann og getur þess að þannig sé viðurnefnið Kíró einmitt til komið.

Voru einhverjar aðrar ástæður sem réðu því að Gummi fór að huga betur að heilsunni svona ungur?

Það kemur hik á hann, en svo kinkar hann kolli. „Þegar ég var 16 ára varð ég mjög nýrnaveikur,“ svarar hann alvarlegur í bragði, „og fann þá hvernig það er að missa heilsuna.“

Hann segist í kjölfarið hafa upplifað mikinn vanmátt, að hafa enga stjórn á eigin heilsu. Það sé tilfinning sem hann gleymi seint og vonar að hann þurfi aldrei að upplifa aftur. Þessi heilsubrestur hafi átt þátt í því að hann ákvað að setja heilsuna í forgang, fór að æfa og passa upp á mataræðið.

Þegar ég var 16 ára varð ég mjög nýrnaveikur og fann þá hvernig það er að missa heilsuna.

Veit hvað hentar honum

Gummi brosir þegar blaðamaður spyr hann nánar út í hið síðastnefnda. „Ég hef gengið í gegnum allskonar trend hvað mataræðið varðar,“ játar hann. „Þegar ég var að byrja í vaxtarrækt var aðalatriðið að allt væri fitusnautt og maður átti að borða fullt af kolvetnum. Svo breyttist það í lágkolvetnamataræði og fita var allt í einu orðin góð og svo framvegis og svo framvegis,“ segir hann og ranghvolfir augunum við tilhugsunina.

Í dag segist Gummi hafa lært betur inn á eigin líkamsstarfsemi og viti hvað henti sér. „Það sem hæfir mér er í raun ákveðið jafnvægi í fitu-kolvetnum-prótein inntöku,“ lýsir hann.

Þar að auki fastar Gummi í sextán tíma á sólarhring, en það gerir hann að eigin sögn til að halda sér á beinu brautinni í mataræðinu. „Ég hef þá átta klukkustunda glugga til að borða,“ útskýrir hann. „Þannig er ég meðvitaður um hvað ég vill borða til að líða vel og fá þá næringu sem líkaminn minn þarf á að halda til að byggja sig upp og viðhalda heilsu,“ lýsir hann nokkuð brattur og bætir við að þessi rútína henti sér fullkomlega. „Ég hef mikla orku og fullnýti eiginleika líkamans til að nota þá orku sem ég innbyrði.“

Þegar ég var að byrja í vaxtarrækt var aðalatriðið að allt væri fitusnautt og maður átti að borða fullt af kolvetnum. Svo breyttist það í lágkolvetnamataræði og fita var allt í einu orðin góð og svo framvegis og svo framvegis.

Lifir alls ekki einhverju meinlætalífi

Gummi bætir við að hann reyni líka að forðast sykur þó stundum geti vissulega verið erfitt að slá hendinni á móti girnilegum eftirréttum og sælgæti. Þegar blaðamaður bendir þá á að þetta sé nú allt farið að hljóma svolítið eins og hálfgert meinlætalíf skellir Gummi upp úr og vill alls ekki að einhver fari að lesa það út úr þessu viðtali. Þvert á móti segist hann verðlauna sig reglulega og finnist þá gott að fá sér ljúffengt kampavín eða rauðvín.

„Fyrir mér er lykilatriði að hafa góða rútínu hvað varðar svefn og mataræði og passa sig á því að fara ekki að líta á hreyfingu sem einhverja kvöð, heldur hlakka til þess að hreyfa sig og hafa gaman að því,“ segir hann.

„Mér finnst líka mikilvægt að sú hreyfing eða íþrótt sem maður stundar sé krefjandi af og til, en á sama tíma gæti ég þess að hlusta vel á líkamann til að reyna að forðast meiðsli. Stoðkerfisverkir geta nefnileg orðið til þess að fólk hættir að hreyfa sig. Þess vegna er svo ótrúlega mikilvægt að viðhalda liðleika og styrk.“

Gummi segist reyna að passa upp á það með því að fara sjálfur reglulega til kírópraktors. „Ég er alls ekki að vera með einhverja sölumennsku,“ flýtir hann sér að taka fram, „ en sannleikurinn er sá að þetta hefur hjálpað mér gríðarlega mikið til að losa um stífleika og bólgur í líkamanum og í raun bara viðhalda líkamlegri heilsu almennt.“

Svo margt skemmtilegt í boði

Að þessu sögðu hvetur Gummi þá sem vilja hreyfa sig meira til að finna hreyfingu sem þeir hafi gaman af. Hann segir að það skipti líka máli að hafa gott jafnvægi á hlutunum. „Ef þú hefur gaman af því að hlaupa eða hjóla þá skaltu gæta þess að lyfta lóðum líka til að viðhalda og auka styrk,“ nefnir hann. „Ef þú hefur aftur á móti gaman af því að lyfta lóðum þá skaltu líka gera þolæfingar.“

Eins sé áríðandi „að passa upp á endurheimt“ svo að fólk lendi ekki í meiðslum.

„Ef þú ert síðan byrjandi þá getur verið gott að prófa alls konar hluti til koma sér af stað,“ heldur hann áfram. „Vertu ófeiminn við það, því það er svo margt í boði. Líttu á hreyfingu og heilsu til lengri tíma, ekki til skamms tíma.“

Gummi segir að hugarfarið sé lykilatriði í þessu öllu saman, það haldi manni við efnið. „Lifðu í núinu svo að hver dagur geti orðið eins góður og hægt er. Ef ég sef vel, borða vel, æfi vel og hugsa vel um mína nánustu þá er ég sjálfur í góðu jafnvægi andlega og líkamlega,“ segir hann að lokum og brosir.

Búinn að vera í nánast sama formi síðan hann var 22 ára

Jóhannes Felixson, betur þekktur sem Jói Fel, hugar að heilsunni alla daga. Hann borðar hollt og reynir að mæta í ræktina á hverjum degi. „Stundum næ ég stuttri æfingu, en að mæta skiptir öllu máli,“ segir Jói, þegar hann er spurður að því hvernig hann fari að því að halda sér alltaf í svona góðu formi. Hann bætir við að þetta sé „allt í hausnum á okkur". Innst inni vitum við alveg hvað þurfi til að halda sér í formi.

„Það þarf að hafa markmiðin á hreinu og vera búinn að ákveða að mestum hluta hvað á að taka sér fyrir hendur á æfingu og hvað á að borða á hverjum degi,“ tekur Jói enn fremur fram.

Hann segir þetta vera algjört grundvallaratriði upp á það að vera í góðu formi. „Auðvitað gengur það ekki alveg upp alltaf,“ viðurkennir hann fúslega fyrir blaðamanni. „En þá skiptir svo miklu máli að vita af því og reyna að gera eins vel úr því og hægt er.“

Hann segir að þetta sé nokkuð sem fólk þurfi að hafa í huga, sérstaklega þeir sem vilja fara að hreyfa sig meira. „Gott skipulag, það er aðalmálið; að vera helst búinn ákveða fyrir fram í hverri viku hvenær maður ætlar að æfa yfir daginn.“ Annars sé hætt við því að maður fari að verja tímanum í eitthvað allt annað.

„Hjá mér er þetta orðinn vani eða lífsstíll,“ heldur hann áfram. „Ef ég kemst ekki á æfingu finnst mér ég vera missa af einhverju.“

Hefur Jóa sjálfum alltaf verið umhugað um heilsuna?

„Já, alveg frá því ég man eftir mér. Ég byrjaði til dæmis að huga að mataræðinu mjög ungur og hef alltaf verið í íþróttum,“ svarar hann.

Hann segir að þaðan hafi svo leiðin legið í vaxtarrækt, en Jói keppti á sínu fyrsta móti 22 ára gamall og stóð þá á sviði með sjálfum Jóni Páli Sigmarssyni, sem var á sínum tíma krýndur sterkasti maður heims og var margfaldur heimsmeistari í kraftlyftingum. „Ég er búinn að vera nánast í sama formi síðan,“ upplýsir hann.

Munið síðan bara að við verðum ekki eins og Schwarzenegger, Bjössi í World Class eða Jói Fel á einu ári!
Jó Fel rekur veitingastaðinn Felino í Listhúsinu í Laugardal.

Eitt leiddi af öðru

Ekki vill Jói kannast við að eitthvað sérstakt hafi orðið til þess að hann fór að hlúa að heilsunni; hann kveðst alltaf hafa verið fílhraustur sem krakki og tekið þátt í flestum öllum íþróttum sem voru í boði.

„Það má kannski frekar segja að eitt hafi leitt af öðru og ég hafi bara fljótlega áttað mig á því hvað þyrfti til að geta verið í formi,“ útskýrir hann.

Hann segir að sem dæmi hafi hann byrjað að elda ungur að aldri til að finna út hvernig best er að gera góðan og hollan mat, nokkuð sem hann segist ekki geta undirstrikað nægilega hversu mikilvægt sé að hugsa út í vilji maður vera í góðu formi á annað borð.

„Mataræðið skiptir mjög miklu máli,“ segir hann með áherslu. „Það þarf huga vel að því allan daginn, frá morgni til kvölds. Aðalmálið er að vera á sem fjölbreyttustu mataræði. Huga vel að góðum kolvetnum, góðri fitu, próteini. Borða fjölbreytt mataræði, fisk, kjöt, grænmeti, heilkorn og eiga alltaf ávexti í skál til að grípa í.“

Laumar sér stundum í nammiskálina

Jói, sem er annálaður sælkeri og rekur veitingastaðinn Felino í Listhúsinnu í Laugardal, segir að fyrir sig sé mikilvægast að gera matinn helst allan frá grunni, nota eins fá aukaefni hægt er og brasa fæðuna ekki mikið. „Mér finnst gott að útbúa góðan íslenskan mat og blanda honum saman við Miðjarðarhafsmataræði,“ lýsir hann.

Á móti kveðst hann forðast unna matvöru eftir fremsta megni. „Því jafn vel þótt maður lesi á umbúðirnar þá veit maður ekki hvað hún inniheldur,“ útskýrir hann.

Jói er þó fljótur að taka fram að hann verðlauni sig alveg í mat, helst á hverjum degi, og þá aðallega með því að elda eitthvað hollt og gott.

„Stundum stel ég svo einum og einum mola úr nammiskálinni hjá konunni – það er að segja ef það er eitthvað eftir,“ hvíslar hann sposkur á svip.

Það geta ekki allir orðið eins og Bjössi í World Class

En gott skipulag, það er auðheyrilegt að Jói leggur mikið upp úr því þegar kemur að mat og hreyfingu?

Hann kinkar kolli. „Já, það er bara mjög mikilvægt að vera með allar tímasetningar á hreinu. Vera búinn að ákveða hvenær og hvað eigi að borða og klukkan hvað maður ætlar að æfa og setja það svo í forgang.“

Hann beinir síðan orðum sínum til þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í þessum efnum og hvetur þá til að kaupa sér líkamsræktarkort. „Mætið svo eins oft og þið getið,“ segir Jói, sem æfir sjálfur af kappi í World Class.

Hann brýnir fyrir fólki að setja sér þó ekki of háleit markmið heldur fara rólega af stað. „Gefið ykkur góðan tíma í þetta. Stundum er bara gott að mæta og fara í góða sturtu eða sund. Byrjunin er að mæta á staðinn og kynnast aðstæðum. Þetta snýst ekki um að klára bara mánaðarkortið og hugsa svo: hvað á ég nú að gera? Þetta á að vera eilífðarverkefni. Þetta er lífsstíll sem þarf að huga að alla ævi.“

Hann gerir hlé á máli sínu og glottir. „Munið síðan bara að við verðum ekki eins og Schwarzenegger, Bjössi í World Class eða Jói Fel á einu ári,“ segir hann. „Markmiðið er að vera sín besta útgáfa af sjálfum sér.“

Er loksins búinn að finna sína hillu

Ómar Úlfur Eyþórsson, dagskrárstjóri X977, er farinn að æfa líkamsrækt fjórum sinnum í viku til að halda sér í formi. Hann segir þó áríðandi að láta rútínuna ekki hlaupa með sig í gönur. Tilveran hrynji ekki þótt maður komist ekki alltaf í ræktina. Lykillinn að góðum árangri sé að halda áfram og stóla ekki á skyndilausnir.
Ómar Úlfur Eyþórsson segir lykilinn að góðum árangri sé að halda áfram og stóla ekki á skyndilausnir.

„Ég hef verið afskaplega lánsamur með heilsufarið í gegnum tíðina; hef sloppið að mestu við líkamstjón og veikindi. Ástæðan fyrir því að ég hreyfi eru bara þau jákvæðu áhrif sem hún hefur bæði á líkamlegu og andlegu heilsuna. Ég er miklu orkumeiri og betri andlega þegar að ég hreyfi mig - jafnvel þó að það sé brjálað að gera,“ segir Ómar þegar blaðamaður grennslast fyrir um ástæður þess að útvarpsmaðurinn fór að lyfta.

Ómar bætir við að ýmislegt fleira spili inn í þá ákvörðun, þar á meðal hækkandi aldur.

Hækkandi aldur? Blaðamaður virðir fyrir sér útvarpsmanninn unglega og hleypir brúnum.

„Mér finnst ég oftast nær vera kjarnorkuknúinn, orkustigið er - og hefur verið - mjög hátt og takmarkið er að halda því sem allra lengst,“ útskýrir hann.

Blaðamaður fær á tilfinningunni að eitthvað fleiri hljóti nú að búa undir en aldurinn, eða hvað?

Ómar dæsir. „Bumban stækkaði,“ viðurkennir hann þá og hlær.

Ég mæli heilshugar með því að fólk prófi að lyfta, þar fann ég mína hillu!

Tók mataræðið í gegn

Ómar segir að eftir að hann byrjaði að mæta reglulega á æfingar í þjálfunarstöðina Train Station hafi hann ákveðið að taka mataræðið í gegn. „Svoleiðis að nú reyni ég til dæmis eftir fremsta megni að forðast hvítan sykur,“ upplýsir hann. „Enda skýtur það skökku við að taka góða æfingu og gúffa svo í sig stórum bragðaref á eftir,“ bendir hann á.

Þannig að mataræði skiptir máli?

„Mataræði skiptir öllu máli.“

En hvernig heldur Ómar sér við efnið?

„Ég er nú svo sem enginn landsliðsmaður í kraftlyftingum,“ viðurkennir hann fúslega, „en galdurinn er að halda áfram og mæta. Ekki láta það stoppa þig þó að þú komist ekki alltaf og mætir kannski bara tvisvar sinnum á æfingu eina vikuna. Mundu að þetta er langhlaup.“

Verðlaunar hann sjálfan sig fyrir góða frammistöðu?

„Ég hef gert það allt mitt líf, en núna er ég að reyna að draga úr því. Draga úr nammiáti og þvíumlíku. Þannig að nú fer maður bara vonandi að sjá glitta í six pakkinn bráðlega. Það yrði auðvitað bestu verðlaunin,“ segir hann sposkur.

Ástæðulaust að vera spéhræddur

Þegar Ómar er beðinn um að ráðleggja fólki sem vill hreyfa sig meira er hann ekki lengi að hugsa sig um. „Ég mæli heilshugar með að það prófi að lyfta! Þar fann ég mína hillu eftir að hafa prufað ansi margt í þessum efnum. Ég er enn að læra, en maður á ekki að hræðast lóðin. Maður á að taka leiðsögn og æfa sig.“

Hann segist ennfremur vilja koma þeim skilaboðum á framfæri við byrjendur að það sé fullkomlega ástæðulaust að vera spéhræddur í ræktinni. „Treystu mér, það er hvort sem er enginn að spá í þér og þínum æfingum. Spéhræðsla er þar af leiðandi fullkomlega óþörf,“ segir hann.

Þá brýnir hann fyrir fólki að fara varlega í fótaæfingar í byrjun, sérstaklega ef að það er stigi heima hjá því. „Og lærðu nú æfingarnar áður en að þú ferð að hlaða lóðum á stönguna,“ segir hann með áherslu.

Lumar Ómar á einhverjum leyntrixum svona í lokin?

„Guðjón [Ingi Sigurðsson, innskot blaðamanns] og Sif [ Garðarsdóttir] hjá Train Station,“ svarar hann og brosir. „Þau eru mitt helsta leynitrix.“

Hér eru önnur áhugaverð heilsugrein.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu