Beibí blár
Með hækkandi sól verður svartur alklæðnaður íslensku konunnar minna áberandi og við heillumst meira að litum og ljósari tónum sem fylgja vorinu. Litapallettan 2026 sækir innblástur í náttúruna þar sem líflegir litir mæta róandi, hlutlausum tónum. Skærir grunnlitir á borð við eldrauðan, gulan og bláan eru í lykilhlutverki, ásamt dýpri blágrænum tónum, mjúkum pastellitum og jarðbundnum litum eins og salvíugrænum. Við erum hinsvegar skotnastar í ljósbláum sem var einnig áberandi á tískusýningarpöllunum og parast einstaklega vel við smjörgulan og brúnan.
Höfuðföt
Í vor verða höfuðföt áberandi í tískunni. Við munum sjá endurkomu klassíska „newsboy“-stílsins, líkt og Keira Knightley bar svo eftirminnilega í Love Actually og fleiri týpur sem gefa heildarmyndinni karakter og við erum spenntar fyrir að leika okkur með.
Seventís og „súpersæs“ sólgleraugu
Við gætum ekki verið glaðari með að sólgleraugnatískan sé að sveiflast aftur í áttina að stórum sólgleraugum eftir næntís tímabilið sem tröllriðið hefur öllu síðustu misserin. Því stærri, því betri ef marka má tískuspekúlantana vestanhafs og stílar í anda áttunda áratugsins trenda enn á ný.
Sportí spæs
Við erum að fíla áframhald á sportlegri tísku þar sem jakkar, háir upp hálsinn og með áberandi kraga koma sterkir inn. Hvort sem þeir eru úr leðri, næloni eða rúskinni er það jakkinn sem sér um að tala þegar kemur að vortískunni í ár.
Síð pils
Við teljum niður dagana þangað til við getum tekið fram síð pils og stælað þau á sætan máta, með sandölum og sólbrúnku sem okkar helsta fylgihlut.
Girl Boss
Axlapúðar og eitís væb sem öskra „Girl Boss“ er ekkert á förum en jakkar í þeim stíl verða mjög áberandi í vor ef marka má stærstu tískuhús heims á borð við Bottega Veneta, Stella McCartney og Saint Laurent. Helst breytingin sem við sjáum er að jakkarnir eru gjarnan örlítið aðsniðnir í mittið og leggja þannig fallega áherslu á kvenlegar línur.
Rykfrakki 2.0
Það er engum blöðum um það að fletta að rykfrakkinn er tekinn fram á hverju einasta vori en margar flottar og endurbættar útgáfur voru að finna á vortískusýningarpöllunum 2026.