Fara í efni

Kolbrún Pálína: „Fyrir mér er þetta tjáningarform“

Lífsstíll - 4. janúar 2023

Kolbrún Pálína, kynningarstjóri Icepharma, hefur í gegnum tíðina vakið athygli fyrir glæsilegan klæðaburð. Sjálf lýsir hún því þannig að stundum hafi hún þörf fyrir ró og klassísk föt á meðan önnur tímabil einkennist af litagleði, mynstrum, hugrekki og tilraunum. „Ég sæki innblástur frá öðru fólki, náttúrunni, tískublöðum, vafri á netinu og svo í raun fer þetta bara eftir skapi og líðan hverju sinni,“ segir hún. HÉR ER ræðir við Kolbrúnu Pálínu um fatastílinn, fyrirmyndir og það sem reynslan hefur kennt henni.

Hvernig myndir þú lýsa stílnum þínum?

„Stíllinn minn er lifandi, litríkur, kvenlegur með dassi af töffaraskap í bland. Ég elska sterka liti en þeir gera einfaldlega svo miklu meira fyrir okkur og svo er bara miklu skemmtilegra að klæðast þeim. Eins spila aukahlutir eins og skartgripir, fallegir treflar, húfur og hattar stórt hlutverk.“

Kolbrún Pálína er óhrædd við að klæðast litríkum fötum sem lífga upp á tilveruna.

Áttu þér tískufyrirmynd?

„Mín uppáhalds fyrirmynd þessa dagana er hin eina sanna og rúmlega hundrað ára Iris Apfel. Hún er svo frábært dæmi um það að aldurinn á aldrei að stoppa okkur í því að tjá okkur eins og okkur líður með fatnaði. Hún er sú allra óhræddasta við að blanda saman litum, formum og risa aukahlutum. Ég elska að fylgjast með henni og sjá hverju hún tekur upp á næst.“

Hin eina sanna Iris Apfel er mikil tískufyrirmynd og innblástur Kolbrúnar Pálínu þegar kemur að tísku og stíl.

En uppáhaldshönnuð?

„Ég fell án efa meira fyrir flíkum, litum og efnum heldur en hönnuðum. Mér finnst hinsvegar gaman að eignast einn og einn aukahlut frá stærri merkjunum eins og partý veski frá Karl Lagerfeld, trefil frá Gucci og svo framvegis.“

Hvaða íslenska hönnuð heldurðu upp á?

„Ég held ég ætli að nefna íslenska skartgripahönnuði því ég hef eignast einstaklega fallega skartgripi í gegnum tíðina eftir íslenska hönnuði á borð við Sign, Ólaf Stefánsson gullsmið, Siggu & Timo, Vera Design og fleiri.“

Vera Design er í uppáhaldi hjá Kolbrúnu en þetta fallega infinity-hálsmen er á óskalistanum. Meba, 17.590 kr.
Ég sæki innblástur frá öðru fólki, náttúrunni, tískublöðum, vafri á netinu, instagram og svo í raun fer það bara eftir skapi og líðan hverju sinni. Það er svo frábært að finna fatastílinn þróast með sjálfum sér og upplifa hann taka breytingum eftir því hvar maður er staddur í lífinu. Stundum hef ég þörf fyrir ró og klassísk föt á meðan önnur tímabil einkennast af litagleði, mynstrum, hugrekki og tilraunum.
Ljósmynd: Saga Sig.

Hvað finnst þér vera ómissandi í fataskápnum?

„Blazer-jakkar í öllum litum hafa komið mér ansi langt í gegnum árin. Þá getur þú alltaf treyst á klassískan grunn en skellt yfir þig geggjuðum blazer fyrir allskonar tilefni. Þess utan er nauðsynlegt að eiga klassískar og fallegar gallabuxur. Svört dragt í fallegu sniði kemur sér einnig vel, hvít skyrta, fallegir skartgripir sem skreyta tilveruna, klassísk taska og geggjuð sólgleraugu. Eins finnst mér miklu máli skipta að líða vel heima og legg því upp úr því að eiga falleg heimaföt, silkináttföt og góðan slopp.“

Á óskalista Kolbrúnar Pálínu

Taska frá Day, Karakter Smáralind, 20.995 kr.
Gallabuxur, Zara, 5.495 kr.
MAC, 9.990 kr.
Zara, 21.995 kr.
Mig dreymir líka um perluskreytta hælaskó frá Custommade!

Hverju veltirðu helst fyrir þér þegar þú kaupir þér eitthvað nýtt?

„Með aldrinum virðist fylgja einhver aukin skynsemi svo í dag þá verð ég að viðurkenna að ég velti hlutunum lengur fyrir mér áður en ég kaupi þá, stundum gera tveir, þrír dagar það að verkum að rökhugsunin tekur yfir og mig vantar flíkina allt í einu ekki alveg jafn mikið og í fyrstu. Í dag kaupi ég mér einna helst föt fyrir sérstök tilefni og þegar mig raunverulega vantar eitthvað. Ég notaði Covid í að minnka allverulega í fataskápnum og vanda mig betur að velja inn í hann í dag, sem er alveg rosalega skemmtilegt verkefni.“

Hver eru nýjustu kaupin?

„Það mun vera dásamlega fallega grænn Samsøe Samsøe -silkikjóll frá Evu sem var keyptur fyrir nýársfögnuð en er sömuleiðis hugsaður fyrir fleiri tilefni á nýja árinu.“

Með sambýlismanni sínum, Jóni Hauki Baldvinssyni í nýja, fagurgræna nýárskjólnum.

En bestu kaupin?

„Gullfalleg kápa sem ég fann í Gyllta Kettinum í aðventunni með loðkraga. Elska að finna gripi sem enginn annar á og gera góða kaup í leiðinni.“

Áttu þér uppáhalds flík?

„Nei, alls ekki. Engin flík á mig og engir hlutir heldur. Ég á hins vegar nokkrar flíkur sem mér þykir vænt um fyrir þær sakir að þær láta mér líða vel. En kápur og skór skora oft hæst hjá mér þar sem það setur svona punktinn yfir i-ið. Ég hef einmitt eignast litríkar kápur í gegnum tíðina sem mér þykir afskaplega gaman að klæðast.“

Er eitthvað sem þú gætir aldrei hugsað þér að klæðast?

„Föt sem skorta efni á hinum ýmsum stöðum eins og mikið er um í dag heilla ekkert sérstaklega.“

Hefurðu alltaf verið svona flott til fara?

„Takk fyrir hrósið! Ég held ég hafi alltaf haft hugrekki til að vera bara klædd sem ég sjálf þó svo að vissulega hafi maður orðið fyrir alls konar áhrifum á yngri árum. Þegar maður velur klæðnað sem manni líður vel í þá geislar maður eðlilega meira en ella. Fyrir mér er þetta tjáningarform, rétt eins og ég elska að raða fallega á matarborðið eða gera fallegt heima. Klæðnaðurinn minn er bara partur af því hver ég er sem manneskja.“

Stærstu tískumistök sem þú hefur gert?

„Þau snúa helst að því þegar maður var að prófa sig áfram á yngri árum og mætti í himinháum hælum í jóla fjölskylduboð og óþægilega stuttum pilsum. Allt í þágu tískunnar en svo leið manni bara alls ekkert vel í aðstæðunum.“

Hvað hefur reynslan kennt þér?

„Að leggja á sig að finna hvaða snið henta manni, að þora að blanda saman litum, að velja bara fyrir sjálfan sig.“

Glæsilegar mæðgur, Kolbrún Pálína og Tinna Karítas.

Lumarðu á góðu tísku-trixi sem þú ert til í að deila?

„Að hvíla föt um stund og taka fram aftur getur verið eins og að eignast nýjar flíkur. Svo er gott að útbúa sérstakan sumarskáp og annan fyrir vetrarflíkur svo að skápurinn sé ekki alltaf yfirfullur af fatnaði. Gott skipulag og að hugsa vel um fötin sín getur líka sparað mikla peninga. Byrjaðu nýja árið á að skipuleggja fataskápinn, fjarlægja óþarfa, bóka bás í Extraloppunni, gera lista yfir flíkur sem að þig vantar og dreifðu kaupum á draumaflíkunum yfir árið og geymdu fyrir góð tilefni.“

Byrjaðu nýja árið á að skipuleggja fataskápinn, fjarlægja óþarfa, bóka bás í Extraloppunni, gera lista yfir flíkur sem að þig vantar og dreifðu kaupum á draumaflíkunum yfir árið og geymdu fyrir góð tilefni.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu