Fara í efni

Best klæddu konur landsins

Tíska - 24. ágúst 2022

Á dögunum birti HÉR ER lista yfir bestu klæddu karlana á klakanum og nú er komið á konunum. Hvaða konur þykja standa öðrum framar þegar kemur að fatavali, stíl og smekkvísi? HÉR ER leitaði álits hjá nokkrum valinkunnum tískusérfræðingum.

Björk Guðmundsdóttir, tónlistarkona

„Björk er ekki bara best klædda konan á Íslandi, hún best klædda konan í heiminum. Hún hefur algerlega búið til nýja hugmynd um manneskju og konu og sú manneskja/kona er mjög framsækin,“ segir Linda Björg Árnadóttir, doktorsnemi í félagsfræði tísku, um tónlistarkonuna Björk Guðmundsdóttur.
Hún bendir á að stíll Bjarkar gangi þvert á kenningu franska félagsfræðingsins Pierre Bourdieu um svokallaðan „habitus“ eða „veruhátt“. „Kenning Bourdieu snýst um það að við séum föst í viðjum fortíðar og menningar þegar kemur að því hvernig erum og hvernig við lifum lífinu. Að við séum eins og lest sem keyrir áfram og lestarteinarnir verða til jafnóðum úr fortíð og samtímamenningu,“ lýsir hún. Björk láti hugmyndina líta kjánalega út því hún hafi augljóslega engan áhuga á að endurtaka fortíðina. „Habitus er ekki að trufla hana eitt né neitt. Björk fer sínar eigin leiðir og sýnir þannig að hún er alvöru originall.“
Linda bendir ennfremur að á meðan mikið framboð af dystópíum, þ.e. neikvæðum framtíðarsýnum, ekki síst á streymisveitum, dynji á okkur þá sé mun minna um útópíur eða jákvæðar framtíðarsýnir. Enda sé mun erfiðara að skapa slíka hugmynd en það geri Björk. Hún hafi skapað fallega, framsækna og draumkenda hugmynd um framtíðina með list sinni, persónu, klæðnaði og öllu myndefni sem frá henni kemur.
„En það besta við klæðnað Bjarkar er að enginn getur leikið stílinn eftir, en það er fyrst og fremst það sem einkennir þá sem eru mjög flott klæddir. Það á ekki að vera hægt að ganga bara inn í einhverja verslun og kaupa það sama. Og jafnvel þótt að einhver færi í nákvæmlega eins föt og Björk klæðist þá liti sá hinn sami fáránlega út, vegna þess að hann væri ekki mjög sannfærandi sem Björk. Það er bara ein Björk!“
Mynd: Viðar Logi.
Björk Guðmundsdóttir, tónlistarkona.
Mynd: Viðar Logi.
Björk Guðmundsdóttir, tónlistarkona.
Björk hefur skapað fallega, framsækna og draumkenda hugmynd um framtíðina með list sinni, persónu, klæðnaði og öllu myndefni sem frá henni kemur.
Mynd: Santiago Felipe.
Björk Guðmundsdóttir, tónlistarkona.
Björk mynduð af Santiago Felipe.

Helga Árnadóttir, athafnakona

Arnar Gauti Sverrisson, hönnuður og fjölmiðlamaður, segir athafnakonuna Helgu Árnadóttur vera eina best klæddu konu landsins. „Helga er ótrúlega fáguð í framkomu og fatastíllinn, sem er bæði klassískur og „stylish“, endurspeglar það,“ segir Arnar Gauti. Að hans mati sker Helga sig úr. Sjarminn og óaðfinnanlegi klæðaburðurinn geri að verkum að eftir henni sé tekið hvert sem hún fer. „Helga skilur að fötin ein og sér gera ekkert fyrir mann. Persónuleiki og föt verða að tala saman. Hjá Helgu gerist þetta áreynslulaust.“
Mynd: Saga Sig.
Helga Árnadóttir athafnakona.

Erla Þórarinsdóttir, myndlistarkona

„Erla er náttúrulegur töffari og „fashionista“ dauðans. Hún hefur skinið eins og demantur á haug í Reykjavík og annarsstaðar í áratugi þegar fólk kemur saman vegna menningarviðburða,“ segir Linda Björg, doktorsnemi í félagsfræði tísku um Erlu Þórarinsdóttur myndlistarkonu.
Linda Björg lýsir Erlu sem einskonar sexí Línu Langsokk, sem klæðist gjarnan sterkum litum, svo sem eiturgrænum eða skærbleikum og öðrum heitum litum sem fari vel við eldrautt hárið. „Það mætti flokka Erlu sem „dandy“,“ segir Linda og vísar þar til tveggja andstæðra erkitýpa sem borgarumhverfið hefur alið af sér; hins svokallaða „flaneur“, sem lítið fer fyrir, og „dandy“, sem er ætíð miðpunktur athyglinnar. Hún tekur Oscar Wilde, David Bowie, Marlene Dietrich og Grace Jones sem dæmi um hið síðarnefnda. „En Erla þarf ekki að gera neitt til þess að fá athygli fólks, það gerist bara sjálfkrafa. Hún er náttúrulegur dandy!“
Linda bendir á að það virðist algengt meðal skapandi einstaklinga að þrátt fyrir að þeim finnist kannski ekki gaman fara í búðir þá séu þeir alltaf í geggjuðum fötum. „Erla virðist hafa svipað viðhorf til kaupa á fatnaði og Jesú Kristur hafði til barna, svona „Leyfið þeim – í þessu tilviki fötunum - að koma til mín“-viðhorf,“ segir Linda. „Erla klæðir sig í raun eins og málverkin sín, sem úsa af kvenorku, en hún hefur alltaf verið að fást við kvenleg form og heita liti í list sinni,“ bætir hún við uppnumin. „Erla er „HOT STUFF“.“
Mynd: Saga Sig.
Erla Þórarinsdóttir myndlistarkona.
Erla hefur skinið eins og demantur á haug í Reykjavík og annarsstaðar í áratugi þegar fólk kemur saman vegna menningarviðburða.
Mynd: Saga Sig.
Erla Þórarinsdóttir myndlistarkona.

Anna Clausen, stílisti

„Anna er ein af þessum manneskjum sem geta klæðst hverju sem er og látið það líta vel út,“ segir Linda Björg um Önnu Clausen stílista. Linda segir stíl Önnu vera mjög gott dæmi um svokallaðan „Nordic cool“-stíl, en það sem einkenni hann sé þægilegur og tilgerðarlaus naumhyggjufatnaður þar sem notagildi sé í hávegum haft. Klassísk form víki oft fyrir meira „experimental“ formum og „konsept“ taki yfir kynþokka.
Linda útskýrir að klassísk tíska sé afleiðing borgarmenningarinnar en á Norðurlöndum þá búum við ekki við sömu gömlu borgarmenningu og er til dæmis í höfuðborg tískunnar, París. Norræn tíska sé þar af leiðandi afslappaðri en sú franska, einfaldlega af því að í þéttari byggð sé samkeppnin harðari. Fólk sé meira á tánum og tilbúið að fórna þægindum fyrir framgang nýrra hugmynda, andstætt því sem gerist hjá hópum sem eru ekki eins móttækilegir fyrir nýjum hugmyndum, eins og Kaþólskan kirkjan eða Amish-fólk þar sem fötin hafa ekki breyst í lengri tíma. Norræna tískan sé í raun „mitt á milli borgar og sveitar“.
Mynd: Alexandre Gaudin.
Anna Clausen stílisti.
Anna blandar saman allskonar stílum og gömlu við nýtt en allur fatnaður hennar og samsetningar eru afslappaðar og lausar við tilgerð. Hún lítur ekki út fyrir að vera að reyna að vera smart og er aldrei eitthvað „tilhöfð“. Hún er náttúrulega kúl, og það er eitthvað sem ekki verður keypt með peningum.
Mynd: Alexandre Gaudin.
Anna Clausen stílisti.

Ellen Lofts, stílisti

„Ellen er algjör töffari. Þegar mér verður hugsað til Ellenar þá á ég auðvelt með að ímynda mér hana á fyrsta bekk á tískuviku í Kaupmannahöfn eða New York. Fatastíllinn er stílhreinn, afslappaður og fágaður og klæðir öll kyn. Hún er á undan í mörgu þegar kemur að fatavali og gaman að sjá hvað henni tekst vel að blanda saman fötum og fylgihlutum, svo sem skarti og skóm, úr ólíkum áttum. Heillandi stíll sem höfðar til mín, “segir Kári Sverriss ljósmyndari.
Ellen Loftsdóttir stílisti.

Júlíanna Ósk Hafberg, myndlistarkona

Myndlistarkonan Júlíanna Ósk Hafberg kemst á blað hjá Ara Ísfeld leikara. „Júlíanna Ósk er með einstakan stíl. Hún notar liti sem ekki allir treysta sér í; neon græna, skærbleika og allskyns fallega pastelliti. Hún kann líka að tóna þá niður og gerir einföldu hlutina svo vel. Svart og hvítt er ekki bara svart og hvítt hjá Júlíönnu. Allt er útpælt. Hún prófar oft nýja og spennandi hluti og notar föt á virkilega skemmtilegan máta.“
Hann bætir við að Júlíanna geri fötin alltaf „að sínum eigin“ með því að breyta þeim og bæta. „Hún skartar alltaf geggjuðum eyrnalokkum, yfirleitt heimagerðum, og kann að búa til fallegar „silúettur“ úr flæðandi kjólum og skyrtum, oft við útvíðar buxur, svo dæmi séu tekin. Svo rokkar hún líka í vinnugalla.“
Mynd: Elísabet Blöndal
Júlíanna Ósk Hafberg myndlistarkona.
Mynd: Hrefna Björg Gylfadóttir
Júlíanna Ósk Hafberg myndlistarkona.

Inga Tinna Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Dineout

„Það sem einkennir fatastíl Ingu Tinnu er þessi fágaði „heritage-stíll í bland við kántrí / klassík“. Hún er alltaf smekkleg til fara og fatasamsetningarnar upp á tíu. Það skiptir ekki máli hvaða dagur vikunnar er, Inga Tinna lítur alltaf út fyrir að hafa varið miklum tíma í fatavalið þrátt fyrir að hún hafi starfs síns vegna ekki mikinn tíma aflögu. Útkoman er smart og virðist fyrirhafnarlaus,“ segir Arnar Gauti.
Sjálfur segist hann tengja mikið við stíl Ingu Tinnu. „Það fer ekki framhjá mér að uppáhalds fatahönnuðurinn hennar er Ralph Lauren,“ segir hann. „Henni tekst að tjá heimssýn hans með elegant hætti.“
Inga Tinna Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Dineout.

Kolbrún Petrea Gunnarsdóttir, hönnuður

Kolla er ein smekklegasta kona landsins, það verður ekki af henni tekið,“ segir Arnar Gauti um Kolbrúnu Petreu Gunnarsdóttur hönnuð, einn stofnenda tískuvöruverslunarinnar GK Reykjavík og eiganda tískumerkisins Freebird. Að sögn Arnars Gauta er allt sem Kolbrún tekur sér fyrir hendur framúrskarandi. Einstök hönnun og stíll Freebird veiti innsýnn í hugarheim hennar, auk þess sem GK hafi brotið blað á sínum tíma. „Þetta auðmjúka viðhorf til lífssins sem endurspeglast í klæðnaði hennar gerir að verkum að hún sker sig úr. Og samsetningarnar ... ég hugsa að flestar konur væru til í að geta leikið þær eftir. Það er bara ein Kolla.“
Kolbrún Petrea, hönnuður.
Kolbrún Petrea, hönnuður.

Arnþrúður Dögg Sigurðardóttir, framleiðandi

„Kúreki, töffari, rokkari, nagli, pönkari og skvísa. Stíllinn hennar Addú er blanda af þessu öllu. Það er alveg sama hvort að hún er í vinnunni, úti á lífinu eða í sveitinni, hún er alltaf svo flott klædd,“ segir Kári Sverrisson ljósmyndari um Arnþrúði Dögg Sigurðardóttur framleiðanda.
Kára finnst eftirtektarvert hvað Arnþrúður eða Addú eins og hún er kölluð leggur mikla natni við smáatriði. Fötin séu ekki bara töff, heldur líka pöruð skemmtilega saman við skart, veski, sólgleraugu og húfur. Förðunin og hárið séu líka alltaf flott. Nýtt í bland við gamalt. Allt sé úthugsað en virki fyrirhafnarlaust.
Gagnstætt mörgum segir hann Addú heldur ekki eltast við einhverja tískubylgjur og -bólur heldur fari hún alfarið eigin leiðir. „Addú er alltaf trú sjálfri sér og óhrædd við að skera sig úr. Hún er töffari og skvísa á sama tíma og það eru ekki margir sem ná því.“
Mynd: Lilja Jónsdóttir
Arnþrúður Dögg Sigurðardóttir, framleiðandi.
Mynd: Lilja Jónsdóttir.
Arnþrúður Dögg Sigurðardóttir, framleiðandi.

Kolbrún Vaka Helgadóttir, kynningarfulltrúi RÚV

„Hún er alltaf svo ótrúlega flott, með einhvern „down to earth“ stíl,“ segir Ari Ísfeld leikari um Kolbrúnu Vöku. „Oft er hún í þykkum jarðlita skyrtum og gamaldags Barbour-útivistarvestum og parar við fallega litaðar peysur og stílhreina strigaskó. Við hátíðleg tækifæri verða flæðandi blómakjólar, skemmtileg mynstur og bjartir litir gjarnan fyrir valinu. Virkar allt svo einfalt enda veit Kolbrún betur en flestir hvað fer henni.“
Ara finnst einu gilda hvort Kolbrún klæðist snjógalla eða blómakjól, að hans mati er hún einfaldlega svöl. „Hún er alltaf klassísk. Það lekur af henni einhver sjarmi þannig að allt sem hún fer í verður „instant“ töff.“
Ari segir Kolbrúnu og eiginmann hennar Hilmar Guðjónsson leikara vera næstbest klædda par landsins. „Á eftir mér og Vigdís Perlu Maack,“ upplýsir hann og kímir.
Kolbrún Vaka Helgadóttir, kynningarfulltrúi RÚV.

Berglind „Festival“ Pétursdóttir, fjölmiðlakona með meiru

Berglind Festival Pétursdóttir kemst á lista hjá Ara Ísfeld leikara yfir best klæddu konur landsins. „Hún er alltaf skemmtileg til fara,“ segir hann um sjónvarpskonuna sívinsælu. „Þetta er svona maximalismi í hæstu hæðum, sem virkar eins og sprengja; stórir pelsar, skemmtilegar silúettur, alltaf geggjaðir „sneakers“, litríkir og stórir, paraðir saman við stóra eyrnalokka og tryllt hár. Hún er glimmer, hún er blúndur!“
Ari bendir á að oft pari Berglind eitthvað ótrúlega gamaldags saman við eitthvað „gasalega“ nýmóðins, eins og útsaumsblúnduskyrtu við neongulgræna ófreskjustrigaskó og af einhverjum ástæðurm þá gangi það alltaf upp.
„Hún gæti hoppað beint úr vinnunni í partý á flottustu stöðum heims. Er alveg óhrædd við að fara út fyrir boxið og er alltaf í að minnsta kosti einni flík sem lætur mann segja „WHAT!“ - sem er frábært!“
Berglind Festival Pétursdóttir, fjölmiðlakona.

Lilja Pálmadóttir, athafnakona

„Mér finnst Lilja Pálma alltaf smart, hvort sem hún er í gallabuxum og peysu, á hestbaki eða uppáklædd. Lilja er bara þannig að allt sem hún fer í lúkkar vel,“ segir Kári Sverriss ljósmyndari um athafnakonuna Lilju Pálmadóttur. Að hans mati er fatastíll Lilju allt í senn klassískur, fágaður, smart og áreynslulaus. Auk þess sé hún með smáatriðin alveg á hreinu. „Hún veit hvaða föt klæða hana. Alltaf smart til fara og vekur athygli hvert sem hún fer. Hún kann að klæða sig eftir tilefni en um leið er skemmtilegt hvað hún er ófeimin við að mæta í „casual“ flíkum á fínni viðburði,“ segir Kári ennfremur. „Lilja er bara ófeimin við að vera hún sjálf.“
Lilja Pálmadóttir athafnakona.

Edda Guðmundsdóttir stílisti

„Edda er ókrýnd tískudrottning Íslands í mínum augum, sem ég hef verið samferða í lífinu í áraraðir. Það bara slær henni enginn við, hvorki innanlands né utan,“ segir myndlistamaðurinn Hrafnhildur Arnardóttir um Eddu Guðmundsdóttur stílista. Hrafnhildur segir marga klæða sig fallega og kaupa sér flott föt en Edda sé með „gjörsamlega júník stíl og karakter“ þar sem saman fari fáguð föt í bland við húmor og krassandi samsetningar sem ekki hver sem er gæti „púllað“. „Þetta er hennar „persónulegi“ stíll; sambland af hátísku og „kitch“ og oft „second hand“. Ekki bara alltaf það nýjasta nýtt og vel valin tíska úr búð, enda mikill munur þar á. Það kemst eeenginn með tískutærnar þar sem Edda hefur hæstu hælana,“ segir hún.
Mynd: Saga Sig.
Edda Guðmundsdóttir, stílisti.
Edda Guðmundsdóttir, stílisti.

Þessar voru líka nefndar til sögunnar

Álfheiður Marta Kjartansdóttir leikstjóri
Alexía Björg Jóhannesdóttir leikkona
Brynja Helgadóttir forstöðumaður í Frosta
Margrét Bjarnadóttir listamaður
Vigdís Perla Maack verkefnastjóri
Unnur Elísabet Gunnarsdóttir dansari og leikstjóri

Álitsgjafar

Ari Ísfeld Óskarsson leikari
Arnar Gauti Sverrisson, hönnuður og fjölmiðlamaður
Kári Sverisson ljósmyndari
Linda Björg Árnadóttir, doktorsnemi í félagsfræði tísku
Hrafnhildur Arnardóttir, a.k.a Shoplifter

Meira úr tísku

Tíska

20% afsláttur af heimsþekktum vörumerkjum á borð við Polo Ralph Lauren

Tíska

50 sætustu sparikjólarnir

Tíska

Flottasta golflína J. Lindeberg hingað til

Tíska

Þetta þurfa karlarnir að eiga í fataskápnum fyrir vorið

Tíska

Rándýr lúkk úr ZARA fyrir vorið

Tíska

Stílisti mælir með á afslætti á Kauphlaupi

Tíska

Hátískusólgleraugu á 25% afslætti

Tíska

Skrifstofu­gyðjan slær í gegn