Fara í efni

Rakel í Snúrunni heldur jólabingó um helgina til styrktar bágstöddum í Úkraínu

Lífsstíll - 30. nóvember 2022

Rakel Hlín Bergsdóttir, eigandi Snúrunnar segir hinn eina sanna jólaanda snúast um að gefa af sér en hún ferðaðist til Úkraínu á vegum verkefnisins Jól í skókassa sem hefur meðal annars stutt með margvíslegum hætti við munaðarlaus börn og barnaspítala þar í landi. Mikil neyð ríkir í Úkraínu og þar sem henni var mikið í mun að gera hvað sem hún gat til að safna sem mestu ákvað hún í samstarfi við Smáralind að halda góðgerðarbingó á sunnudaginn kemur en öll upphæðin sem safnast rennur til málefnisins.

Jól í skókassa

Eins og fyrr segir hefur Rakel stutt við verkefnið Jól í skókassa en um hvað snýst verkefnið?

„Jól í skókassa hefur verið starfrækt í 19 ár og auk þess að safna jólagjöfum fyrir börn í Úkraínu hefur verkefnið staðið fyrir söfnunum og stutt með margvíslegum hætti heimili fyrir munaðarlaus börn og spítala. Má sem dæmi nefna kaup á nýjum rúmum, dýnum, leikföngum, hljóðfærum og hreinsivörum fyrir heimili þar sem munaðarlaus börn dvelja og einnig fyrir barnaspítala. Í nágrannasveitum Kirovohrad er atvinnuleysi gríðarlega mikið og ástandið enn verra eftir að stríðið hófst. Mikil neyð er því jafnframt hjá fjölskyldum sem þar búa og hefur verkefnið einnig stutt barnafjölskyldur með nauðsynjavörum eins og mat og öðru slíku.“

Hvernig kom það til að þú fórst að vinna fyrir verkefnið?

 „Ég var svo heppin að fá tækifæri til þess að vinna fyrir verkefnið árið 2013 þegar hún Áslaug Björgvins, dóttir stofnanda verkefnisins bauð mig velkomna að hjálpa til við pökkun á skókössum.“

Af hverju Úkraína á þeim tíma?

„Hann Björgvin sem kom verkefninu á fót á sínum tíma kynntist úkraínskum presti, sem sér um verkefnið úti, á ráðstefnu erlendis og úr varð þetta fallega verkefni sem hefur sent jólagjafir til Úkraínu allar götur síðan.“

Rakel sat í stjórn Jól í skókassa um tíma og fékk tækifæri til að ferðast til Úkraínu um áramótin 2015 til þess að færa fólki jólagjafirnar sem höfðu safnast. Hún segir ferðina hafa haft djúpstæð áhrif á hana en þar gafst henni tækifæri á að heimsækja munaðarleysingjarhæli, samkomusali, skóla og inn á heimili langveikra barna. „Ég vissi ekki alveg hverju ég átti von á áður en ég fór út en meiri hlýju og einlægni hef ég sjaldan upplifað. Þar var alls staðar tekið svo vel á móti okkur og ég var svo stoltur fulltrúi Íslands að afhenta kassa sem fólk hafi lagt svo mikla vinnu í að gera.“

Er þetta hinn sanni jólaandi?

Já, það er svo sannarlega þannig að orðatiltækið það er sælla að gefa en þiggja hefur aldrei átt jafn vel við eins og í þessu verkefni. Ég segi alltaf börnunum mínum að þetta sé það besta sem maður gerir. Þau börn sem fá jólagjafirnar eru bara að fá þessa einu gjöf og þegar börnin mín heyra það þá leggja þau allt í kassana. Eftir að ég fór út þá áttaði ég mig virkilega á því að hver einasta gjöf hefur svo mikið áhrif. Aldrei hafa safnast jafn margir kassar og í ár en það var algjörlega slegið met, það eru því 5575 gjafir sem gleðja jafn mörg börn um jólin.

Frá því Rakel kom heim frá Úkraínu um árið hefur hana langað til að gera eitthvað meira fyrir börn og fjölskyldur í Úkraínu.

„Ég sá virkilega neyðina með eigin augum þegar ég fór þangað og hvað hver einasta króna hefur mikið að segja. Hversdagslegir hlutir eins og sængur, dýnur, rúm, matur og föt eru eitthvað sem er ekki sjálfsagður hlutur og mun peningurinn því fara í kaup á nauðsynjavörum. Margt smátt gerir eitt stórt og það er svo mikill draumur ef mætingin verður góð og við náum að safna sem mestum pening til þess að senda út, “ segir Rakel.

Rakel Hlín Bergsdóttir, eigandi Snúrunnar.
Svipmyndir frá ferð Rakelar til Úkraínu um árið.

„Hún Sandra markaðstjóri var svo frábær að taka vel í þessa hugmynd hjá mér og við ætlum að skapa fallega fjölskyldustemningu á sunnudaginn. Við fengum fyrirtæki í Smáralindinni í lið með okkur gefa glæsilega vinninga fyrir alla fjölskylduna. Átta stórir vinningar eru í boði og svo margir minni vinningar einnig. Eva Ruza mun stýra bingóinu af sinni alkunnu snilld og við lofum góðri skemmtun. Salan á bingóspjöldunum er hafin á snuran.is og mælum við með því að kaupa sér bingóspjald í tíma. Við munum svo selja jólamerkisspjöld, drykki og sælgæti á staðnum en allur ágóði af sölunni er einnig til styrktar verkefninu Jól í skókassa.“

En hvað hringir inn jólin hjá Rakel?

 „Ég ólst upp við rjúpur og óminn af kirkjuklukkunum þegar maturinn hófst klukkan 6. Ég var alltaf svo spennt og verandi yngsta barnið á heimilinu þá fékk ég svolítið að stjórna því hvenær pakkarnir voru opnaðir. Það var að sjálfsögðu aðalatriðið á þeim tíma og flýtti ég fjölskyldunni í gegnum matinn til þess að komast sem fyrst í pakkana. Svo var allt bara búið klukkan 8 og ekki einu sinni neitt í sjónvarpinu til þess að horfa á. Eftir því sem ég eldist er ég sem betur fer búin að átta mig á því að það er miklu skemmtilegra að teygja þetta aðeins og kenna börnunum mínum mínum í leiðinni þolinmæði, þeim kannski ekki til mikillar skemmtunar, “ segir hún og hlær.

Uppáhalds jólalag?

„Ég er alltaf svo hrifin af „Have Yourself a Merry Little Christmas með Frank Sinatra, það kemur mér alltaf í jólaskap.“

Uppáhalds jólaskraut?

„Ég elska fallegu jólakertastjakana frá Finnsdottir sem við erum að selja í Snúrunni. Á hverju ári koma nokkrir nýir stjakar og bætist þá alltaf í safnið hjá mér. Það er einhver ótrúlega falleg nostalgía í stjökunum frá þeim, blanda af nýju og gömlu.“

Uppáhalds jólamynd?

 „Það eru nokkrar jólamyndir sem eru algjörlega ómissandi og ég horfi á með krökkunum á hverju ári. Það eru Elf, Christmas Vacation og Home Alone. Það er alltaf svo gaman að byrja bara að horfa í nóvember og lengja aðeins jólin.“

Ómissandi á jólum?

 „Jólin koma ekki fyrir mér nema fá ris à l'amande eða möndlugraut sem mamma gerir, það er algjörlega best í heimi!“

Finnsdottir, Snúran, 7.290 kr.
Finnsdottir, Snúran, 7.290 kr.
Við hvetjum alla sem vettlingi geta valdið að mæta í Jólabingó á sunnudaginn kl: 13:00 í Smáralind!

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu