Fara í efni
Kynfræðingurinn Sigga Dögg í spjalli

Hvernig kynlíf viltu raunverulega stunda?

Lífsstíll - 28. apríl 2022

Erum við almennt ánægð með kynlífið sem við erum að stunda? Eða er kannski munur á kynlífinu sem við erum að stunda og kynlífinu sem okkur langar innst inni að stunda? Ef svo er, hvað er til ráða? Blaðamaður HÉR ER settist niður með Siggu Dögg kynfræðingi og fyrirlesara og ræddi málin.

Sigga Dögg, sem er þekkt fyrir að ræða tæpitungulaust um kynlíf og samskipti kynjanna, byrjar á því að segja að það sé í raun gott fyrir fólk að spyrja sig fyrst að því hvort það sé yfirhöfuð ánægt með kynlífið áður en það spyr sig að þessu. Hvort því finnist það kynlíf þá vera gott eða hvort það viti að til er betra kynlíf? Eða hvort það hugsi að svona sé kynlíf bara og það hafi ekki meiri væntingar til þess eða setji kynlíf ekkert í stærra samhengi. Hugsi að svona eigi hlutirnir bara að vera. Svona hafi þeir alltaf verið. Af hverju að breyta til.

Sigga Dögg segir að það sé hollt fyrir fólk að pæla svolítið þessum atriðum í áður en það fer að velta fyrir sér hvers konar kynlíf það vill í raun og veru stunda.

Þegar kemur að kynlífi og hvers konar kynlíf við erum að stunda og hvers konar kynlíf við viljum stunda þá þarf að horfa á hlutina í ótrúlega stóru samhengi og svolítið brjóta þetta niður.
Sigga Dögg, kynfræðingur og fyrirlesari.

Spurningin krefjist þess að fólk staldri við og spyrji sig fleiri nauðsynlegra spurninga. Spurninga á borð við af hverju það stundi kynlíf? Fyrir hvern það stundi kynlíf? Hvaða væntingar og kröfur það geri til kynlífs? Hvaða væntingar og kröfur það eigi að gera til sín sem bólfélaga - og til bólfélaga sinna? Hvernig það hugsi um kynlíf, hvað það langi til að fá út úr kynlífi og síðast en ekki síst hvað það komi með inn í kynlífið.

Misjafnar þarfir og þrár

Sigga Dögg bendir á að fólk í sambandi verði síðan að skoða hvort kynlífið sem það vill stunda samræmist því kynlífi sem maki þess eða bólfélagi er tilbúinn að stunda með því. Það fari nefnilega ekkert endilega alltaf saman. Þá hafi þeir sem ekki eru í sambandi gott af því að skoða sjálfan sig og „samband sitt við sig sem bólfélaga“ þegar þeir stunda sjálfsfróun. Sigga Dögg segir að það sé mjög mikilvægt.

Annað sem fólk þarf svolítið að skoða í þessu samhengi, er hvernig það sinnir sjálfu sér í kynlífi. Fólk þarf að spyrja sig: Hvernig ábyrgð tek ég á mér? Hvernig ábyrgð tek ég á mínum unaði og mínum löngunum, hugsunum og fantasíum.

Að mati Siggu Daggar vill þetta nefnilega oft gleymast svolítið, þessi ábyrgðarhluti sem hvíli á okkur sjálfum þegar kemur að kynlífi. „Að við ræktum það samband við okkur sjálf og skoðum okkur í þessu samhengi. Að við setjum okkur mörk, virðum mörk og tölum um það þegar mögulega er farið yfir mörk. Að við tökum ábyrgð ef við förum mögulega yfir mörk og förum í gegnum það samtal,“ bendir hún á.

Fæstir spá í kynlífinu af alvöru

Sigga Dögg segir að þetta sé svo ótrúlega stórt, að setjast niður og pæla í kynlífinu sínu. Hinsvegar sé það því miður nokkuð sem fæstir geri. „Flestir í raun og veru einhvern veginn gera það sem þeir gera og setja kannski ekkert sérstakt spurningarmerki við það,“ lýsir hún. „Hugsanagangurinn er kannski á þá leið að ef eitthvað virki þá virki það. Fólk hefur kannski bara það viðmið að ef það fær fullnægingu þá sé það nóg.“

Vandinn við þetta sé að fólk sé þá kannski ekkert mikið að velta fyrir sér hvort tengingin gæti verið dýpri í kynlífinu eða fjölbreytileikinn meiri eða hvort það vilji yfirhöfuð upplifa meiri fjölbreytileika í kynlífi.

„Og ekki misskilja mig, það þarf ekkert að rugga bátnum, eða fara í öllu sterkustu kryddin ef enginn áhugi er fyrir því,“ flýtir hún sér að taka fram. „Ef þú ert í ótrúlegri sátt/ur við þitt kynlíf og manneskjan sem þú ert með er líka sátt við kynlífið sem er verið að stunda þá þarf ekki, eins og ég segi, að rugga neinum bát.“

Flestir í raun og veru einhvern veginn gera það sem þeir gera og setja kannski ekkert sérstakt spurningarmerki við það. Hugsanagangurinn er kannski á þá leið að ef eitthvað virki þá virki það. Fólk hefur kannski bara það viðmið að ef það fær fullnægingu þá sé það nóg.

Á ekki að vera ógnandi eða hættulegt

Sigga Dögg segist samt vera þeirrar skoðunar að það sé alltaf heilbrigt og hollt fyrir fólk að skoða hvernig því líður með kynlífið sitt; Velta fyrir sér hvernig kynlífið hafi verið, hvernig það sé orðið og hvert það sé að þróast.

„Samtal um kynlíf er alveg eðlilegasti hlutur í heimi,“ segir hún með áherslu. „Það á ekkert að vera hættulegt, eða ógnandi eða ögrandi. Það á að vera hægt að taka umræðuna á rólegu nótunum þar sem kynlífið er bara skoðað eins og hver annar hlutur í sambandinu. Það er bara heilbrigt að spá og spekúlera í þessu.“

Sigga Dögg segist hafa á tilfinningunni að fólkið, sem er hvað fordómalausast og opnast með kynlíf og eigi hvað auðveldast með að tala um það, leyfi sér ennfremur að hugsa um það. „Það er einmitt svolítið stór vinkill i í þessu, það er að segja þessi spurning hvort fólk leyfi sér að hugsa um kynlíf og þá hvernig,“ segir hún.

Ferðalag að kortleggja draumakynlífið

Sigga Dögg brosir og segir að það sé því heilmikil núvitundaræfing fólgin í því að reyna að grípa sjálfan sig og kortleggja í kynlífi. Að reyna að átta sig á hvað manni finnist um kynlíf og hvaðan þær hugmyndir komi, hvaða áhrif kynfræðslan í skóla hafi haft á mann, hvaða áhrif samtalið um kynlíf heima fyrir hafi haft, hvaða áhrif vinir og kunningjar hafi haft, hvaða setningar sitji eftir í kerfinu hjá manni, hvar veiku blettir manns séu staðsettir og að reyna að átta sig á því hversu berskjaldaður maður geti leyft sér að vera í kynlífi.

Hún bendir á að bara það eitt og sér að opna samtal um kynlíf hrindi í raun af stað „þúsund, milljón öðrum spurningum“. 

Það er svolítið ferðalag að reyna að kortleggja hvernig kynlíf maður vill stunda af því að við erum alltaf að uppgötva eitthvað nýtt í kynlífi. Fyrir utan að það sem okkur finnst gott í kynlífi getur breyst, rétt eins og áhugamálin, tónlistarsmekkurinn eða maturinn sem okkur þykir góður.

Til að fyrirbyggja allan misskilning tekur Sigga Dögg fram að með því eigi hún þó ekki við að fólk þurfi stöðugt að vera að skipta út bólfélögum. „Alls ekki. Staðreyndin er bara sú að við erum alltaf að læra eitthvað nýtt um okkur sjálf, skoða okkur, spegla okkur, upplifa, erum kannski með nýja skynjun eða ef til vill með nýja upplifun sem við tengjum meira eða minna inn á eftir því á hvaða tímabili við erum á. Þannig að eðlilega flæðir kynlíf inn og út úr því líka,“ útskýrir hún. „Við mannfólkið erum einfaldlega síbreytileg út ævina og það er því eðlilegt að við þróumst sem kynverur og mikilvægt að við leyfum okkur það.“

Við mannfólkið erum einfaldlega síbreytileg út ævina og það er því eðlilegt að við þróumst sem kynverur og mikilvægt að við leyfum okkur það.
Það eru ýmis spennandi verkefni framundan hjá Siggu Dögg, sem stefnir meðal annars á að opna streymisveitu á næstunni. „Ég vil ekki að segja of mikið í bili því hún er ekki farin í loftið. Eina sem ég get sagt er að þetta er kynlífsfræðslu-streymisveita fyrir fullorðna sem hefur fengið heitið Betra kynlíf og hún verður líklegast opnuð í maí,“ upplýsir hún og hvetur áhugasama að fylgjast með framvindu mála, en vefslóðin er betrakynlif.is

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Rakel í Snúrunni heldur jólabingó um helgina til styrktar bágstöddum í Úkraínu

Lífsstíll

Vellíðan er besta gjöfin (20% afsláttur í Lyfju)

Lífsstíll

Fræga fólkið gefur góð ráð: Leiðir að aukinni vellíðan

Lífsstíll

Salatið sem Jennifer Aniston borðaði á hverjum degi í 10 ár

Lífsstíll

Timberland með 25% afmælisafslátt

Lífsstíll

Kári Sverriss ljósmyndari er kominn á toppinn

Lífsstíll

Gíraðu þig upp fyrir Verzló

Lífsstíll

Morgunrútína landsþekktra kvenna