Fara í efni

Kári Sverriss ljósmyndari er kominn á toppinn

Lífsstíll - 4. ágúst 2022

Kári Sverrisson er einn af okkar allra bestu ljósmyndurum sem strögglaði nánast launalaust í mörg ár. Hann var alltaf með augun á boltanum og uppsker nú svo sannarlega því sem hann sáði. Hér er Kári í léttu spjalli en við fengum hann að sjálfsögðu líka til að sýna okkur það sem hann hefur verið að fást við upp á síðkastið. 

Kári Sverriss ljósmyndari.

Áhuginn kviknaði snemma

Áhuginn á ljósmyndun kviknaði snemma hjá Kára en hann dundaði sér við að framkalla myndir með afa sínum ungur að árum. „Þegar ég var lítill hjálpaði ég afa mínum að framkalla myndir í myrkraherberginu heima hjá honum en hann hafði mikinn áhuga á ljósmyndun og kenndi mér að taka myndir þegar ég var sirka átta ára. Ég átti ekki myndavél sjálfur þannig að þetta áhugamál gleymdist svolítið en mörgum árum seinna fór ég að vinna í Galleri 17 og fleiri verslunum innan NTC og þar kviknaði áhugi minn á tísku fyrir alvöru. Þá fór ég að sjá fyrir mér að geta tekið þetta áhugamál eitthvað lengra, því ég elskaði að kaupa mér tískutímarit og langaði að taka svoleiðis myndir. Ég keypti mína fyrstu myndavél árið 2005 og fiktaði við að taka myndir í mörg ár með hléum en það var svo árið 2012 sem ég ákvað að fara „all in“ og skrá mig í nám í ljósmyndun. Mig langaði til að fara til útlanda í nám til að stækka sjóndeildarhringinn og breyta um umhverfi. Það varð úr að ég fór í mastersnám í London College of Fashion sem er klárlega ein besta ákvörðun sem ég hef tekið,“ segir Kári sem hefur unnið sem ljósmyndari í fullu starfi allar götur síðan.

Fyrir sex árum byrjaði boltinn að rúlla fyrir alvöru og ég fór að mynda fyrir stóru tískutímaritin. Fyrir þremur árum þá fóru þekkt, alþjóðleg snyrtivörumerki að fá mig til að mynda fyrir sig herferðir en ég vann að þessu í sex ár með lítil laun en ég gafst aldrei upp. Það má því segja að ég sé að uppskera því sem ég hef sáð núna.
Það hefur verið krefjandi að koma sér á framfæri. Ég lærði það fljótt að það er enginn annar en ég sem mun sjá um það. Ég stritaði í mörg ár, nánast launalaus fyrstu sex árin en það var svo þess virði því í dag vinn ég við það sem ég elska og fæ borgað fyrir það.

Kári á erfitt með að segja hvað honum þykir skemmtilegast að mynda, því hann elskar að mynda allt, að eigin sögn. „Ég mynda mat, fólk, heimili og vörur og allt hefur sinn sjarma. Ég einfaldlega elska vinnuna mína og mér finnst svo gaman að ferðast út um allan heim að mynda. Ég er heppinn!“

Uppáhaldsfyrirsæta Kára er Meghan Collison en hún er ofurfyrirsæta sem sat fyrir hjá honum fyrir íslenska Glamour hér um árið. „Hún hefur verið mörgum sinnum framan á Vogue og setið fyrir hjá frægustu ljósmyndurum í heimi. Hún kom til landsins til að vinna með mér fyrir Glamour og hún var svo auðmjúk og næs, það var rok og rigning í þá daga sem við vorum að mynda og allar myndirnar voru teknar úti og hún kvartaði ekki einu sinni, var svo næs allan tímann og hún gaf sig 100% í djobbið.“

Hvað myndirðu segja við yngri sjálfan þig?

Vertu þú sjálfur, alltaf-alveg sama hvað öðrum finnst eða finnst ekki.

Með hverju mælirðu fyrir fólk sem hefur áhuga á að vinna sem ljósmyndari?

Að prufa sig áfram eins mikið og hægt er, gera gera gera. Aðstoða aðra sem eru lengra komnir og fara í nám.

Besta ráð sem þú hefur fengið?

Að vera maður sjálfur, og nýta bakgrunninn sinn, nýta reynsluna sem maður hefur.

Hvað er framundan?

Fullt af skemmtilegum hlutum, nokkur djobb hérna heima, svo mun ég ferðast til Búdapest, er með nokkur djobb í Þýskalandi og eitt mjög spennandi verkefni í Bandaríkjunum. Svo var ég að flytja og er að gera upp íbúð, ég elska að stílisera og gera upp íbúðir! Ef ég væri ekki ljósmyndari þá væri ég örugglega innanhússarkitekt. Er með nokkuð verkefni í gangi þar sem ég hjálpa fólki að gera upp íbúðir. Lífið er yndislegt!

 

 

Kári er einn fremsti tískuljósmyndari landsins

Spurður út í góða sögu úr bransanum segir Kári: „Ég er með svo margar! En mér er helst minnisstætt þegar ég fékk fyrirsætu frá New York til landsins í myndatöku en það fyrsta sem hún sagði þegar hún lenti var hvort ég gæti reddað henni nuddi því hún væri svo þreytt!  Ég vissi eiginlega strax að hún yrði smá pakki, allan tímann bjóst hún við að fá allt frítt og að allir myndu þjóna henni eins og drottningu. Við vorum reyndar að mynda í nóvember og það var ógeðslegt veður allan tímann, það var meira að segja snjóstormur þannig að þetta var ágætis áskorun en tókst mjög vel á endanum. Ég leyfði henni sem betur fer aldrei að finna það á mér að mér þætti hún vera áskorun.“

Matur í mynd

Starfið tekur Kára á áhugaverða og fallega staði víða um heim.
Vertu alltaf þú sjálfur, alveg sama hvað öðrum finnst eða finnst ekki!
Ég mæli með að prófa sig áfram eins mikið og hægt er, að gera, gera og gera meira. Svo er líka gott að aðstoða aðra sem eru lengra komnir og fara í nám.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu