Stjúri rakari
Margrét Erla Maack fjöllistadís segir rakarann í kjallaranum hjá Kormáki og Skildi hafa einstakan skógarhöggsmannastíl og hann hafi leiðbeint og innblásið mörgum að finna tískuljónið í sér. „Stjúri er í fötum sem eru klassísk, fara honum og hans líkama vel og sýnir vel að það besta og klassíska er alltaf ódýrast þegar upp er staðið. Svo er hann bara svo góður gaur!“
Bergur Ebbi Benediktsson, rithöndur og uppistandari
Bergur Ebbi er mjög óhræddur þegar kemur að fatavali og fer vanalega ótroðnar leiðir. Einfalt en oftast með góðu tvisti. Retró fílingur með trendí ívafi. Hann getur hæglega skorið sig úr fjöldanum með óhefðbundnum samsetningum; pleðurbuxur, litrík dúnúlpa, retró strigaskór eða bara flott, vel sniðin jakkaföt,“ segir Álfrún Pálsdóttir, kynningarstjóri Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs um fatastíl Bergs Ebba. Henni finnst Bergur Ebbi flottur í tauinu meðal annars af því hann nær að koma manni skemmtilega á óvart. „Og maður sér að fatavalið er útpælt en samt afslappað.“
Bergur Ebbi.
Högni Egilsson, tónlistarmaður
„Högni er alltaf eins og klipptur út úr tískublaði,“ segir Margrét Erla Maack um tónlistarmanninn Högna. „Tískan og stíllinn hans er einstakt listaverk og tjáning. Svo fær hann líka stig fyrir að kunna að vera með sítt hár. Ekkert hestehale-tagl-rugl. Maður sem fylgir sínum eigin tískustraumi.“
Högni Egilsson, tónlistarmaður.
„Högni hefur einstakan, persónulegan stíl og er greinilega ekki hræddur við neitt þegar kemur að klæðnaði. Hann er ekki að velta því fyrir sér hvað öðum finnst. Hann leyfir sér að klæða sig í öðruvísi og áberandi föt. Það gustar af honum og hann klæðist oft litum og er gjarnan í mjög áberandi skóm. Hann er framsækinn og tekur áhættur en treystir á eigið innsæi þegar kemur að fatavali. Hann hefur sterka tískuvitund, hefur gaman af því að vera Högni og er að þróa hugmyndina um sjálfan sig með fatnaði og tísku. Þannig skapar hann sér sérstöðu,“ segir Linda Björg Árnadóttir, doktorsnemi í félagsfræði tísku.
Linda bendir á að tíska sé samtal milli fólks og afleiðing borgarsamfélagsins. Því þéttara sem samfélagið er því meira máli skipti tíska. Samkeppni aukist milli fólks, um til dæmis störf og maka, og með því að nota vel „tækið tísku“ geti fólk hámarkað árangurinn. Auk þess eigi tíska tilveru sína undir áhorfendum. „Og það sést á klæðnaði Högna að hann er ekki bara að tala við okkur Íslendinga,“ segir hún, „heldur fólk í alþjóðlegu samhengi.“
Linda undirstrikar að tíska sé tungumál og líkt og önnur tungumál búi tíska meðal annars yfir setningum, málsgreinum og upphrópunar- og spurningamerkjum, eins og hugsuðurinn Bertrand Russel bendi á í bók sinni The Language of Fashion. Með hliðsjón af því sé gaman að velta fyrir sér hvaða skilaboðum fólk vilji koma á framfæri með klæðnaði sínum. „Það sem Högni er að segja með sinni tísku eða fatavali er framsækið, persónulegt, rómantískt og ljóðrænt,“ lýsir hún. „Og um leið er það „lifandi“ og í sífelldri þróun.“
- Linda Björg Árnadóttir, doktorsnemi í félagsfræði tísku.
Kormákur og Skjöldur
„Hér eru á ferðinni tvíeyki sem hafa breytt fatastíl karlpeningsins hér á landi. Fært okkar breskan eðalklæðnað og tweed. Þeir klæðast auðvitað mest fatnaði úr sinni verslun og úr eigin smiðju. Jakki, vesti og buxur í stíl, vel bónaðir skór og skyrta, þó það sé bara mánudagur. Óhræddir við notkun fylgihluta á borð við hatta og klúta,“ segir Álfrún Páldóttir, um Kormák Geirharðsson og Skjöld Sigurjónsson, eigendur Herrafataverslunar Kormáks & Skjaldar. Hún bætir við að henni finnist alltaf best þegar viðkomandi er trúr sínum stíl og sé ekki að elta trendin. Kormákur og Skjöldur eigi það sameiginlegt.
Biggi Veira
Helgi Ómars
Álfrúnu finnst Helgi kannski ekki beint skera sig úr með áberandi hætti en hann nái að gera einfaldleikann spennandi, til dæmis með því að nota fylgihluti vel. Eins sé hann óhræddur að prufa sig áfram. „Hann kann að setja saman fallegar samsetningar á klæðnaði, og veitir manni oft innblástur. Enda tískan í dag algerlega óháð kyni.“
Stefán Svan
Borghildi finnst Stefán skera sig úr „á góðan hátt“. „Hann virðist einfaldlega hafa virkilega gaman að því að velja sér flottar flíkur en það er gert á mjög einlægan hátt. Hann er ekki að elta „trendin“ þannig lagað heldur hefur fundið sér sinn persónulega stíl sem virkar ótrúlega vel fyrir hans karakter.“
Hún segir Stefán óhræddan við að vera „í tísku“. „En eins og ég sagði þá gerir hann það á sínum forsendum,“ tekur hún fram, „og það kemur frá einlægum áhuga grunar mig. Hann veit hvaða föt virka fyrir sig, er óhræddur við að vera svolítill húmoristi stundum, klæðast sterkum litum af og til og svo er hann líka algjör snillingur í að sjá hvaða flíkur innihalda alvöru gæði.“
Viktor Már Pétursson fatahönnunarnemi
„Viktor er augljóslega húmoristi og nær hann að miðla því með góðum og skýrum hætti til umhverfisins með klæðnaði sínum. Hann hefur allt það frelsi sem er til, til þess að leika sér með tísku og prófa allt mögulegt. Það er ekkert „dresscode“ í Listaháskólanum, þar sem hann er fatahönnunarnemi. Útkoman er framsækin og frumlegur en umfram allt sannfærandi stíll,“ segir Linda Björg um fatastíl Viktor Más.
Hún bendir á að ef litið sé á klæðnað almennings í sögulegu samhengi þá hafi ýmsar breytingar í samfélögum, til dæmis byltingar, haft þau áhrif að fatastíllinn breyttist hratt án þess að það sé fyrirfram ákveðið. Það sé einfaldlega ekki hægt að innleiða samfélagslegar breytingar án breytinga á fatnaði. Það þurfi að vera mismunandi útlit og klæðnaður, svona „fyrir“ og „eftir“ breytinguna til þess að hún geti verið innleidd í viðkomandi samfélag. Þannig virki tískan; hún sé fyrst og fremst dæmi um framsækni nýrra hugmynda. Með hverjum nýjum listamanni komi nýtt útlit og ný tíska. Gamlar hugmyndir séu skildar eftir með því að skipta um föt. Linda segir því áhugavert að snúa dæminu við og spyrja hvort við getum breytt samfélaninu með nýrri tísku? Sjálf telur hún til dæmis tónlistarmanninn David Bowie hafa gert það með alteregói sínu Ziggy Stardust. Og ef einhver geti haft svipuð áhrif á Íslandi sé það Viktor Már.
„Viktor er í alls konar tilraunastarfssemi með sinn klæðnað og er sem dæmi óhræddur við að blanda saman mjög ólíkum hlutum með það að markmiði að þróa sína eigin sjálfsmynd og gera framsæknar tilraunir á sjálfum sér. Hann er gangandi rannsóknar- og þróunarverkefni í fatahönnun sem vonandi endar aldrei.“
- Linda Björg Árnadóttir, doktorsnemi í félagsfræði tísku.