Gæði umfram magn
Pattra Sriyanonge, leikkona, tískubloggari, gleraugnasali og markaðsgúru
Lýstu eigin fatastíl í nokkrum orðum?
„Persónulegur, með dassi af gellustælum.“
Til hvaða tískufyrirmynda horfðirðu?
„Leikkonan Sienna Miller hefur verið í miklu uppáhaldi hjá mér í gegnum tíðina. Mér finnst hún ótrúlega svöl og stíllinn hennar áreynslulaus. Annars finnst mér gaman að sitja á kaffihúsi í erlendri stórborg og fylgjast með fatastíl fólksins sem á leið hjá. Það veitir mér mikinn innblástur.“
Hefurðu alltaf verið svona smekkleg til fara?
„Ég hef haft áhuga á tísku og miklar skoðarnir á því hverju ég klæðist frá því ég man eftir mér. Það eru til ljósmyndir af mér fjögurra ára í hörjakkafötum og Levi’s 501- stuttbuxum, sem voru að sögn mömmu uppáhaldsflíkurnar mínar. Ég myndi klárlega segja að ég hafi haft ágætis fatasmekk frá blautu barnsbeini þar sem þessar flíkur þykja enn heitar í dag.“
Að „hlaupa og kaupa“ er ekki lengur til í mínum bókum. Nú vanda ég mig mun meira þegar ég festi kaup á einhverri flík eða vöru.
„Fatastíllinn og smekkurinn hefur svo auðvitað breyst og þroskast með árunum. Barneignir, og covid, hafa til dæmis haft þau áhrif að ég leita meira í þægindi en áður. Svo legg ég áherslu á gæði frekar en magn. Að „hlaupa og kaupa“ er ekki lengur til í mínum bókum. Nú vanda ég mig mun meira þegar ég festi kaup á einhverri flík eða vöru.“
Hvaða ráð viltu gefa fólki?
„Gefið ykkur góðan tíma áður en þið fjárfestið í einhverju, því okkur hættir til að kaupa meira en við þurfum raunverulega á að halda.“
Eitthvað sem fólk ætti að forðast?
„Tískutrend á samfélagsmiðlum. Þau geta vissulega verið heillandi en eru líka vafasöm. Sjálf hef ég gaman að því að fylgjast með flórunni, til dæmis á Instagram, en tek öllu með fyrirvara.“
Mottó?
„Minna er oftast meira eða eins og gjarnan er sagt á ensku: „Less is more“, svo ég leyfi mér nú aðeins að sletta.“
„Ekki eltast of mikið við tískustrauma“
Arnþrúður Dögg Sigurðardóttir framleiðandi
Lýstu eigin fatastíl?
„Eigum við ekki bara að segja frjálslegur, pönkaður, í bland við villta vestrið og dass af leðri.“
Til hvaða tískufyrirmynda horfðirðu?
„Ég á kannski ekki einhverja sérstaka fyrirmynd en ég sæki mikinn innblástur í kvikmyndir og tónlist. Ég er ótrúlega veik fyrir tímabilum eins og sixtís, seventís, eitís og næntís. Það fer allt í hringi og ég elska það!“
Hvernig ferðu að því að vera alltaf svona smart? Hefurðu alltaf haft gott auga fyrir tísku?
„Ja, ég fór bara mjög snemma að nota föt sem einskonar tjáningarform og eins að sanka að mér allskonar „vintage“ fötum frá fjölskyldu og vinum. Mér fannst ekkert betra en að gera góð kaup í verslunum sem selja notuð föt og geri mikið af því enn í dag.“
Ég á kannski ekki einhverja sérstaka fyrirmynd en ég sæki mikinn innblástur í kvikmyndir og tónlist. Ég er ótrúlega veik fyrir tímabilum eins og sixtís, seventís, eitís og næntís. Það fer allt í hringi og ég elska það!
Annars er stíllinn minn mjög fjölbreyttur og ég á mikið af fötum sem ég hef notað í 20 ár eða meira. Það sem hefur kannski helst breyst er að ég vel frekar þægilegri föt nú en áður. Auðvitað er maður líka farin að versla vandaðari föt og reynir líka að vera meðvitaður um uppruna þeirra.
Það sem þetta allt hefur í raun kennt mér er að vera óhrædd. Já, og að vera ekki að troða mér í of litla skó! Ég er nefnilega með freka stóra fætur.“
Mottó?
„‘More is more’ og hafðu gaman!“
„Bætið á ykkur blómum, að innan sem utan“
Helgi Ómars, ljósmyndari, tískubloggari og áhrifavaldur
Ef þú ættir að lýsa eigin fatastíl í fáeinum orðum?
„Óútpældur, þægilegur og flæðandi.“
Helstu tískufyrirmyndir?
„Ég fylgi allskonar flottum týpum sem veita mér innblástur en ég er ekki viss um að ég eigi mér einhverja sérstaklega fyrirmynd. Samfélagsmiðlar hafa auðvitað mikil áhrif og ég er smá Pinterest-tútta þegar kemur að allskonar; arkitektúr, innanhúsarkitektúr og tísku. Ég vista myndir í hin og þessi albúm og versla svo alls konar flotta hluti út frá því. Í stuttu máli þá gerist allt í flæðinu.“
Nú ertu þekktur fyrir fallegan klæðaburð. Hefurðu alltaf verið svona smekklegur til fara?
„Ó nei, ég hef sko ekki alltaf verið það! Hins vegar var ég sem unglingur óhræddur við að prófa allskonar hluti og brjóta upp allskonar norm; ég var með göt í andlitinu, eyeliner og hár í öllum regnbogans litum, sem dæmi. En ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá spái ég núna ekkert sérlega mikið í stílnum mínum. Kaupi bara það sem mér finnst flott og blanda hlutum saman út frá tilfinningu.“
Þannig að stíllinn þinn hefur tekið „smá“ breytingum?
„Eins og ég segi þá gerði ég allskonar tilraunir með hár og háraliti þegar ég var unglingur, gekk um í háum New Rock-skóm og var með gat í nefi og vörum og bara út um allt. Þetta var goth-tímabilið mitt og það var ótrúlega skemmtilegt. Eiginlega dáist ég að því hvað ég var hugrakkur á þessum tíma og væri alveg til í meira af þessu hugrekki í dag. Annars finnst mér stíll og vellíðan haldast smá í hendur, ef fólk líður vel í eigin skinni endurspeglar fatavalið það. Allavega í mínu tilviki.“
„Verið þið sjálf og standið með ykkur“
Guðmundur Birkir Pálmason kírópraktor
Ef þú ættir að lýsa eigin fatastíl í nokkrum orðum?
„Fjölbreyttur, stílhreinn og ‘trendy’. Það er svona minn stíll. Ég þori að taka áhættu og er óhræddur við að blanda saman efnum, litum og aukahlutum.“
Helstu tískufyrirmyndir?
„Ég hef gaman að því að fylgjast með allskonar fólki sem gefur mér hugmyndir eða veitir mér innblástur. Til dæmis Lenny Kravitz, Jeff Goldblum, Tan France, Jared Leto og fleirum.“
Hefurðu alltaf verið svona smekklegur til fara?
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á því að klæða mig upp og vera snyrtilegur til fara, en fatasmekkurinn og stíllinn hafa nú alveg þróast og breyst með árunum og á örugglega eftir að gera það áfram með aldrinum. Í gegnum tíðina hefur maður fylgt ýmsum straumum og stefnum í tísku og tekið allskonar tímabili einfaldlega til að hafa gaman að hlutunum. Í dag lít ég hins vegar á klæðaburð sem tjáningu. Þetta helst í hendur við sjálfsöryggið og er í raun bara eins og lífið; spurning um að þora að taka áhættu og prófa nýja hluti til að þróast og þroskast sem manneskja.“
Mottó?
„Stílhreint og tímalaust umfram allt.“
„Verið óhrædd við að leika ykkur“
Patrekur Jaime raunveruleikastjarna
Lýstu eigin fatastíl?
„‘Cute’, ‘slim’ og ‘sexy ’.“
Áttu þér fyrirmyndir í tísku?
„Nei, enga sérstaka en ég elska Jean Paul Gaultier og Kylie Minogue.“
Þú ert þekktur fyrir frumlegan og skemmtilegan fatastíl. Segðu okkur aðeins frá honum.
„Já, ég hef þróað hann lengi með mér og er alltaf að finna eitthvað nýtt sem ég fíla. Nú er ég til dæmis byrjaður að elska svolítið pils og þrönga kjóla, sem ég var alveg mótfallinn fyrir svona ári. Í stuttu máli má segja að stíllinn minn sé orðinn kvenlegri, ef svo má að orði komast, þótt ég reyndar þoli ekki það orð, já og stílhreinni. Auðvita fæ ég líka mikla hjálp frá stílistanum mínum, henni Díönu Breckmann. Hún stíliserar mig fyrir stóra viðburði og verkefni sem ég tek að mér.“
Mottó?
„Það er aldrei of kalt fyrir magaboli.“
Í stuttu máli má segja að stíllinn minn sé orðinn kvenlegri, ef svo má að orði komast, þótt ég reyndar þoli ekki það orð, já og stílhreinni.