Fara í efni
Karen Kjartansdóttir í viðtali

„Þrautin sjálf skiptir ekki öllu máli - heldur leiðin þangað“

Lífsstíll - 24. janúar 2023

„Okkur er hollt að gera eitthvað sem færir okkur nýja getu og gleði en ekki bara að hamast í því sama.“ Þetta segir Karen Kjartansdóttir, almannatengill, sem hefur á síðustu árum meðal annars afrekað að taka þátt í Fossavatnsgöngunni og Laugavegshlaupinu, auk þess að fara yfir Grænlandsjökul og Vatnajökul á skíðum. Hún segir mikilvægt að setja sér skýr markmið og halda í gleðina vilji maður ná settu marki.

„Svona almennt þá hugsa ég heilsutengd markmið svolítið út frá því að geta komist í gegnum einhverja þraut,“ segir Karen Kjartansdóttir almannatengill. „Þrautin sjálf skiptir ekki öllu máli heldur leiðin þangað.“

Þegar við hefjum tal okkur kemur fljótlega í ljós að Karen er mikill útivistargarpur. Ekki nóg með að hún reyni að að hjóla sem mest til og frá vinnu, heldur gengur hún með heimilishundinn, skokkar og nýtir í raun hvert tækifæri til að koma hreyfingu að í daglegu lífi. Já og svo skráir hún sig og eiginmanninn af og til „í einhverjar keppnir“, eins og hún orðar það.

Þannig að það er óhætt að segja að Karen hugi almennt vel að heilsunni?

 „Já, ég held að það megi segja það þótt ég sé fremur öfgalaus,“ segir hún og brosir.

Setur hún sér markmið sem tengjast heilsunni?

 „Ja, mér finnst í raun ágætt að miða við að vera í formi sem leyfir manni að taka þátt í viðburðum á borð við Laugavegshlaupið eða Fossvatnsgönguna,“ svarar Karen og upplýsir að þegar hún hafi í lok árs 2016 ákveðið að fara í Fossavatnsgönguna fyrir vestan, sem haldin var síðla vetrar 2017 og er rúmlega 50 km löng, hafi hún til að mynda hvorki átt né kunnað á gönguskíði og bara haft tæpa fjóra mánuði til að eignast það sem þurfti, læra á skíði og koma sér í form sem gerði henni kleift að komast þessa leið innan tímamarka. Fífldirfska myndi einhver kannski segja en Karen hlær að því og finnst ákvörðunin hafa svo margt skemmtilegt í för með sér.

„Ég kynntist fjölda skemmtilegs fólks, fór í ferðalög um landið sem ég hefði annars ekki farið og tókst á við óttann sem fylgir því að gera eitthvað nýtt,“ telur hún upp. „Fyrir utan hvað það er gefandi og skemmtilegt að kynnast vetrinum almennilega í gegnum útivist,“ bætir hún við og ljómar í framan.

Spurð út í Laugavegshlaupið og hvernig það hafi gengið fyrir sig segir Karen að hún og eiginmaður hennar Hannes Ingi Geirsson íþróttafræðingur hafi ákveðið að skella sér í það árið 2018. „Við æfðum frekar stíft fyrir það í einhverju kaldasta rigningarvori í manna minnum,“ rifjar hún hlæjandi upp og segir að það hafi raunverulega bara einu sinni stytt upp á æfingu. Hlaupið sjálft hafi svo reyndar farið fram í prýðilegu veðri.

„Félagsskapurinn þar skipti miklu máli og gerði æfingatímabilið svo skemmtilegt þótt veðrið hefði í raun ekkert leikið við okkur,“ segir hún og glottir.

Ég dæmdi mig voða hart fyrir að geta ekki gert ýmislegt sem mér fannst ég eiga að geta á meðan á þessu stóð og missti svolítið gleðina. Um leið og ég fór að sýna mér meiri mildi í bland við skýr markmið kom gleðin aftur.
Mynd: Eyþór

Góð samvera og hvatning hefur sitt að segja

Karen segir þau Hannes hafa gert allan fjárann saman í útivist eftir það, meðal annars tekið þátt í Birkebeiner-skíðagöngunni og -fjallahlaupinu. Önnur stór heilsutengd markmið sem hún hafi svo sett í framhaldinu og staðið við voru að fara yfir Vatnajökul og Grænlandsjökul á skíðum, en Karen var í átta manna hópi sem gekk þvert yfir hann, 560 km frá vestri til austurs, hvorki meira né minna, vorið 2022.

En af hverju Grænland?

 „Þessi ákvörðun var tekin eftir fund með Brynhildi Ólafs og Róberti Marshall sem þá voru að byrja með Landvættaprógrammið,“ útskýrir hún og segir að á fundinum hafi verið konur sem hún þekkti ekki mikið þá en í gegnum æfingar og sameiginleg ævintýri hafi tekist með þeim vinskapur sem hefur haldið síðan. Samvera með þeim hafi skapað skemmtilegar stundir og orðið þeim öllum hvatning til að kýla á ýmislegt skemmtilegt í framhaldinu.

„Ég held að hvatning okkar til hverrar annarrar hafi ábyggilega haft sitt að segja í þessu öllu,“ segir hún, þegar hún er spurð hvernig henni hafi tekist að ná því markmiði að ganga alla leið yfir Grænlandsjökul. „Það sama má segja um æfingar með manninum mínum. Það að deila áhuga með manneskju sem maður nýtur þess að vera með skiptir miklu máli og samveran við æfingar dýpkar líka vináttuna enn frekar.“

Karen Kjartansdóttir og eiginmaður hennar Hannes Ingi Geirsson hafa brallað ýmislegt saman.

Mikilvægt að halda í gleðina

Karen bendir á að fyrir markmið eins og Grænlandsjökul þurfi fólk vitanlega að vera í góðu formi og þá kannski aðallega í góðu andlegu jafnvægi. „En svona almennt þá hugsa ég heilsutengd markmið svolítið út frá því að geta komist í gegnum einhverja þraut,“ segir hún. „Þrautin sjálf skiptir ekki öllu máli heldur leiðin þangað.“

Hún tekur fram að stundum hafi fólk vissulega ekki heilsu til að gera það sem það lagði upp með. Sem dæmi hafi hún sjálf þjáðst af svima í tvö ár sem setti strik í reikninginn hjá henni þegar kom að sumum markmiðunum.

„Ég dæmdi mig voða hart fyrir að geta ekki gert ýmislegt sem mér fannst ég eiga að geta á meðan á þessu stóð og missti svolítið gleðina,“ viðurkennir hún en segir að um leið og hún fór að sýna sér meiri mildi í bland við skýr markmið hafi gleðin komið aftur. „Þannig já, ég held það sé mikilvægt að forðast að missa gleðina þótt hlutirnir gangi ekki alveg eins og maður óskaði.“

Þrautin sjálf skiptir ekki öllu máli heldur leiðin þangað. 
Icewear, 17.900 kr.
4F, 34.083 kr.
Icewear, 13.990 kr.
4F, 2.793 kr.
4F, 5.663 kr.
Icewear, 11.990 kr.
Icewear, 1.490 kr.
Útilíf, 6.990 kr.
66°Norður, 5.900 kr.
4F, 5.103 kr.
4F, 20.223 kr.
66°Norður, 65.000 kr.
4F, 7.273 kr.
Útilíf, 39.990 kr.
Útilíf, 39.990 kr.
Útilíf, 59.990 kr.

Leikfimi ágætur leiðarvísir

Karen segir að orðið leikfimi sé í raun ágætis leiðarvísir fyrir fólk sem vilji setja sér markmið tengd heilsunni, enda sé það samsett úr orðunum fimni, eða færni í einhverju, og svo orðinu leik.

„Hvernig náum við færni í gegnum eitthvað sem er skemmtilegt er spurning sem ég svara með fjölbreytni og elju. Okkur er hollt að gera eitthvað sem færir okkur nýja getu og gleði en ekki bara að hamast í því sama.“

Meira úr lífsstíl

Lífsstíll

Innblástur fyrir ferminguna á Fermingar­kvöldi Hagkaups

Lífsstíll

Fermingar­gjafir: tæki og tól

Lífsstíll

Fermingar­gjafir: Skart, föt og fylgihlutir

Lífsstíll

Snyrti­fræðingur gefur fermingarbörnum góð ráð

Lífsstíll

Þú vilt ekki missa af þessu á Dekurkvöldi Smáralindar 2. mars

Lífsstíll

Góð ráð fyrir fermingarförðun

Lífsstíll

Fagurkerinn Kolbrún Pálína gefur góð ráð fyrir fermingar­veislur

Lífsstíll

Fermingarfötin 2023 úr Galleri 17