Fara í efni

„Ólýsanleg tilfinning að loka svona kafla í lífinu“

Lífsstíll - 28. desember 2022

Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík segir árið sem er að líða hafa verið eitt það viðburðaríkasta í lífi hennar. Aldrei hafi verið dauð stund, hvorki í starfi né einkalífi. Árið 2022 hafi því kennt henni mikið og sú reynsla muni tvímælalaust nýtast sem veganesti inn í nýtt ár.

„Ég er mikið hugrakkari en áður. Lífið er nefnilega núna,“ segir Hildur Björnsdóttir í samtali við HÉR ER.

„Það er ekki nokkur einasta spurning. Árið sem er að líða færði mig vel út fyrir þægindarammann,“ segir Hildur brosandi þegar árið 2022 berst í tal. „Ég gerði hluti sem áður hefðu haldið fyrir mér vöku að næturlagi, en eru nú orðnir hversdagslegir,“ heldur hún áfram. „Ég lærði að ef maður þrammar vel fyrir utan þægindarammann, verður ramminn bara stærri, og óþægilegu svæðin færri. Hlutir eru sjaldnast eins erfiðir og ógnvekjandi og manni virðist í fyrstu. Við getum öll gert miklu meira en við höldum.“

Lífið getur haldið áfram og það getur orðið betra

Já, á síðustu mánuðum hefur dregið til ýmissa tíðinda í lífi Hildar og óhætt að segja að þeir hafi verið annasamir. Hún var kjörin oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í fjölmennu prófkjöri og leiddi flokkinn í fyrsta sinn í borgarstjórnarkosningum. Nokkrum mánuðum áður giftist hún manni sínum Jóni Skaftasyni og um mitt árið fékk Hildur síðan þau góðu tíðindi að hún væri laus úr fimm ára krabbameinseftirliti.

Þegar Hildur er spurð hvernig tilfinningin hafi verið að fá þær fregnir er hún fljót til svars. „Því fylgir auðvitað ólýsanleg tilfinning að loka svona kafla í lífinu. Það er sannarlega hvorki sjálfgefið né sjálfsagt,“ segir hún. „Ég tel mig auðvitað mjög lánsama því ég hef kynnst of mörgum sem hafa tapað baráttunni. Því miður hafa nokkrar vinkonur fallið frá á árinu eftir harða baráttu við krabbamein. Mér finnst þó alltaf mikilvægt að nefna að flestir þeirra sem greinast með krabbamein eru svo lánsamir að læknast aftur. Þetta vita ekki allir og ætti að vera þeim sem nú eru að veikjast hvatning og hughreysting um að lífið getur haldið áfram að lokinni krabbameinsbaráttu - og getur orðið betra og innihaldsríkara í kjölfarið.

En þó maður útskrifist úr svona ferli þá hugsa ég að maður útskrifist aldrei frá hræðslunni við að veikjast aftur. Ég reyni því að hugsa vel um heilsuna og gera það sem í mínu valdi stendur til að halda góðri heilsu áfram.“

Mér finnst þó alltaf mikilvægt að nefna að flestir þeirra sem greinast með krabbamein eru svo lánsamir að læknast aftur. Þetta vita ekki allir og ætti að vera þeim sem nú eru að veikjast hvatning.

Hætt að fresta því að láta drauma sína rætast

Hildur segist hafa dregið ákveðinn lærdóm af þessari reynslu. „Aðallega hvað lítið er stutt. Ekkert okkar veit hvenær okkar síðasta dag ber að garði. Ég er því hætt að fresta því að láta drauma mína rætast og hætt að fresta því að njóta hversdagsins. Ég er mikið hugrakkari en áður. Lífið er nefnilega núna.“

Hildur bætir við að eftir á að hyggja hafi það líka verið svolítið merkilegt að útskrifast úr þessu ferli á sama tíma og hún var borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins. „Þar skiptir litlu þó það markmið hafi svo ekki gengið eftir, heldur skipti mestu máli að fimm árum eftir að ég lauk krabbameinsmeðferð hafi ég haft heilsuna og hugrekkið til að fara í þetta framboð,“ bendir hún á, „með öllu því álagi og berskjöldun sem því fylgir.“

Hún segir að eflaust muni hún minnast ársins 2022 aðallega í samhengi við borgarstjórnarkosningarnar. „Mér finnst fátt skemmtilegra en að standa í kosningabaráttu þannig að þessar vikur og mánuðir voru einstaklega eftirminnilegir. Ég á eftir að minnast alls þess ótrúlega fólks sem lagði mér og Sjálfstæðisflokknum lið í prófkjöri og kosningum. Það er alveg einstakt að upplifa svona sterka liðsheild og finna kraftinn í fólki sem gefur vinnu sína í þágu góðs málstaðar. Maður getur aldrei þakkað nægilega fyrir það.“

Árið sem er að líða færði mig vel út fyrir þægindarammann. Ég gerði hluti sem áður hefðu haldið fyrir mér vöku að næturlagi, en eru nú orðnir hversdagslegir.

Fjölskyldan við hestaheilsu og hundurinn áfram óþægur

Hildur viðurkennir að árið hafi verið mjög erilsamt, svo erilsamt að þau fjölskyldan hafi ekki komist í neitt frí saman en úr því þurfi hins vegar að bæta á nýju ári. „Það er þó ekkert sem skiptir meira máli þegar litið er yfir árið en sú staðreynd að hversdagurinn gekk vel hjá fjölskyldunni, við vorum öll við góða heilsu, börnin blómstruðu í skólanum og hundurinn var áfram svolítið óþægur,“ segir hún og hlær.

Spurð hvort það sé alltaf svona mikið um að vera hjá fjölskyldunni brosir Hildur út í annað og segir að þau Jón eigi það sameiginlegt að hafa alltaf mörg járn í eldinum.

„Um leið og lífið fer að róast hjá okkur þá bætum við á okkur verkefnum. Það er eitthvað sem gerist algjörlega sjálfkrafa og hugsunarlaust,“ útskýrir hún.

„Mörgum í kringum okkur þykir nóg um, en við erum bæði þess eðlis að líða best þegar verkefnin eru mörg og krefjandi. Það er kannski undarlegur eiginleiki en sem betur fer eitthvað sem við skiljum í fari hvors annars.“

Ákvað ung að verða aldrei konan sem þrífur gardínur og skápa fyrir jólin

Nú er nýtt ár framundan. Hvað ætla Hildur og fjölskylda að gera um áramótin?

„Við systkinin, fimm af sex, hittumst yfirleitt um áramót heima hjá foreldrum okkar og höldum áramótin saman,“ svarar hún. „Þetta er orðinn ansi fjölmennur hópur með mökum og börnum og með ólíkindum að foreldrar mínir nenni að hýsa okkur ennþá. Fyrir mínum börnum eru áramótin hjá ömmu og afa orðinn ákveðinn hápunktur í jólahaldinu, jafnvel meiri hápunktur en aðfangadagskvöld. Eftir miðnætti er alltaf áramótabingó með misveglegum vinningum sem vekur alltaf sérstaka lukku hjá krökkunum.“

Eruð þið fjölskyldan með einhverjar hefðir?

„Ég ákvað ung að verða aldrei konan sem þrífur gardínur og skápa fyrir jólin,“ svarar Hildur og kímir. „Ég reyni eftir fremsta megni að hafa aðventuna og jóladagana eins áhyggjulausa og hugsast getur, og legg aðallega áherslu á að skapa góðar minningar með börnunum.“

Hún segir að það sem valdi helst áhyggjum sé sá árlegi atburður þegar maðurinn hennar mæti heim með alltof stórt jólatré sem hann byrji að saga á miðju stofugólfi. Það kalli almennt á stóíska ró af hennar hálfu.

„Hvað jólahefðir varðar held ég alltaf fast í þá ófrávíkjanlegu og mikilvægu jólahefð að setja hrein, hvít og rennislétt jólarúmföt á öll rúm á aðfangadagsmorgun,“ upplýsir hún. „Þá mega jólin koma fyrir mér.“

Langar að lesa meira og ganga á fleiri fjöll

Annars segir Hildur það leggjast vel í sig að hefja nýtt ár. Henni finnist það satt best að segja alltaf svolítið spennandi. Líti á það sem einhvers konar nýtt upphaf, uppfullt af nýjum tækifærum og þá aðallega sem gott tækifæri til að eiga góðar stundir með öllu sínu uppáhaldsfólki, setja kraft í vinnuna með sínum góðu félögum í borgarstjórnarhópi Sjálfstæðisflokksins og gera meira af því sem veiti henni ánægju.

Ætlar Hildur að strengja einhver áramótaheit?

„Ég hef ekki enn strengt áramótaheit,“ svarar hún, „en myndi gjarnan vilja lesa fleiri bækur á nýju ári, ganga á fleiri fjöll, hlaupa fleiri hringi í Heiðmörk, ferðast meira með fjölskyldunni og halda fleiri matarboð.

Ætli það lýsi ekki þörf fyrir að hafa árið 2023 örlítið rólegra en árið 2022, þó það verði aldrei nein lognmolla ef ég þekki mig rétt,“ segir hún og hlær.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Jólahefð Siggu Heimis og vinkvenna slær í gegn

Lífsstíll

Jólin sem mörkuðu tímamót í lífi Dísellu: „Ekki hægt að hugsa sér betri jólagjöf“

Lífsstíll

Landsþekktir sælkerar reiða fram ljúffenga og haustlega rétti

Lífsstíll

Hlaupastíllinn

Lífsstíll

Komdu þér í gírinn fyrir versló!

Lífsstíll

Staðirnir sem íslenskir leiðsögumenn eru að missa sig yfir

Lífsstíll

Stjörnukokkar bjóða í grillveislu

Lífsstíll

Skotheld tips fyrir ferðalanga