Fara í efni

Frægir sælkerar töfra fram ljúffenga og ódýra rétti

Lífsstíll - 9. júní 2023

HÉR ER fékk þrjá annálaða matgæðinga til að deila uppskriftum að réttum sem eru allt í senn, hrikalega góðir, hollir og tiltölulega einfaldir og ódýrir í innkaupum.

Áhrifavaldurinn, uppskriftahönnuðurinn og matarstílistinn Linda Ben.

Réttur sem öll fjölskyldan elskar

Áhrifavaldurinn, uppskriftahönnuðurinn og matarstílistinn Linda Ben, sem heldur úti hinni vinsælu vefsíðu Lindaben.is, þar sem hún deilir með lesendum hollum og góðum uppskriftum, ákvað að leggja til uppskrift að hollum, ódýrum og einföldum rétti sem krakkar elska. Linda veit nefnilega af eigin raun hvað það getur verið erfitt að fá börn til að borða hollan mat. Uppskriftin sé hins vegar svo góð að jafnvel verstu gikkir fái hana ekki staðist.

„Dóttir mín var rosaleg þegar kom að því að borða grænmeti þegar hún var í kringum þriggja ára og ég fékk hana mjög sjaldan til að borða það. Ég þurfti því að vera sérlega lúmsk til að koma grænmeti ofan í hana.“

Að sögn Lindu reyndist lausnin vera fyrrnefnd uppskrift, heilhveiti penne pasta með „sveppa hakki“, þar sem sveppir eru skornir svo smátt niður að áferðin minnir á hakk.

„Þessi aðferð, að skera sveppi ofur smátt niður, og bera þá fram eins og hakk, reyndist mér mjög góð leið til að fá dóttur mína til að borða sveppi,“ lýsir hún. „Ég tala nú ekki um þegar þeir voru bornir fram með pasta í rjómaostasósu með rifnum, bökuðum osti yfir.“

Linda bendir á að sveppir séu prótein og afar næringarríkir og því sé þetta ágætis staðgengill fyrir kjöt. Um leið sé þetta fínasta leið til að auka grænmetisinntöku fjölskyldunnar.

„Ég get með góðri samvisku sagt að þessi réttur er algjört lostæti. Dóttir mín var að minnsta kosti yfirleitt búin að borða á sig gat áður hún fór að pæla nokkuð í því að mögulega gæti leynst grænmeti í réttinum.“

Heilhveiti penne pasta með „sveppa hakki“

  • 300 g gróft penne pasta
  • 1 msk. smjör
  • 1 laukur
  • 250 g sveppir
  • 3 hvítlauksgeirar
  • u.þ.b. 4-5 greinar af fersku timian, annars 1 tsk. þurrkað
  • 1 tsk. þurrkað oreganó
  • 150 g kryddostur með pipar frá Örnu Mjólkurvörum
  • 500 ml rjómi frá Örnu Mjólkurvörum
  • 1 tsk soja sósa
  • 150 g rifinn ostur frá Örnu Mjólkurvörum

Ég get með góðri samvisku sagt að þessi réttur er algjört lostæti.

Aðferð:

  1. Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum þangað til það er ekki alveg soðið í gegn heldur enn þá örlítið stíft.
  2. Kveikið á ofninum og stillið á 200°C.
  3. Á meðan pastað er að sjóða, skerið þá laukinn smátt niður og steikið upp úr 1/2 msk. smjöri.
  4. Skerið sveppina mjög smátt niður þar til áferðin minnir á hakk, bætið þá á pönnuna ásamt 1/2 msk. af smjöri, steikið þar til mjúkir í gegn.
  5. Pressið hvítlauksgeirana með hvítlaukspressu út á pönnuna og steikið.
  6. Bætið timian og oreganó út á pönnuna.
  7. Hellið rjómanum á pönnuna og rífið kryddostinn niður með rifjárni út á pönnuna. Leyfið að malla á pönnunni þar til osturinn hefur bráðnað saman við, bætið þá svolítið af soja sósu á pönnuna og látið malla örlítið lengur.
  8. Hellið vatninu af pastanu og bætið út á pönnuna, blandið öllu vel saman.
  9. Setjið rifinn ost yfir og bakið inn í ofni í u.þ.b. 20 mín eða þar til osturinn er byrjaður að brúnast.

Spæsí pad thai með kjúklingi sem enginn fúlsar við

Matreiðslumaðurinn Ívar Örn Hansen. Mynd / Hari

Matreiðslumaðurinn Ívar Örn Hansen, sem hefur vakið mikla lukku með þáttunum Helvítis kokkurinn á Vísi og á Stöð 2+, var ekki lengi að slá til þegar HÉR ER leitaði til hans og spurði hvort hann ætti í farteskinu uppskrift að góðum, ódýrum, tiltölulega einföldum og hollum rétti.

„Ég er nú kannski ekki þekktur fyrir hollan mat,“ tekur Ívar fram og hlær, „en við skulum segja að þessi uppskrift sé nú samt í hollari kantinum.“

Umrædd uppskrift er að spæsí pad thai með kjúklingi, sem Ívar segir vera ferlega gott á bragðið.

„Auðvitað er þetta gott. Ég bjó þetta til,“ segir hann kankvís. „X-faktorinn, ef svo má að orði komast, er að heill habanero er í réttinum, sem gerir hann mjööög sterkan – og bragðgóðan!“

Fyrir utan það segir Ívar réttinn vera frekar ódýran og einfaldan í ofanálag.

Umrædd uppskrift er að spæsí pad thai með kjúklingi, sem Ívar segir vera ferlega gott á bragðið. Mynd / Aðsend

Uppskrift fyrir sex til átta manns

  • 6 kjúklingalæri (frá Kjarnafæði) skorin í ræmur
  • 2 msk. sojasósa
  • 3 msk. sriracha sósa
  • Salt
  • Egg
  • 1 pakki hrísgrjónanúðlur
  • 100 g muldar salthnetur
  • 1 pakki Alfa alfa baunaspírur

X-faktorinn, ef svo má að orði komast, er að heill habanero er í réttinum, sem gerir hann mjööög sterkan – og bragðgóðan!

Pad thai sósa:

  • 2 msk. olía
  • 2 tsk. fiskisósa
  • 200 g púðursykur
  • Safi úr 2 lime
  • 5 g engifer
  • 2 hvítlauksrif
  • 2 shallot laukar
  • 1 heill habanero
  • 1 heill blaðlaukur
  • 1 msk. chili sambal
  • 2 msk. sojasósa

Aðferð:

  1. Sjóðið vatn í stórum potti. Slökkvið undir suðu, setjið núðlur út í, setjið lokið á pottinn og látið núðlurnar vera þannig í pottinum í 3-4 mínútur. Kælið í vatni og sigtið.
  2. Skerið kjúklingalæri niður í strimla og setjið í skál ásamt sojasósu. Marínerið í um eina klukkustund. Steikið kjúkling á pönnu í 3-4 mínútur á háum hita. Setjið á fat og leggið til hliðar.
  3. Saxið shallot lauk, engifer, habanero, hvítlauk og hvíta hlutann af blaðlauknum. Steikið í olíu á pönnu í 5 mínútur á lágum hita. Bætið út á pönnuna púðursykri, hrísgrjónaediki, chilli mauki, fiskisósu, soja og lime á pönnu. Hellið soði af kjúlla á sósupönnu og sjóðið í 10 mínútur. Hellið sósu í skál.
  4. Skerið græna hlutann af blaðlauknum niður. Steikið eggið á wok-pönnu á háum hita. Bætið við núðlum og steikið áfram. Hellið út á einni ausu af sósunni. Bætið við kjúklingi og smá sósu. Steikið í nokkrar mínútur.
  5. Berið fram með baunaspírum, hnetum og lime.

„Okkar vinsælasti eftirréttur“

Gísli Matthías Auðunsson er þekktur fyrir frumleika í matargerð. Mynd / Chema Llanos

Er ekki ágætt að enda veisluna á bragðgóðum eftirrétti? Hér kemur einn ljúffengur úr smiðju Gísla Matthíasar Auðunssonar matreiðslumanns og veitingamanns. Gísli er þekktur fyrir frumleika í matargerð og gjarnan kenndur við veitingastaðinn Slippinn, sem hann opnaði ásamt fjölskyldu sinni í Vestmannaeyjum árið 2012. Eftirfarandi eftirréttauppskrift er einmitt fengin þaðan en að sögn Gísla er um að ræða vinsælasta desert Slippsins „sem ekki er of sætur“.

Skyr, hafrar og hundasúrukrap

Uppskrift fyrir fjóra

Skyrmús

  • 500 g skyr
  • 250 g rjómi
  • 75 g sykur

Aðferð:

  1. Rjómi léttþeyttur.
  2. Skyr og sykur þeytt saman í annarri skál þar til sykurinn er alveg uppleystur.

Hundasúrukrap

  • 325 g vatn
  • 100 g sykur
  • 2 búnt súrur

Sítrónusafi

Aðferð:

  1. Vatn og sykur er hrært saman þar til sykurinn er uppleystur (ekkert hitað).
  2. Maukað í blandara með súrum og smakkað til með sítrónu.
  3. Látið í bakka og fryst.
  4. Þegar krapið er borið fram er það einfaldlega pískað upp af bakkanum með gaffli.
Vinsælasti desertinn sem ekki er of sætur á matseðli Slippsins. Mynd / Aðsend

Hafrar

  • 50 g rjómi
  • 100 g púðursykur
  • 50 g smjör
  • 200 g haframjöl

Aðferð:

  1. Rjómi og púðursykur soðið saman.
  2. Smjöri bætt út í.
  3. Allt hrært vel saman.
  4. Því næst er haframjöli bætt út í og hrært vel saman.
  5. Síðan er þetta látið á bakka og bakað við 150°C í u.þ.b. 20 mín. eða þar til það verður gullinbrúnt.
  6. Þegar þetta kemur úr ofninum er það látið kólna og svo er það mulið yfir skyrmúsina, þar á eftir kemur krap og stökkar súrur.
Bon Appétit!

Áhugaverðar kokkabækur

Heima hjá lækninum í eldhúsinu, Penninn Eymundsson, 4.999 kr.
Ómótstæðileg Ella, 4.699 kr.
Undir 1.000 fyrir tvo, Penninn Eymundsson, 2.899 kr.
Vegan eldhús grænkerans, Penninn Eymundsson, 6.299 kr.

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Óskalisti stílista á afslætti á Dekurkvöldi

Lífsstíll

Valentínusar­dagurinn nálgast

Lífsstíll

Ættum við að bæta kollageni inn í rútínuna okkar?

Lífsstíll

Rakel María þjálfari gefur góð heilsuráð

Lífsstíll

Helga Magga næringarþjálfari deilir hollum og góðum uppskriftum

Lífsstíll

Magnaður snjallhringur kominn á markað

Lífsstíll

Góð ráð til að ná úr sér janúar sleninu

Lífsstíll

Jólagjafa­hugmyndir Rakelar Maríu