Fara í efni

Morgunrútína landsþekktra kvenna

Lífsstíll - 7. júlí 2022

Aukin ánægja, orka, afköst og ferskleiki. HÉR ER heyrði í nokkrum þjóðkunnum konum og hamhleypum sem eru allar sammála um mikilvægi góðrar morgunrútínu til að koma sér í gang og takast á við verkefni dagsins.

Eldhúsgyðjan og áhrifavaldurinn Linda Ben.

Linda Ben: "Ég finn svo mikinn mun á mér"

Eldhúsgyðjan og áhrifavaldurinn Linda Ben, sem deilir hollum og góðum uppskriftum með lesendum á samfélagsmiðlum og vefsíðunni lindaben.is, er þekkt fyrir ótrúlegan dugnað, elju og sköpunargleði.
Í samtali við HÉR ER mælir Linda heilshugar með því að fólk komi sér upp öflugri morgunrútínu „sem grípur mann og keyrir mann ósjálfrátt áfram" enda sé mikilvægt að slá rétta tóninn í upphafi dags.

Hvenær fer Linda yfirleitt á fætur?

„Ég vakna yfirleitt 6.45 á virkum dögum. Elska þegar ég fæ að sofa aðeins lengur um helgar - gerist stundum.“

Ertu A eða B týpa?

„Ég er A týpa, finn fyrir mestri orku á morgnanna á meðan hausinn minn virkar ekki eftir klukkan 22 á kvöldin.“

Áttu auðvelt með að vakna, eða tekurðu þér góðan tíma í að fara fram úr?

„Ég vakna við uppáhalds tónlistina mína og því er það yfirleitt frekar auðvelt.“

Hvað þarftu mikinn svefn?

„Ég reyni að vera komin upp í rúm seinasta lagi klukkan 22-22.30 og er því oftast að ná 7-8 tímum.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnanna?

„Fæ mér vatnsglas og vek svo börnin mín.“

Morgunmaturinn?

„Ég var alltaf í vandræðum með hvað ég ætti að fá mér í morgunmat þangað til ég vandi mig á að fá mér grænan smoothie í morgunmat. Síðan í febrúar hef ég byrjað daginn minn á hreinsandi grænum morgundrykk og finn svo mikinn mun á líkamanum. Ég er ekki eins þreytt á morgnana og öll einhvern veginn ferskari. Mæli mikið með að venja sig á þetta. Það er algjörlega þess virði að eyða þessum 5 mínútum í að græja drykkinn.“

Kaffi eða te?

„Einn kaffibolli á morgnanna, svo grænt te um klukkan 10.“

Stundarðu heilsurækt á morgnanna?

„Ég hreyfi mig alla virka morgna, ég fer annað hvort í ræktina eða út að hlaupa. Það er mismunandi hversu löngum tíma ég ver í hreyfinguna, fer eftir því hversu mikinn tíma ég hef, en ég sleppi helst ekki æfingu, annars finnst mér dagurinn minn byrja algjörlega á afturfótunum og ég er ekki ég sjálf þann daginn. Ég er ennþá að vinna í því að koma hugleiðslu inn í morgunrútínuna mína. Ég er viss um að það muni takast hjá mér því ég finn hvað það gerir mér gott.“

Húðrútínan?

„Ég hreinsa alltaf húðina með góðum andlitshreinsi og næri hana svo með rakavatni, serumi og kremi. Ég set alltaf steinefnasólarvörn spf 50 á mig og leyfi henni að jafna sig á húðinni í 15 mín áður en ég set á mig farða, þannig er ég viss um að hún sé ekki að hreyfast til eða þynnast út í farðann.“

Hversu mikinn tíma þarftu á morgnanna til að undirbúa þig fyrir daginn?

„Þar sem ég vinn heima er undirbúningurinn fyrir daginn svolítið samofinn vinnunni minni, það er rosa mismunandi hvað það er að taka langan tíma. Ég fer í ræktina og kem við í búðinni á leiðinni heim til að kaupa í uppskriftirnar sem ég er að vinna í þann daginn. Fæ mér svo að borða og er að undirbúa uppskriftirnar á meðan, fer í sturtu og farða mig og svara emailum og skilaboðum á meðan. Síðan byrja ég að elda og mynda.“

Skiptir máli að slá rétta tóninn í upphafi dags?

„Það skiptir öllu máli fyrir mig slá rétta tóninn og vera með morgunrútínu þar sem ég vinn ein og það heima hjá mér. Sérstaklega á þeim dögum þar sem maður er bara ekki í stuði til að leggja hart að sér, þá er gott að vera með öfluga rútínu sem grípur mann og keyrir mann ósjálfrátt áfram.“

Mælirðu með að fólk komi sér upp morgunrútínu?

„Ég mæli heilshugar með því að fólk komi sér upp góðri morgunrútínu, lífið okkar byggir svo mikið á rútínum, hvort sem þær eru meðvitaðar eða ekki. Ég mæli með að bæta við einni góðri venju inn í einhverja rútínu sem er nú þegar til staðar og ekki bæta við annari venju fyrr en sú fyrri er orðin algjörlega áreynslulaus og samofin rútínunni og þannig vinna sig áfram koll af kolli.“

Finnst þér morgunrútína hjálpa þér að koma þér betur af stað inn í daginn?

„Alveg hundrað prósent.“

Ég mæli heilshugar með því að fólk komi sér upp góðri morgunrútínu, lífið okkar byggir svo mikið á rútínum, hvort sem þær eru meðvitaðar eða ekki. Ég mæli með að bæta við einni góðri venju inn í einhverja rútínu sem er nú þegar til staðar og ekki bæta við annari venju fyrr en sú fyrri er orðin algjörlega áreynslulaus og samofin rútínunni og þannig vinna sig áfram koll af kolli.

Hreinsandi smoothie að hætti Lindu Ben

Hreinsandi grænn morgundrykkur Lindu Ben.

Tobba Marinós: "Mikilvægt að byrja daginn í kærleik og rólegheitum

Eins og þeir vita sem til þekkja er Tobba Marinósdóttir athafnakona og frumkvöðull ótrúlegur dugnaðarþjarkur. Tobba, sem hefur í gegnum tíðina látið að sér kveða í fjölmiðlum og sent frá sér hverja metsölubókina á fætur annarri, á og rekur nú Granólabarinn á Granda við góðan orðstír og á dögunum sendu hún og Katrín Amni, eins eiganda Kavita ehf. frá sér hylki sem innihalda ýmsa ofurfæðu, sem kallast litabombur og hafa þegar hlotið góðar viðtökur.
Spurð hvernig hún fari eiginlega að því að koma þessu öllu í verk segir Tobba gott skipulag skipta höfuðmáli. Góð morgunrútína sé líka algjört möst og hjálpi henni að koma sér betur af stað inn í daginn.
Tobba Marinós, athafnakona með meiru.

Hvenær ferðu yfirleitt á fætur?

„Upp úr klukkan 7 ef sú yngsta leyfir en það er yfirleitt búið að vakna ansi oft um nóttina og orðin leikmannaskipti í öllum rúmum. Ég vakna oft í barnarúminu og heimasæturnar í hjónarúminu og Kalli hangir á bríkinni.“

Ertu A- eða B-týpa?

„A! Á erfitt með að vaka fram eftir.“

Áttu auðvelt með að vakna, eða tekurðu þér góðan tíma í að fara fram úr?

„Ég get skotist upp! Ég rek Granólabarinn og er því oftast mætt snemma til að pressa safa og mixa Kaffisjeik fyrir góða fólkið mitt á Grandanum.“

Hvað þarftu mikinn svefn?

„Nei, enda er það ekki í boði en það kemur.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnanna?

„Þvæ mér í framan með köldu vatn, fæ mér engiferskot og kveiki á kaffivélinni.“

Morgunmaturinn?

„Nýpressaður, sterkur rauðrófu- og engifersafi.“

Kaffi eða te?

„Alltaf kaffi! Með flóaðri haframjólk.“

Stundarðu heilsurækt á morgnanna?

„Ég fer í ræktina til Önnu Eiríks og dýrka það. Þess á milli hleyp ég og syndi. Hugleiðsla mín er einmitt hreyfing og eldamennska. Ég get ekki jóga - er alltaf að bíða eftir froskahoppunum.“

Húðrútínan?

„Ég gæti þess að þrífa húðina bæði kvölds og morgna, drekka mikið vatn og nota alltaf dagkrem með spf vörn. Svo hef ég fundið út að stress gerir mig ljóta hratt. Frunsa, fjörfiskur, bólur og bólgur. Líkaminn er svo klár, hann segir bara stopp ef ég er of stressuð.“

Hversu mikinn tíma þarftu á morgnanna til að undirbúa þig fyrir daginn?

„Ég á 3 og 7 ára dætur og er í eigin rekstri (nokkrum reyndar) svo ég er heppin ef ég er með maskara á báðum.“

Skiptir máli að slá rétta tóninn í upphafi dags?

„Já. Mér finnst mikilvægast af öllu að fólk segi góðan daginn, og heilsist fallega. Að byrja daginn í kærleik og rólegheitum er mjög mikilvægt.“

Mælirðu með að fólk komi sér upp einhvers konar morgunrútínu?

„Já, finndu það sem eykur hamingju þína og legðu rækt við það. Hollur og fallegur morgunverður, koss, kaffi í rúmið eða fallegt lag.“

Finnst þér morgunrútínan hjálpa þér að koma þér betur af stað inn í daginn?

„Já ég er mjög ofvirk og hraðinn á mér eykst yfir daginn. Ég þarf rólega byrjun til að hugurinn og líkaminn nái að fylgjast að.“

Ég á 3 og 7 ára dætur og er í eigin rekstri (nokkrum reyndar) svo ég er heppin ef ég er með maskara á báðum!
Olga Björt Þórðardóttir, fjölmiðlakona.

Olga Björt: Hugleiðsla og daður gerir gæfumun

Fjölmiðlakonan og dugnaðarforkurinn Olga Björt Þórðardóttir, sem tók nýverið við ritstjórn vefsíðunnar Sumarhúsið – Lífsstíll, hvetur fólk til að koma sér upp morgunrútínu. Sjálfri finnst henni gott að byrja daginn á hugleiðslu, góðri hreyfingu og jafnvel örlitlu daðri ef sá gállinn er á henni.

Hvenær ferðu yfirleitt á fætur?

„Á bilinu klukkan 6 – 7, langoftast.“

Ertu A eða B týpa?

„Algjör A týpa sem byrja að geispa eftir seinni fréttir.“

Áttu auðvelt með að vakna, eða tekurðu þér góðan tíma í að fara fram úr?

„Mjög auðvelt með að vakna, enda passa ég vel upp á gæði svefns.“

Hvað þarftu mikinn svefn?

„Sjö tíma að meðaltali á nóttu.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnanna?

„Les skilaboð til mín á samfélagsmiðlum sem eru langoftast yndisleg og góð fyrir hjartað í morgunsárið. Fer svo í sturtu ef ég gerði það ekki kvöldið áður.“

Morgunmaturinn?

„Ég borða yfirleitt ekki fyrr en á hádegi. Fæ mér stórt glas með volgu sítrónuvatni og Acidophilus-töflu. Svo útbý ég grænan djús sem saman stendur af frosnu spínati og alls kyns grænu káli, gúrku, myntulaufum (frosnum), sellerí og vatni. Skelli í blandara, sía vökvann frá hratinu og set í flösku sem ég tek með mér í vinnuna. Þetta er yfirleitt hálfur lítri.“

Kaffi eða te?

„Svart kaffi, svart te, Chai Latté, Turmerik-latté. Svo eru Yoga-tein í uppáhaldi, enda mikið úrval og gæðate.“

Heilsuræktin?

„Ég reyni að hugleiða á morgnana þegar ég drekk sítrónuvatnið og einblíni á hvað ég er þakklátust fyrir og heppin með. Það virkar. Stundum tek ég 15 mínútna æfingu á jógadýnu og verð alltaf rosalega fegin að hafa drullast til þess!“ 

Húðrútínan?

„Ég hreinsa alltaf farða af andliti áður en ég fer að sofa og nota ekki mikinn farða nema til hátíðarbrigða. Set á mig milt brúnkukrem einu sinni í viku og lita sjálf augabrúnirnar svipað oft. Ég hef lengi vanið mig á að hafa mig til á hverjum degi nema ég sé bara ónýt og veit að ég fer ekki út þann daginn. Það gerir svo mikið fyrir sjálfa mig að líta sem frísklegast og best út. Þá skiptir máli að drekka mikið vatn með engifersafa út í kvöldið áður. Það dregur úr andlitsbjúg.“

Undirbúningstími fyrir daginn?

„Ég er í mesta lagi 10 mínútur að farða mig og ef ég slétta hárið þá tekur það kannski korter í viðbót. Þannig að - í mesta lagi hálftíma.“

Skiptir máli að slá rétta tóninn í upphafi dags?

„Ó já, fyrsta hugsun á koddanum eftir svefn skiptir gríðarlega miklu máli vegna þess að hún er fyrirboði allra hugsana sem eftir er dagsins. Ef ég er þreytt og hef ekki náð nægum svefni, þá kem ég mér samt fram úr og jafnvel opna út á svalir og stíg aðeins út og horfi á útsýnið upp til fjalla eða himininn. Ég er mikill sólar-, skýja- og regnbogaaðdáandi. Það er dásamleg hugleiðsla að horfa þangað. Ég set líka oft í gang eitthvað af uppáhalds lögum mínum á Spotify og syng með eða flakka á milli morgunþátta útvarpsstöðvanna. Ég þekki orðið allt þetta góða fólk og á oft erfitt með að velja á milli.“

Mælirðu með morgunrútínu?

„Já ég mæli með sítrónuvatni, hreyfingu/teygjum, hugleiðslu og að leyfa sér að lesa falleg skilaboð. Það gefur mér líka mikið að senda falleg skilaboð, gjarnan í hljóðskilaboðum með blæbrigðum. Þau þurfa ekki að vera merkileg; bara að ég hafi verið að hugsa til viðkomandi eða óska góðs gengis, bata eða skemmtunar eða hvetja til dáða. Eða bara segja: „Æ mér þykir svo vænt um þig og langaði að segja það. Farðu vel með þig! Heyrumst!“ Og kannski daður hér og þar til valins fólks. Það er bara hollt!“

Hjálpar morgunrútínan þér að koma þér betur af stað inn í daginn?

„Fyrst og fremst fæ ég svakalega mikið út úr því að gefa af mér og það hjálpar líka á slæmum dögum. Fallegar hugsanir til fólks sem ég veit að vill mér vel og ég er þakklát fyrir að sé í lífi mínu. Stinga upp á spjalli síðar um daginn eða fljótlega í vikunni eða eitthvað. Búa til deit og hlakka til. Tilhlökkun er einn mikilvægasti geðhjálparinn.“

Það gefur mér mikið að senda falleg skilaboð, gjarnan í hljóðskilaboðum með blæbrigðum. Þau þurfa ekki að vera merkileg; bara að ég hafi verið að hugsa til viðkomandi eða óska góðs gengis, bata eða skemmtunar eða hvetja til dáða. Eða bara segja: „Æ mér þykir svo vænt um þig og langaði að segja það. Farðu vel með þig! Heyrumst!“ Og kannski daður hér og þar til valins fólks. Það er bara hollt!
Olga Björt, fjölmiðlakona. Mynd: Kristinn.
Eva Ruza, skemmtikraftur, kynnir, veislustjóri og áhrifavaldur með meiru.

Eva Ruza: "Fer í endorfínvímu inn í daginn"

Eva Ruza, skemmtikraftur, kynnir, veislustjóri og áhrifavaldur með meiru, var á árum áður svo mikil B-manneskja að móðir hennar hafði hreinlega áhyggjur af henni á tímabili. Með tilkomu eiginmanns og barna ákvað Eva hins vegar að snúa við blaðinu og segist ekki sjá eftir því. Lífið sé allt annað þökk sé góðri morgunrútínu.

Hvenær fer Eva yfirleitt á fætur?

„Ég er algjör morgunhani og er yfirleitt alltaf vöknuð um klukkan 7 á virkum dögum. Um helgar „leyfi“ ég mér að sofa aðeins lengur, sérstaklega ef ég hef verið að skemmta kvöldið áður. En ég er þá alltaf komin fram úr klukkan 9 því annars gæti ég misst af deginum. Börnin mín eru líka asskoti morgunhress sem gæti spilað inn í.“

Ertu A eða B týpa?

„Ég er A+ týpa, sem er í raun ótrúlegt þar sem ég var sirka B- týpa sem unglingur. Mamma hafði alltaf áhyggjur af því að ég myndi aldrei getað vaknað með börnunum sem ég ætti eftir að eignast. En svo komu börnin og A+ týpan kikkaði hratt inn hjá mér.“

Áttu auðvelt með að vakna, eða tekurðu þér góðan tíma í að fara fram úr?

„Ég er yfirleitt snögg að stökkva fram úr þegar klukkan hringir, því ég er búin að læra það að ef ég snooza þá verður það bara erfiðara. Það er langbest að sveifla sænginni hratt af án þess að hugsa og vaða af stað inn í daginn.“

Hvað þarftu mikinn svefn?

„Ég reyni alltaf að vera komin upp í rúm milli klukkan 22 og 23 og ná um 8 tíma svefni að minnsta kosti. Dagarnir mínir eru misjafnir og misjafnlega krefjandi og þess vegna er svefninn lykilatriði hjá mér til að viðhalda orkunni.“

Hvað er það fyrsta sem þú gerir á morgnanna?

„Það allra fyrsta sem ég geri er að fara sönglandi inn í herbergi til tvíburanna minna, klóra þeim aðeins á kollinum og koma þeim af stað inn í daginn. Hef mikla trú á að sönglandi mamma geri þau hressari.“

Morgunmaturinn?

„Hrein AB mjólk og múslí er alltaf negla. Ég get alls ekki byrjað daginn án þess að fá eitthvað í magann. Ég held að eitt stykki Eva Ruza væri stórhættuleg ef hún fengi ekki morgunmatinn sinn.“

Kaffi eða te?

„Ég hef aldrei verið mikil kaffi-manneskja en ég elska að fá mér einn cappucino á morgnanna með mömmu og svo þarf ég ekkert meira kaffi yfir daginn. Gæti alveg lifað án kaffibollans.“

Heilsuræktin?

„Morgnarnir eru alveg mínir. Eftir að börnin fara í skólann þá tek ég mína heilögu stund í æfingar. Ég vil hafa mikið tempó á æfingunum og elska Bootcamp mjög heitt og mikið. Þar fæ ég að blaðra (þjálfurum til mikillar mæðu stundum), hlusta á geggjaða tónlist og djöflast. Ég hef líka mikið verið að hlaupa sem er stórundarlegt því einu sinni hataði ég að hlaupa. En það er eins og með B- týpuna sem ég var. Maður þroskast víst eitthvað á lífsleiðinni. Það er líka svo geggjað að ná æfingu á morgnanna, því þá fer maður í endorfínvímu inn í daginn.“

Húðrútínan?

„Ég þríf andlitið alla morgna áður en ég farða mig og nota svo andlitsvatn og létt dagkrem. Núna er ég hins vegar farin að setja sólarvörnina áður en ég farða mig, þar sem sólin er komin hærra á loft. Ég vil hafa mína dags daglegu förðun létta og náttúrulega og hef notað Bronzing gelið frá Sensai síðan ég var sirka 16 ára. Ég vil alls ekki hafa þekjandi farða, og nota því concealer undir augun og á þá staði sem óvelkomnar bólur vilja birtast. Sólarpúður og maskari og skvís er klár í daginn.“

Hversu mikinn tíma þarftu á morgnanna til að undirbúa þig fyrir daginn?

„Ég þarf yfirleitt ekkert langan tíma - að eigin mati. Ekki spyrja manninn minn samt. Hann gæti gefið annað svar. Eftir æfingu er sturtan tekin, svo sulla ég farða á andlitið og hleyp af stað í verkefni dagsins. Yfirleitt þvæ ég hárið á mér á kvöldin þar sem það er jafn þykkt og mikið og makkinn á Múfasa (úr Ljónakóngingum) og ef það væri inn í morgunrútínunni þá tæki undirbúningur sirka klukkutíma.“

Skiptir máli að slá rétta tóninn í upphafi dags?

„Ójá. Mér finnst það eiginlega vera það mikilvægasta í upphafi hvers dags. Það er án gríns ekkert verra en að vakna alveg snar í skapinu. Ég er að eðlisfari létt i skapi og vakna því yfirleitt brosandi. En ég á alveg mína daga eins og allir og það er agalegt þegar tónninn er sleginn falskur. Ég nenni ekki svoleiðis rugli og reyni að spila réttu tónanna alla daga.“

Mælirðu með að fólk komi sér upp einhvers konar morgunrútínu?

„Ég er algjör rútínukella og elska að halda henni. Sérstaklega morgunrútínunni. Svo getur maður frístælað inn á milli. Ég held að allir hafi gott af einhverskonar rútínu og ég trúi því líka að það hjálpi til við andlega heilsu sem er svo gríðarlega mikilvæg á þessum hraða tíma sem við lifum á.“

Finnst þér morgunrútína hjálpa þér að koma þér betur af stað inn í daginn?

„Heldur betur. Eins og ég sagði áðan þá elska ég að halda minni beinu greiðu leið á morgnanna og mér finnst allir dagar betri ef ég næ æfingunum mínum.“

Ég er A+ týpa, sem er í raun ótrúlegt þar sem ég var sirka B- týpa sem unglingur. Mamma hafði alltaf áhyggjur af því að ég myndi aldrei getað vaknað með börnunum sem ég ætti eftir að eignast. En svo komu börnin og A+ týpan kikkaði hratt inn hjá mér.
Bronzing gelið frá Sensai, Hagkaup, 5.999 kr.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Jólahefð Siggu Heimis og vinkvenna slær í gegn

Lífsstíll

Jólin sem mörkuðu tímamót í lífi Dísellu: „Ekki hægt að hugsa sér betri jólagjöf“

Lífsstíll

Landsþekktir sælkerar reiða fram ljúffenga og haustlega rétti

Lífsstíll

Hlaupastíllinn

Lífsstíll

Komdu þér í gírinn fyrir versló!

Lífsstíll

Staðirnir sem íslenskir leiðsögumenn eru að missa sig yfir

Lífsstíll

Stjörnukokkar bjóða í grillveislu

Lífsstíll

Skotheld tips fyrir ferðalanga