Fara í efni

Íslenskir karlmenn mættu vera flippaðri í fatavali

Tíska - 10. janúar 2022

Hvað verður heitast í herratískunni á árinu og hvað eiga karlar að hafa á bakvið eyrað þegar þeir ætla að kaupa sér fatnað og fylgihluti? Andri Hrafn Unnarsson, sem hefur um árabil unnið sem fata- og búningahönnuður og starfað með tónlistarfólki eins Reykjavíkurdætrum og HATARA, gefur góð ráð.

Spurður hvernig herraklæðnaður verði í tísku í ár er Andri fljótur til svars. „Sá klæðnaður sem endurspeglar hver þú ert eða hver þig langar að vera,“ svarar hann. „Þarftu að vinna heima? Gerðu þér þá glaðan dag með því að klæðast fallegri peysu á Teams-fundinum. Ertu orðinn þreyttur á Covid? Keyptu þér þá netabol og neon gula skó og farðu að dansa. Fataskápurinn endurspeglar lífið og hjálpar okkur að skilja hvað er að gerast, sem er sí nauðsynlegra eftir því sem heimurinn verður flóknari.“

Fataskápurinn endurspeglar lífið og hjálpar okkur að skilja hvað er að gerast, sem er sífellt nauðsynlegra eftir því sem heimurinn verður flóknari.
Andri Hrafn Unnarsson, tísku- og búningahönnuður. Mynd: Aníta Eldjárn.

Veldu liti sem klæða þig

En hvað með liti? Er viðbúið að einhverjir tilteknir litir verði áberandi í ár eða eru körlum kannski settar minnir skorður í þeim efnum en oft áður?

Að mati Andra skiptir í raun meira máli að klæðast litum sem tóna til vel við liftarhaft okkar og fara okkur almennt vel. Svo er það sjálfbærni, nefnir hann í framhaldinu. „Ef bleiki bolurinn þinn passar við einar buxur þá er líklegt að hann passi við fleira í fataskápnum.“

Ræktaðu sálartetrið

Andri segir að ef fráfall hönnuðarins Virgils Abloh (listræns stjórnanda hjá Louis Vuitton frá árinu 2018 og stofnanda og eiganda tískuhússins Off-White) hafi kennt okkur eitthvað á seinasta ári sé það einmitt hvað ímyndunaraflið sé mikilvægt. Og hvað mikilvægt sé að við nýtum hönnun og tísku „til að rækta sálartetrið“, eins og hann orðar það.

„Tíska er listin að lifa og fyrst núna eru karlar loks að öðlast meira frelsi í klæðaburði.“

Finnst Andra að íslenskir karlar mættu vera flippaðri í fatavali?

„Karlmenn alls staðar mættu vera flippaðri. En já, klárlega,“ bætir hann við og kímir.

Gefðu sköpunargleðinni lausan tauminn

Andri hvetur því karla til að láta ekki áhrifavalda eða trend stýra því þeir klæða sig heldur gefa sköpunargleðinni lausan tauminn. Með hnattvæðingu og miklu upplýsingaflæði sæki tískan innblástur alls staðar frá nú til dags.

„Það þykir til dæmis alveg jafn smart að vera í blómamynstri eins og að klæðast svörtu frá toppi til táar. Instagram hefur gert að verkum að öll stílbrigði þykja jafn falleg og ef einhver segir þér annað er bara verið að reyna græða á þér.“

Leggðu áherslu á græn innkaup

Andri segir allt og ekkert vera í tísku á sama tíma. Enginn einn sannleikur sé í gangi. Allt sé leyfilegt.

„Það er það besta við þetta. Tískublöðin geta ekki sagt okkur lengur hvernig við eigum að klæðast. Við þurfum ekki að lúta einhverjum tískukúltúr. Eina skilgreiningin sem skiptir raunverulegu máli er sjálfbærni. Að við kaupum grænt.“

Beðinn um að útskýra nánar hvað felist í grænum innkaupum segir Andri þau hafa margvíslega merkingu.

„Það gengur ekki bara út á að kaupa notað heldur að kaupa af merkjum sem ábyrgjast mannsæmandi framleiðslu. Það sést nefnilega ef við klæðumst innihaldslausum fatnaði á kostnað annarra - og það er ekki flott lúkk.“

Sustainable Style vor/sumar 2022
Tískublöðin geta ekki sagt okkur lengur hvernig við eigum að klæðast. Við þurfum ekki að lúta einhverjum tískukúltúr. Eina skilgreiningin sem skiptir raunverulegu máli er sjálfbærni. Að við kaupum grænt.
-Andri Hrafn Unnarsson.
Sustainable Style vor/sumar 2022

Farðu vel með fötin

Andri brýnir fyrir körlum, og fólki almennt, að hafa þessa hugsun að leiðarljósi nú á árinu sem er gengið í garð.

„Skerum okkur frá seinasta ári að því leyti hvernig við nálgumst fötin okkar. Það liggur gífurleg vinna á bakvið gerð einnar skyrtur, sem dæmi og tugir ef ekki hundruðir manns eiga þátt í því að að koma henni heim til þín.

Farðu því vel með fötin þín og aðra hluti,“ segir hann í lokin, „og vandaðu valið þegar þú gerir innkaupin.“

Andri Hrafn Unnarsson lauk mastersnámi í fatahönnun við Konunglega Listaháskólann í Kaupmannahöfn „Þar var okkur kennt að nota listræna nálgun í frumkvöðlastarfsemi þegar kemur að sjálfbærri tísku,“ segir hann um námið. Mynd: Aníta Eldjárn.

Nokkur flippuð lúkk

Hér má sjá nokkur vel valin og flippuð lúkk frá vor/sumarlínum stærstu tískuhúsanna.
Louis Vuitton vor/sumar 2022
Louis Vuitton vor/sumar 2022
Saint Laurent vor/sumar 2022
Saint Laurent vor/sumar 2022
Cavalli
Cavalli
Mike Tyson var innblástur Roberto Cavalli fyrir vorið.
Alexander McQueen
Alexander McQueen
VTMNTS
VTMNTS
Franska tískuhúsið Celine er þekkt fyrir rokk og ról-stíl.
Það þykir til dæmis alveg jafn smart að vera í blómamynstri eins og að klæðast svörtu frá toppi til táar. Instagram hefur gert að verkum að öll stílbrigði þykja jafn falleg og ef einhver segir þér annað er bara verið að reyna græða á þér.

Meira úr tísku

Tíska

40 sætustu sundfötin sumarið 2022

Tíska

10 beisik en ekki boring flíkur og fylgihlutir til að fjárfesta í fyrir sumarið

Tíska

Fjölhæfasta flíkin í fataskápnum

Tíska

Sumartískan-þetta er það eina sem þú þarft!

Tíska

Þetta trend er allstaðar!

Tíska

Karlatískan sumarið 2022

Tíska

30 vel valin dress í veisluna

Tíska

Hvað verður í tísku í vor og sumar?