Fara í efni

Gerður í Blush um kyn­lífið og róman­tíkina: „Þetta er lykill­inn að árangri"

Lífsstíll - 4. febrúar 2022

Gott ástarsamband getur hæglega fjarað út ef ástríðunni er ekki haldið gangandi. Gerður Huld Arinbjarnardóttir, eða Gerður í Blush eins og hún er gjarnan kölluð, segist hinsvegar kunna nokkur skotheld ráð við því.

„Ég held að númer eitt, tvö og þrjú sé að fólk taki ástríðu í sambandi ekki sem sjálfsögðum hlut. Ástríða er nefnilega ekki sjálfsprottin, heldur þurfum við að kynda undir hana og hlúa að henni,“ segir Gerður, þegar hún er spurð hvort hún lumi á ráðum til að krydda kynlífið og viðhalda neistanum í langtímasambandi.„

Farið á stefnumót. Komið makanum á óvart. Forðist að gagnrýna hann og verið frekar dugleg að hrósa honum. Stundið sameiginlegt áhugamál. Talið um kynlífið ykkar. Takið létt spjall eða knúsist þegar þið eldið kvöldmat saman til að ná tengingu; smá tími á hverjum degi, þess vegna bara 10 mínútur, þar sem þið eruð ekki í hlutverki foreldra eða vinnufélaga og leyfið ykkur að vera par. Þetta þarf alls ekki að vera flókið.
Gerður í Blush var á dögunum valin markaðsmanneskja ársins.

Þetta eru allt atriði sem Gerður segir hafa nýst henni vel til að varðveita neistann í eigin sambandi og hún mælir með að fólk prófi. „Mér finnst mjög mikilvægt að hlúa að sambandinu mínu. Ég og kærastinn minn, Jakob, við vinnum saman alla daga og pössum þess vegna upp á að minna hvort annað á að við erum ekki bara vinnufélagar heldur par líka. Það kemur fyrir að við gleymum okkur en við reynum að spjalla eða gera eitthvað og eiga góð stund, alla vega eitt kvöld í viku, án þess að láta sjónvarpið eða síma trufla.“

Hún segir þau kærustuparið enn fremur vera meðvituð um að í samböndum beri báðir aðilar (eða fleiri sé málum þannig háttað) ábyrgð á því að viðhalda ástríðunni og spennunni. Lykillinn að árangri séu samskipti og það að halda góðu jafnvægi á milli vinnu, fjölskyldu, vina, áhugamála og auðvitað sambandsins. Brýnt sé að næra þessa fimm mikilvægu þætti í lífinu, þó án þess að einn fái meira vægi en annar, til að hlutirnir gangi upp.

Full ferðataska af kynlífstækjum

En hvernig skyldi Gerður láta ást sína í ljós? Hvað gerir hún til að tjá betri helmingnum hug sinn?

„Það eru alls konar leiðir fyrir hendi,“ svarar hún og brosir. „Stundum get ég verið ofsalega rómantísk og bókað fyrir okkur herbergi á hóteli yfir helgi og fylli þá tösku af kynlífstækjum og sexí undirfötum til að hafa meðferðis. En yfirleitt elda ég góðan mat, dimmi ljósin og kveiki á tónlist. Ég veit nefnilega að Jakob kann vel að meta rólega kvöldstund heima. Við erum bæði svo nægjusöm og heimakær,“ játar hún.

„Stundum förum við líka í Blush saman og verslum. Já, ég veit það hljómar kannski furðulega þar sem við eigum fyrirtækið,“ flýtir hún sér að segja og hlær. „En okkur finnst mjög skemmtilegt að velja okkur tæki saman og fá starfsfólkið til að mæla með einhverju. Vöruúrvalið er svo mikið og það er heill hellingur af tækjum sem við höfum aldrei prófað og oft mælir starfsfólkið með einhverju sniðugu sem hefur slegið í gegn.“

Þess utan segir Gerður þau kærustuparið vera með þá reglu að hafa parastund á hverjum degi og vera með vikulegt „date night“ heima. „Einu sinni í mánuði förum við síðan eitthvert saman, út að borða og í leikhús eða á hótel yfir helgi og árlega förum við í rómantíska, barnlausa ferð erlendis. Það er lágmarkið en stundum förum við oftar á stefnumót eða hótel. Það er ágætt að hafa smá ramma - til að gleyma sér ekki.“

Kynlífsráð sem klikka ekki

Spurð hvort Gerður eigi einhver ráð til að krydda kynlífið er hún ekki lengi að hugsa sig um. „Númer eitt: Ræðið kynlífið við makann. Það er frábær og lærdómsrík aðferð til að bæta kynlífið,“ segir hún með áherslu og mælir með Forleikspilinu frá Blush; það sé gott verkfæri til að opna umræðuna. „Það er ekki óalgegnt að pör eigi erfitt með að ræða um kynlíf, enda er það ekki hluti af uppeldinu sem við fáum eða eitthvað sem er kennt í skóla þannig að spilið getur verið frábær lausn til að hefja samtalið eða taka það lengra.“

Næst á lista Gerðar er notkun kynlífstækja. 

Það er svo mikilvægt fyrir kynhvötina og ástríðuna í samböndum að allir aðilar í sambandinu upplifi fullnægjandi kynlíf. Margir eiga hins vegar erfitt með að fá fullnægingu með maka og þá koma kynlífstækin sterk inn. Þau gera kynlífið spennandi og færa oft aukinn hita í leikinn. Enda gott að muna að kynlíf er leikur þar sem allir leikmenn eiga að fá tækifæri til að skora.

Notið sleipiefni, segir hún svo. Það sé allt of vanmetið. Hvort sem fólk stundi kynlíf með öðrum eða sjálfu sér þá sé sleipiefni nokkuð sem eigi að vera til á öllum heimilum.

„Það gerir alla snertingu miklu mýkri og notalegri og flestir sem nota sleipiefni segjast eiga auðveldara með að fá fullnægingu,“ lýsir hún og getur þess að hjá Blush sé Uberlube vinsælasta sleipiefnið. Hafi fólk ekki prófað það þá mæli hún með því.

„Leyfið ykkur að vera kynverur. Kynnist ykkur betur með það að markmiði. Stundið sjálfsfróun til að læra inn á líkama ykkar og átta ykkur á hvað þið fílið. Lærið líka hvað gerir það að verkum að ykkur finnst þið vera sexí, hvort sem það er að dansa, fara í bað eða klæðast kynæsandi undirfötum og svo framvegis. Það skiptir ekki máli hvað það er, svo lengi sem það lætur ykkur líða vel þá mæli ég með að þið gerið meira af því.“

Þá varar Gerður við því að kynlífið verði að of mikilli rútínu. „Ef kynlífið okkar er alltaf eins, sama stellingin á sama staðnum, þá getur það orðið óspennandi. Þess vegna er mikilvægt að prófa sig áfram, hvort sem það er með kynlífstækjum, nýjum stellingum eða nýjum stað á heimilinu.“ Sjálfri finnst henni ágætis viðmið að eiga svokallað „svefnherbergiskvöld“ einu sinni í mánuði; fara þá snemma upp í rúm, tala um kynlíf og prófa kynlífstæki og nýjar stellingar. „Taka góðan tíma í forleikinn og eiga svo notalega stund eftir kynlífið og ræða hvað kveikti i ykkur og hvað þið mynduð vilja gera meira eða minna af,“ segir hún.

Gerður mælir með notkun sleipiefna. Það geri alla snertingu miklu mýkri og notalegri og flestir sem nota sleipiefni segist eiga auðveldara með að fá fullnægingu. Lyfja, 1.632 kr.

Lærði lexíu á fyrsta matardeitinu

Þegar Gerður er í lokin beðin um að deila atviki þar sem hún sýndi rómantíska tilburði sem slógu í gegn ljómar hún. 

„Ætli það sé ekki þegar ég skipulagði afmælisferð fyrir Jakob til Bandaríkjanna, með aðstoð vinar míns. Þetta var hans fyrsta heimsókn þangað og plönuð sem rómantísk lúxusferð; við létum stjana við okkur, fórum í þyrluflug, skoðunarferðir, í dekur og út að borða. Við tölum ennþá um þessa ferð, hvað hún hafi heppnast vel í alla staði og hvað okkur langi mikið til endurtaka leikinn einhvern tímann.“

Gerður viðurkennir þó fúslega að rómantísku tilburðirnir hafa ekki allir verið jafn vel heppnaðir og minnist sérstaklega atviks þar sem þeir fóru bókstaflega út um þúfur. „Ég gleymi aldrei þegar við Jakob vorum að byrja saman og ég bauð honum heim í mat í fyrsta skipti,“ segir hún og hlær að tilhugsuninni.

„Það skal tekið fram að ég elska að elda og ver miklum tíma í eldhúsinu og þarna var ég búin að monta mig af því við Jakob hvað ég væri góður kokkur. Það fór hins vegar ekki betur en svo að þegar hann mætti þá var ég grátandi inn í eldhúsi af því að heimagerða bernaise-sósan, sem átti að vera með nautasteikinni sem ég var að elda, hafði klúðrast og ég átt ekkert til að redda mér. Jakob var hins vegar ekki lengi að bjargar því, brunaði bara á bílnum beinustu leið út í búð og keypti pakkasósu.“

Til að endurtaka ekki mistökin segist Gerður síðan þá hafa fullkomnað þá list að búa til góða bernaise-sósu.

„Ætli það sé ekki einstaklingur sem þorir að vera einlægur og berskjaldaður,“ segir Gerður, spurð hvað kveiki helst í henni. „Þorir að vera hann sjálfur og á ekki erfitt með að tjá tilfinningar. En svo er það líka þetta klassíska, fallegt bros og húmor.“

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu