Fara í efni
Hátíðartískan og úrvalið í búðum

Hvernig verður herratískan fyrir jól og áramót?

Tíska - 6. desember 2021

Jóla- og áramótatíska karla einkennist í ár af „kasjúal“ fatnaði ekki síður en fínum spariklæðnaði. Í samtali við HÉR ER segja tískuspekúlantarnir Gunni Hilmarsson og Valtýr Helgi Diego að í raun sé „allt leyfilegt“. Þó skipti máli að hafa nokkur atriði á hreinu ætli menn að vera með puttann á púlsinum.

„Hún er alls konar,“ eru þeir Gunni og Diego sammála um þegar þeir eru spurðir út í herratískuna fyrir jólin. „Það er allt í gangi. Allar tískustefnur og öll tímabil. Allir áratugarnir settir saman í pakka,“ bendir Diego á. Hann segir að snið séu frekar í þrengri kantinum. „En samt ekkert vakúmpakkað,“ tekur hann fram og skellir upp úr. „Frakkar eru til dæmis styttri en áður fyrr og þrengri. Það er meiri klæðskerasaumur á öllu.“

Mjög fín föt eru áberandi á næstunni. Svokallað „dandy“ útlit er til dæmis vinsælt; Þ.e. jakkar bæði með litlum og stærri boðungum og vestum með krögum. Mjög enskt „heritage“ útlit.
Gunni Hilmarsson, tónlistarmaður og yfirhönnuður hjá Kormáki og Skyldi.

Spurður út í vinsæla liti segir Gunni að í raun sé allt leyfilegt í þeim efnum. „Það eru LITIR í gangi, sem er skemmtilegt,“ segir hann glaður í bragði. „Bjartari litir, hressari, djarfari og bara allskonar. Það má allt. “Diego bætir við að ekki megi gleyma jarðlitum, þeir séu málið fyrir jólin; brúnn, grænn, vínrauður osfrv. Þess utan séu hinn klassíski blái litur flottur og eins grár og svartur. „Það er því skemmtileg litaflóra í gangi.“

Flottir fylgihlutir

Hvað með bindi, slaufur, hatta og skó?

„Skraut eins og bindi, slaufur og klútar eru mikilvægir fylgihlutir,“ svarar Gunni. „En val á þeim fer eftir kraga á skyrtunni sem á að nota. „Já, bindi koma sterk inn og vasaklútar í vasann ef karlar sleppa bindi,“ samsinnir Diego. „Hattar eru síðan mikilvæg „skreyting“ fyrir menn sem nota hatta á annað borð,“ bendir Gunni á og kveðst sjálfur vera mikill hattakarl. Til marks um það kaupi hann bæði tilbúna hatta og sérgerða hatta.

Slaufur eru vinsælar hjá stærstu tískuhúsum heims á borð við Brioni.

Spariföt og kasjúal klæðnaður

Hvað með áramótatísku karla í ár? Er einhver munur á henni og jólatískunni?

„Ekki spurning,“ segir Gunni. „Um áramót gefst tækifæri til að ganga lengra og vera svaka fínn.“

Auðvitað eru karlar sem klæða sig upp í smóking á gamlársdag, en viðbúið er að kasjúal klæðaburður verði áberandi líka, af því menn eru einfaldlega meira heima við með sínum nánustu í ljósi aðstæðna.
Valtýr Helgi Diego, verslunarstjóri hjá herrafataversluninni Kultur menn sem opnaði í Smáralind á dögunum.

Spurður hvert þessi þægilegi klæðaburður sæki innblástur segir Diego að ekki sé beint hægt að tengja hann við ákveðna stefnu eða tímabil. „En maður sér áhrif frá Tom Ford og Beckham. Menn vilja vera kasjúal og sportí. “En hvað með þetta áðurnefnda dandy-lúkk? „Ja, auðvitað hafa þættir eins og Peaky Blinders, Downtown Abbey og The Crown haft töluverð áhrif,“ svarar Gunni. „Þeir valda því að menn hugsa meira um útlitið og vilja vera fínni í tauinu.“ Hann bætir við að gaman geti verið að blanda saman fínu og grófu og fara eigin leiðir hvað stíl varðar.

Smart strákar í Peaky Blinders.
Tískan í The Crown er mikið augnayndi.

Sjónvarpsþættir á borð við Peaky Blinders, The Crown og Downton Abbey hafa sett sitt mark á karlatískuna.

Karlar djarfari í fatavali an áður

Diego og Gunni eru á einu máli um að fátt komi sérstaklega á óvart við herratískuna fyrir jól og áramót. Hins vegar sé óneitanlega gaman að karlar séu orðnir djarfari en áður í fatavali og óhræddari við að prófa nýjungar. „Ég er búinn að vera í þessum bransa síðan 1997 og á þeim tíma hefði fólk rekið upp stór augu ef karlar hefðu látið sjá sig í rauðri skyrtu á Íslandi,“ nefnir Diegos sem dæmi og hlær. „Það er breytt – og sem betur fer! “Gunni kinkar kolli. „Já það er gaman að körlum sem fara eigin leiðir í fatavali. Ótrúlega hressandi.“

Þeir best klæddu á Íslandi

Beðnir um að nefna íslenskar tískufyrirmyndir sem karlar ættu að horfa til eru þeir fljótir til svars. „Helgi Björns er alltaf svolítill töffari. Hann er okkar Mick Jagger,“ segir Diego. „Svo er alltaf gaman að Jakobi Frimann. Hann er enn óhræddur við að prófa alls konar hluti.“

„Ef menn vilja taka bóheminn á þetta þá ættu þeir að taka sér Högna Egils til fyrirmyndar,“ bendir Gunni á. „Hann nálgast „fína“ lúkkið með skemmtilega öðruvísi hætti. Listamaðurinn Aron Bergmann masterar dandy-lúkkið. Sömu segja má segja um Villa Naglbít. Hann blandar listilega vel saman fínu og grófu og er svakalega fínn í tauinu þegar hann ætlar sér það. Jónas Sig tónlistarmaður vinnur svakalega vel með „afslappaða / fína“ útlitið. Krummi tónlistarmaður blandar rokkuðu og fínu útliti með ansi góðri útkomu.“

„Svo má ekki gleyma Bubba,“ bætir Diego við. „Hann er oft flottur í tauinu.“

Algjört möst

Hvað skyldi þá vera algjört möst fyrir karla sem vilja vera með puttann á púlsinum nú fyrir jól og áramót?

„Góðar skyrtur, vandaðar og fallegar og sömuleiðis peysur,“ svarar Diego. „Flottur hattur og litríkir sokkar,“ skýtur Gunni inn í. „Svo auðvitað góðir skór,“ bætir Diego við og getur þess að karlar séu farnir að kaupa skó í auknum mæli. Nú nægi þeim ekki að eiga eitt tvö pör heldur vilja þeir eiga fleiri og hafa þau flott. Þá sé vinsælt að nota strigaskó, til dæmis frá Paul Smith, við jakkaföt.

Skemmtileg skyrtu- og peysuhönnun hjá Burberry.

Paul Smith haust/vetur 2021

Louis Vuitton.
Tod´s.
Karlmenn kaupa skó í auknum mæli en nú þykir sjálfsagt að klæðast strigaskóm við fínni föt.

Búnir að ákveða jóla- og áramótadressið

Skyldu þeir félagar sjálfir vera búnir að ákveða í hverju þeir ætla að vera um jól og áramót?

„Já ekki spurning,“ segir Gunni og eftirvæntingin leynir sér ekki. „Ég ætla að vera í „Prince of Wales-Check“-bláköflóttum jakkafötum úr smiðju okkar hjá Kormáki og Skildi. Vestið er tvíhneppt með boðungum og buxurnar víðar að ofan en þröngar að neðan. Gulir sokkar og líflegt bindi og hattur. Hressandi!“ Diego segist sömuleiðis vera löngu búinn að ákveða hverju hann ætli að klæðast. „Ég ætla hins vegar að halda því út af fyrir mig,“ segir hann leyndardómsfullur. „En ég er alltaf flottastur til fara,“ tekur hann fram og kímir.

Brioni haust/vetur 2021

Brunello Cucinelli haust/vetur 2021

Ofurfyrirsætan Mark Vanderloo eldist eins og gott rauðvín.

Louis Vuitton haust/vetur 2021

Í búðum

Zara, 16.995 kr.
Zara, 2.795 kr.
Zara, 6.495 kr.
Steinar Waage, 34.995 kr.
Bindi, Selected, 5.990 kr.
Galleri 17, 16.995 kr.
Selected, 10.990 kr.
Kultur menn, 11.995 kr.
Kultur menn, 39.995 kr.
Kultur menn, 24.995 kr.
Zara, 8.495 kr.
Zara, 8.495 kr.
Kultur menn, 36.995 kr.
Jack & Jones, 15.990 kr.
Kultur menn, 11.995 kr.
Steinar Waage, 39.995 kr.
Zara, 8.495 kr.
Zara, 16.995 kr.
Kultur menn, 45.995 kr.
Air, 21.995 kr.
Selected, 29.990 kr.
Dressmann, Smáralind.
Steinar Waage, 24.995 kr.
Skórnir þínir, 21.995 kr.
Dressmann, Smáralind.
Air, 17.995 kr.

Meira úr tísku

Tíska

20% afsláttur af heimsþekktum vörumerkjum á borð við Polo Ralph Lauren

Tíska

50 sætustu sparikjólarnir

Tíska

Flottasta golflína J. Lindeberg hingað til

Tíska

Þetta þurfa karlarnir að eiga í fataskápnum fyrir vorið

Tíska

Rándýr lúkk úr ZARA fyrir vorið

Tíska

Stílisti mælir með á afslætti á Kauphlaupi

Tíska

Hátískusólgleraugu á 25% afslætti

Tíska

Skrifstofu­gyðjan slær í gegn